Steindór I. Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri, fæddist 22. ágúst 1936. Hann lést í Reykjavík 21. desember 2022.

Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörg Steindórsdóttir, húsmóðir, f. 1910 d. 1996, og Ólafur J. Sveinsson, loftskeytamaður, f. 1904, d. 1991. Systir Steindórs er María, f. 1945, gift Guðmundi Ólafssyni, f. 1944. Þau eiga þrjú börn.

Steindór giftist 22. september 1962 Huldu Gerði Johansen, hárgreiðslumeistara, f. 4. mars 1938. Foreldrar Huldu voru Johan Thulin Johansen, fulltrúi, f. 1907, d. 1975, og Svava Þorgerður Johansen, f. 1912, d. 2003. Börn Steindórs og Huldu eru: 1) Ólafur, f. 1964, giftur Juliu Bradburn, f. 1954. Börn þeirra eru Frederick, f. 1992, og Benjamin, f. 1994. Fyrir átti Julia dótturina Polly, f. 1973. 2) Hrund, f. 1967, gift Friðriki Einarssyni, f. 1968. Börn þeirra eru Lovísa Huld, f. 1999, og Árni Fannar, f. 1999. 3) Guðrún Gerður, f. 1971, gift Marinó Guðmundssyni, f. 1966. Börn þeirra eru Alexander Breki, f. 1997, Helena Ýr, f. 2002, og Hekla Sóley, f. 2004.

Fyrir átti Steindór dótturina Sigurbjörgu, f. 1958. Móðir: Guðlaug Skagfjörð. Þau skildu. Sigurbjörg giftist Frímanni Benediktssyni. Þau skildu. Börn þeirra eru Óskar, f. 1976, giftur Þórdísi Yrsu og eiga þau þrjú börn. Steindór, f. 1977, í sambúð með Hönnu Maríu og eiga þau tvö börn.

Steindór ólst upp í Reykjavík og lauk verzlunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands 1955. Hann stundaði framhaldsnám í London og í framhaldi réð hann sig til starfa hjá Flugfélagi Íslands í London. Hann vann hjá Pan American og Loftleiðum þar til hann hóf störf á Hótel Esju og varð síðar hótelstjóri þar. Árið 1981 fluttist fjölskyldan búferlum til Englands þar sem Steindór tók við stöðu forstjóra Cargolux í Bretlandi og Írlandi. Árið 1988 var tekin ákvörðun um að flytja aftur heim til Íslands með umboð fyrir Pizza Hut-veitingahúsakeðjuna í farteskinu. Fjölskyldan rak, þegar mest var, þrjá staði við góðan og farsælan orðstír. Fyrirtækið var selt árið 1999. Í framhaldi störfuðu þau hjónin sem fararstjórar hjá Ingólfi Guðbrandssyni um nokkurra ára skeið, víðs vegar um heiminn.

Steindór æfði sund á sínum yngri árum og síðar badminton. Hann spilaði á tenórhorn og spilaði með Lúðrasveitinni Svani. Steindór var alla tíð virkur í félagsstörfum. Hann var í Lionsklúbbnum Baldri, var formaður safnaðarráðs Fríkirkjunnar í Reykjavík og formaður Íslendingafélagsins í London. Fjölskyldan stundaði tennis í Englandi og þegar heim kom tók Steindór þátt í uppbyggingu tennisíþróttarinnar á Íslandi og var formaður Tennissambands Íslands um skeið. Golfíþróttin átti hug hans allan síðustu 20 árin.

Útför Steindórs fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. janúar 2023, klukkan 13.

Þakklæti er okkur efst í huga elsku pabbi þegar við sitjum hér og skrifum þessi orð til þín.

Þakklæti fyrir alla hlýjuna sem þú gafst af þér, fyrir virðinguna sem þú sýndir öllum, fyrir öryggið sem þú veittir okkur, fyrir ljúfmennsku þína og heiðarleika. Þakklæti fyrir endalausa þolinmæði þína og hjálpsemi, þakklæti fyrir þátttöku þína í okkar lífi og fyrir að vera okkur og okkar fólki besta fyrirmyndin. Þakklæti fyrir samveruna, fyrir ferðalögin, fyrir góða skapið þitt, fyrir hláturinn og óteljandi fimmaurabrandara. Þakklæti fyrir okkar fallega og ástríka samband. Þakklæti fyrir fallega og ástríka sambandið sem þú áttir við börnin okkar. Takk fyrir að vera vinur þeirra og besti afi sem hægt er að hugsa sér. Þau munu búa að því alla ævi og fyrir það erum við þakklátar.

Ást, virðing og vinátta einkenndi 61 árs hjónaband ykkar mömmu. Þið voruð svo samrýnd og flott hjón. Í veikindum þínum síðustu ár stóð mamma eins og klettur þér við hlið, svo aðdáun vakti. Fyrir hlýju hennar, óeigingirni, ást og dugnað verðum við ævinlega þakklátar. Við pössum upp á hana fyrir þig elsku pabbi okkar.

Þínar

Guðrún Gerður og Hrund.

Maður velur sér ekki tengdaforeldra þegar kemur að því að velja sér lífsförunaut. Ég get þó sagt með sanni að ég hafi unnið í tengdaforeldralottóinu þegar ég kynntist eiginkonu minni. Ekki aðeins hafa tengdaforeldrar mínir reynst mér einkar vel heldur hefur alla tíð verið á milli okkar djúp og góð vinátta. Við fyrstu kynni mín af Steindóri, tengdaföður mínum, var mér ljóst að þar færi vandaður og hógvær maður.

Steindór áorkaði margt á sinni lífsleið. Hann ferðaðist víða og var vel lesinn. Í hvert skipti sem ég hef nefnt nafn Steindórs við fólk sem kannast við manninn hafa viðbrögðin ávallt verið á sömu leið. Allir sem þekktu Steindór kunnu af honum góða sögu að segja. Hann var einlægur og fór aldrei í manngreinarálit. Hann kom fram við alla af hógværð og ég hef ekki hitt þá manneskju sem ekki þótti gaman að ræða við Steindór.

Hann var sérstaklega skemmtilegur og hafði þann eiginleika að kunna brandara við öll hugsanleg tækifæri. Þannig voru fyrstu kynni mín af tengdapabba að þrátt fyrir að vilja ekki trana sér fram, þá einhvern veginn dæmdist á hann að flytja ræður í fjölskylduboðum, brúðkaupum og afmælisveislum. Alltaf gat hann tengt brandara við tilefnið.

Fjölskyldan kom þó alltaf fyrst og Steindór lifði svo sannarlega fyrir fjölskylduna. Við eigum ófáar minningar með honum sem nú er gott að ylja sér við. Alltaf var hann tilbúinn að sinna barnabörnunum og alltaf var hann reiðubúinn þegar maður bað um aðstoð.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst Steindóri, tengdaföður mínum, fyrir að fá að vera hluti af hans lífi og þakklátur fyrir allt það sem við gerðum saman. Það er sárt að kveðja góðan mann en minningarnar ylja og fjölskyldan öll, Hulda, börnin og barnabörnin eiga margar góðar minningar sem lifa áfram um ókomna stund.

Minning um góðan mann lifir.

Friðrik Einarsson.

Steindór tengdapabbi minn var góður maður, ákaflega góður maður og einn sá albesti sem ég hef borið gæfu til að kynnast á lífsleiðinni. Ég kynntist honum fyrst þegar ég vann á auglýsingastofu og hann var viðskiptavinur, einhverra hluta vegna atvikaðist það þannig að hann hringdi stundum í mig í smá spjall og ráðleggingar um allt og ekkert. Einn daginn kom hópur viðskiptafræðinema í heimsókn á stofuna, þar á meðal glæsileg stúlka með mikið rautt hár, ég spurðist fyrir og kom á daginn að hún var dóttir Steindórs. Nokkru síðar úti á lífinu, sé ég hana og mana mig upp í að ganga að henni og spyrja: „Ertu ekki dóttir Steindórs á Pizza Hut?“ – talandi um pick-up-línur!

Steindór var einstakur maður. Ég held ég hafi aldrei nokkurn tímann heyrt hann segja nei við neinu af því sem við stórfjölskyldan báðum hann um að gera, hvorki stórt né smátt. Alltaf til þjónustu reiðubúinn hvenær sem var. Þegar við Guðrún bjuggum í London með okkar fyrsta barn, þá var það hann sem kom til aðstoðar ef kallað var, við áttum með honum ógleymanlegar stundir þar með Breka ungum.

Við Steindór gerðum ýmislegt saman í gegnum tíðina, fórum t.d. að veiða þar sem hvorugur svaf dúr allan túrinn fyrir hrotum í hinum! Ég ætla meira segja að taka smá kredit fyrir að hafa komið Steindóri í golfið. Þegar við erum að kynnast þá er hann hættur að spila tennis og er svona hálf-áhugamálalaus. Ég lagði því að honum að prófa golfið sem hann svo gerði og hafði svo mikla ánægju af, allt fram til hins síðasta. Við spiluðum ófáa hringina saman, sérstakalega á okkar sameiginlega sælureit, í Sarasota í Flórída þar sem við eyddum miklum tíma saman. Fáar minningar eru okkur fjölskyldunni jafn kærar og þessar fjölmörgu ferðir þangað og stundirnar sem við áttum þar með Huldu og Steindóri.

Þótt við Steindór hefðum átt margar góðar stundir saman þá var hann einstakur afi barnanna okkar Guðrúnar, fyrir það verð ég ævinlega þakklátur og ég mun minnast Steindórs svo lengi sem ég lifi. Guð blessi minningu hans.

Marinó.

Elsku afi okkar.

Það er svo sárt að kveðja þig, en við höfum ótal margar minningar sem við getum yljað okkur við þegar við hugsum til þín.

Það er svo mikið hægt að segja um þig. Þú varst svo hress og skemmtilegur og góður við alla. Þú lumaðir alltaf á góðum bröndurum og það var svo gaman að hlæja með þér. Þú krafðist aldrei neins af okkur en það þurfti ekki að spyrja tvisvar ef við þurftum á þér að halda. Þú varst alltaf tilbúinn og viljugur að gera hvað sem er fyrir okkur.

Við eigum eftir að sakna þess að koma í heimsókn til þín og spila við ykkur ömmu, fá að heyra sögur um ferðir ykkar um heiminn og brandara við öll tilefni.

Það sást langar leiðir hvað þú elskaðir okkur öll mikið og hversu heitt þú elskaðir ömmu, og þú varst svo sannarlega elskaður af öllum.

Margs er að minnast og margs er að sakna en við erum svo ævinlega þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum með þér.

Nú kveðjum við þig eins og þú kvaddir okkur oft: „See you later alligator, in a while crocodile.“

Takk fyrir allt, elsku afi, við elskum þig.

Árni Fannar

og Lovísa Huld.

Það þurfti enginn að eyða miklum tíma með afa til að sjá hversu ótrúlegur maður hann var, enda höfðu allir sem hann þekktu sömu skoðun á honum. Hann var alltaf fyrstur til að hjálpa og síðastur að kvarta og bað aldrei um neitt í staðinn. Við afi áttum alltaf mjög gott samband, alveg frá mínum fyrsta degi til hans síðasta og ég get ekki kallað það annað en hrein forréttindi að hafa þekkt þann mann í 25 ár, 3 mánuði og 20 daga. Afi var alltaf maðurinn sem maður gat leitað til ef maður þurfti aðstoð, ef mann vantaði skutl, ráð, hlátur eða bara að líma saman brotið kex, þá gerði hann það með bros á vör. Það er erfitt að kveðja þennan merka mann en ég mun alltaf vera þakklátur fyrir þann tíma sem ég fékk og þær minningar sem ég á, sem þegar ég hugsa til baka eru flestar eins, við að hlæja að einhverjum aulabrandara. Mest er ég samt þakklátur honum fyrir það að sýna mér með berum augum hvað góðvild, kærleikur, hjálpsemi og dugnaður kemur manni langt í lífinu.

Takk fyrir allt, þinn vinur,

Breki.

Okkar besta minning um afa eru fimmaurabrandarar eða pabbabrandarar.

Suma heyrðum við oft og voru þeir misjafnir en alltaf hlógum við samt. Hann hafði gaman af leik að orðum og margt er minnisstætt.

Húmor afa er eitthvað sem gleymist seint og hefur gengið kynslóða á milli, frá afa til pabba og örugglega frá pabba til okkar.

Ást afa á djasstónlist er önnur góð minning.

Við minnumst þess að vera með honum í bílnum og hlusta á enn eitt djasslagið þegar okkur langaði að hlusta á Ertha Kitt og létum hann svo spila endurhljóðblandaða hústónlist með djassívafi eins og Gregory Porter og Great Gatsby.

Ekki erum við vissir um hvort hann hafi haft gaman af þessari útfærslu á uppáhaldstónlistinni sinni, kannski fannst honum þetta vera afskræming en sú staðreynd að hann leyfði okkur að halda áfram að spila og njóta laganna okkar er eftirminnileg og yndisleg.

Tíðar heimsóknir til Íslands og allar heimsóknir afa og ömmu til Englands voru yndislegar stundir. Við elskuðum að fá hangikjöt, kleinur, kókómjólk og prins póló, sem þau komu alltaf með.

Við munum eftir jeppanum hans afa. Hann var með flottum áttavita á miðju mælaborðinu, sem við heilluðumst af sem börn, í okkar augum var þetta eins og geimfar.

Við elskuðum þann bíl og elskuðum afa mjög mikið. Við munum sakna þín mjög mikið. Skál.

Frederick Andrew

Johan og Benjamin Albert Steindór.

Elsku afi. Takk fyrir allt saman. Þú varst okkar stærsta fyrirmynd. Takk fyrir að hlýja höndunum okkar þegar okkur var kalt og hjartanu okkar þegar eitthvað var að. Takk fyrir alla afabrandarana þína, þeir voru alltaf jafn fyndnir sama hversu oft þeir voru sagðir. Takk fyrir að elska okkur með öllu þínu stóra hjarta. Það er fátt sem gerir okkur stoltari en að segja að þú sért okkar afi. Þú komst með hlýju og ást inn í líf okkar allra og við getum ekki verið neitt nema þakklátar þegar við hugsum til baka um allar góðu minningarnar. Þú sýndir okkur góðmennsku, þolinmæði en fyrst og fremst hvað raunveruleg ást er. Bara ef allir væru eins og þú. Fallegri sál verður erfitt að finna.

Við elskum þig alltaf.

Guð geymi þig.

Þínar

Helena Ýr og Hekla Sóley.

Ég var stjúpbarnabarn Steindórs og mörgum árum síðar varð hann langafi litla drengsins okkar. Steindór og Hulda voru í raun fyrsta fólkið sem hitti Lysander litla minn eftir fæðingu – takk fyrir það.

Ég hitti þau oft þegar þau bjuggu í Englandi eða þegar þau komu í heimsókn til Englands sem var alltaf yndislegt. Heimsóknir mínar til Íslands, stóru fjölskyldusamkomurnar, snjórinn og gamlárskvöld verða mér alltaf ofarlega í huga.

Steindór var svo vingjarnlegur og léttur í lund. Hann hafði svo ljúfa nærveru og öllum leið vel í hans návist. Hann var mikill samræðumaður – svo auðvelt að tala við hann og góður hlustandi.

Góður eiginleiki Steindórs var húmorinn hans. Hann var alltaf með „boom boom“ brandara á reiðum höndum sem fékk alla í kringum hann til að hlæja. Ekki veit ég hvernig hann mundi alla þessa brandara eða var svona snöggur að hugsa!

Hann virtist aldrei skipta skapi eða þurfa að hækka róminn – hann fór einfaldlega með straumnum, með sína ljúfa brosi og góðlátlega augnaráði. Satt að segja held ég að þessi maður hafi verið fullkomið dæmi um þolinmæði.

Síðasta samverustund okkar var á Aegina-eyju í Grikklandi sumarið 2019, sem var yndislegt fjölskyldufrí. Ég mun minnast hans með kaldan bjór í hádeginu, á uppáhaldsströndinni okkar að njóta í sólinni.

Njóttu næsta ferðalags Steindór.

Fáðu þér bjór eða vínglas og njóttu endalausa djassins sem þú elskaðir svo!

Polly Amanda Hadzis, Chris, Lysander og hinir.

Elsku Bói frændi hefur kvatt okkur.

Bói frændi var blíður, hlýr og alveg einstaklega léttur og skemmtilegur. Gleðin og brandararnir voru aldrei langt undan hjá Bóa. Hann sagði bæði skemmtilega frá og svo gerði hann óspart grín að sjálfum sér.

Það var aldrei leiðinlegt kringum Bóa.

Strákarnir mínir muna einmitt vel eftir honum þar sem hann þóttist taka af þeim nefið og sýndi þeim svo höndina þar sem nefið þeirra átti að vera. Man hvað þeir voru alltaf hissa að þar væri ekkert nef.

Ég var svo heppin að fá að vinna hjá Bóa frænda og Huldu á Pizza Hut. Þar fékk ég að byrja að vinna 13 ára og vann þar í og með næstu 10 árin.

Það var gott að vinna á Pizza Hut og Hulda og Bói voru sjálf aldrei langt undan og fyrstu árin stóð Bói oftar en ekki vaktina með okkur í salnum og Hulda þvoði upp og þreif eins og vindurinn.

Það segir líklega ansi margt um Bóa að margir vinnufélaga minna á Pizza Hut unnu þar lengi, margir árum saman.

Elsku Bói minn, þín verður sannarlega sárt saknað og minning þín mun lifa í hjörtum okkar.

Þín

Björg.

Leiðir okkar Steindórs (Bóa) lágu saman þegar við Maja systir hans byrjuðum að vera saman á sjöunda áratugnum. Hans létta lund var á margan hátt límið í fjölskyldu Óla og Sillu á Dunhaganum. Það tókst strax mikill vinskapur á milli okkar tveggja, sem leiddi til fjölda verðmætra samverustunda, oftar en ekki með Maju og Huldu og svo með fjölskyldunum okkar tveimur sem stækkuðu fljótt. Líklega var Bói sá maður sem ég hef tengst hvað sterkustum böndum á minni ævi.

Samband Bóa og Maju var um margt mjög sérstakt og afar náið. Þessi nánd smitaðist yfir á fjölskyldur okkar og er sem betur fer enn fyrir hendi. Það var alltaf frábært að umgangast Bóa. Brandararnir flugu, hvort sem umhverfið var laxveiði, utanlandsferðir, golf heima á Íslandi eða í Flórída, þar sem fjölskyldurnar undu sér gjarnan saman. Reyndin var ávallt sú að gamansögurnar voru mun skemmtilegri þegar þær komu frá Bóa en þegar ég reyndi að hafa þær eftir við þriðja aðila.

Bói var ekki bara gamansamur, heldur sérstaklega hlýr maður. Samband hans og Huldu var mjög náið, og þau áttu einstaklega vel saman. Það fór ekki fram hjá neinum að fjölskylda þeirra hefur alltaf verið afar samhent.

Þræðir okkar Bóa lágu víða saman. Við vorum golffélagar, vorum saman í Lions, og laxveiðifélagar til margra ára. Þar eru minnisstæðar fjölmargrar árlegar laxveiðiferðir ásamt Gunnari Björgvinssyni frænda þeirra Maju. Þar að auki var hann til margra ára framarlega í safnaðarstarfi Fríkirkjunnar í Reykjavík sem tengist fjölskyldu þeirra Maju til langs tíma. Það var sama hvar hann tyllti niður fæti, krafta hans var fljótt óskað í stjórnunarstörf.

Starfsferillinn var glæsilegur. Bói starfaði lengst af í flugtengdri starfsemi, fyrst hjá Flugfélagi Íslands Loftleiðum, en síðar hjá ekki ómerkari aðilum en Pan American og Cargolux í London. Þar kom að heimahagarnir toguðu í hann, hann vatt sínu kvæði í kross og samdi við Pepsi um að taka að sér rekstur Pizza Hut-veitingastaða á Íslandi. Þessi samningur vakti talsverða athygli, enda sárafáar erlendar veitingakeðjur starfandi á Íslandi á þeim tíma. Það verkefni leystu þau fjölskyldan eins og þeim var einum lagið. Starfsemin óx og dafnaði, allt þangað til Bói tók ákvörðun um að selja fyrirtækið og setjast í helgan stein.

Síðasta ár var Bóa heilsufarslega erfitt. Þá munaði mikið um að Hulda var við hlið hans eins og klettur, bæði heima við og svo á þeim stofnunum sem önnuðust hann. Þeir erfiðleikar eru nú að baki, og Bói án efa farinn að safna gamansögum í sumarlandinu til að skemmta okkur hinum með þegar leiðir liggja saman á ný. Eins og hann sagði gjarnan sjálfur: „Þeir segja að það séu frábærir golfvellir þarna hinum megin!“

Elsku Hulda, Didda, Óli, Hrund, Guðrún og fjölskyldur. Við Maja og fjölskylda sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Bóa.

Guðmundur Ólafsson (Gummi).

HINSTA KVEÐJA
Ástin mín.
Til er sorg svo djúp að hvorki orð né tár milda.
Þakka þér fyrir lífið okkar saman, árin okkar 62 og fyrir elsku börnin okkar.
Þín
Hulda.