Ferðaþjónusta Bjarnheiður Hallsdóttir er formaður SAF.
Ferðaþjónusta Bjarnheiður Hallsdóttir er formaður SAF. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Án erlendra ferðamanna gæti þessi fámenna þjóð aldrei staðið undir þessari miklu uppbyggingu,” segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), um það breiða net þjónustu og mannlífs sem finna má um land allt

Magnús Geir Kjartansson

mgk@mbl.is

„Án erlendra ferðamanna gæti þessi fámenna þjóð aldrei staðið undir þessari miklu uppbyggingu,” segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), um það breiða net þjónustu og mannlífs sem finna má um land allt. „Ferðaþjónustan er sjálfsprottin byggðaraðgerð sem hefur náð meiri árangri í eflingu landsbyggðarinnar og varðveitingu dreifðrar byggðar, heldur en aðgerðir sem komið hafa að ofan síðustu áratugi.“

Í aðsendri grein Lárusar Þórs Guðmundssonar, sem birtist í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, er gagnrýni beint að útbreiðslu ferðaþjónustunnar og ósjálfbærri þörf til að ganga á auðlindir landsins. „Þetta eru skýr merki græðgisvæðingar. Við ætlum að hámarka nýtingu á öllum þeim auðlindum sem við teljum okkur eiga svo mikið af á sem skemmstum tíma,“ skrifar Lárus m.a. í grein sinni.

Bjarnheiður segist ekki geta tekið undir fullyrðingar Lárusar um umfang meintra vandræða sem þjóðin standi frammi fyrir af völdum ferðaþjónustunnar. „Ferðaþjónustan gerir sér fulla grein fyrir því að hún geti ekki vaxið og dafnið án þess að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Bæði iðnaðurinn og stjórnvöld hafa gert sjálfbærni að megináherslu í áætlunum sínum og hefur sjálfbær hugsunarháttur orðið gríðarlega áberandi á þeim áratugi sem liðið hefur frá því að sprenging varð á straumi ferðamanna til landsins. Markmið okkar er ekki að auka fjölda ferðamanna út í hið óendanlega heldur fyrst og fremst að auka verðmæti og verðmætasköpun greinarinnar, sem þýðir að við viljum gjarnan laða til okkar gesti sem dvelja lengur og eyða meiri peningum.“

Lárus lýsir yfir áhyggjum af stöðu innviða í landinu og telur hann straum ferðamanna ekki létta róðurinn. „Þjóðvegakerfið er hætt að standa undir öllum þungaflutningum. Rútur, flutningabifreiðar og önnur umferð með tilheyrandi mengun,“ ritaði Lárus.

Bjarnheiður tekur undir mikilvægi þess að innviðum sé haldið við í samræmi við aukið álag á þeim. „Innviðir hafa ekki alltaf byggst upp á sama hraða eins og ferðaþjónustan hefur gert og það er alveg rétt að við erum dálítið á eftir í þeirri uppbyggingu. Bæði ríki og sveitarfélög hafa á síðustu árum aukið verulega við þá fjármuni sem notaðir eru til viðhalds og uppbyggingar á innviðum tengdum ferðamannastöðum. Við bendum samt á mikilvægi þess að hraði innviðauppbyggingar sé aukinn þar sem við veðjum á ferðaþjónustu til framtíðar,“ segir Bjarnheiður.

Höf.: Magnús Geir Kjartansson