Anna Claessen hefur sjálf lent í kulnun og veit hve erfitt getur verið að ná sér eftir það. Hún segir gott að taka einn dag í einu.
Anna Claessen hefur sjálf lent í kulnun og veit hve erfitt getur verið að ná sér eftir það. Hún segir gott að taka einn dag í einu. — Morgunblaðið/Ásdís
Spurðu þig hvað þig langi til að gera til að bæta heilsuna og hvaða leiðir þú vilt velja. Ekki gera of mikið í einu.

Einkaþjálfarinn, markþjálfinn og nýbakaða móðirin Anna Claessen hefur komið víða við í lífinu en flestallt sem hún gerir snýr að heilsu og heilbrigði. Á þrítugsaldri bjó Anna í Vínarborg og síðar í Los Angeles áður en hún flutti heim, en erlendis lagði hún stund á fjölmiðlafræði og sönglist. Eftir heimkomuna heillaði líkamsræktargeirinn Önnu, en hún var ein af þeim fyrstu sem kynnti Zumba fyrir þjóðinni árið 2010, eftir að hafa lært til Zumba-kennarans í Noregi. Í dag er hún í sambúð, á eins árs dreng og stjúpdóttur, og hefur bæði lært einkaþjálfun og markþjálfun. Hún hefur mikla reynslu að baki og veit fátt betra en að hjálpa öðrum að ná markmiðum sínum.

Kulnun og endurskoðun

Anna hefur reynt það á eigin skinni að fara fram úr sér og endaði í kulnun.

„Það var hræðilegt. Ég hef lent í þunglyndi og kvíða en þegar ég lenti í kulnum komst ég ekki fram úr rúminu, hafði enga orku og upplifði svakalegt minnisleysi. Svefninn fór í rugl og mér fannst ég ekki geta neitt; allt var svo erfitt. Þetta var orðið svo slæmt að ég leitaði mér hjálpar, fyrst hjá heimilslækni og síðar fór ég bæði í VIRK og Hugarafl en það var frábært til að öðlast andlegan styrk. Ég tók heilsuna algjörlega í gegn og minnkaði mikið vinnuna og fór að vinna í „spa“-inu í World Class í rólegu umhverfi og kenndi smávegis dans með. Það magnaða við kulnun er að maður fer að endurskoða líf sitt og fer að breyta til,“ segir Anna og segir það hafa tekið langan tíma að finna aftur jafnvægi í lífinu.

„Eftir það fór ég í einkaþjálfaraskólann. Eftir að ég lauk því námi fór dagskráin mín fljótlega aftur að fyllast um of þannig ég hægði á mér aftur og er nú með vellíðunarstúdíóið Happy Studio þar sem ég og besti vinur minn, Friðrik Agni, bjóðum upp á einkaþjálfun, danskennslu, skemmtanir og ráðgjöf,“ segir Anna.

„Við erum með námskeið á netinu og einnig er hægt að vera með mánaðarlega áskrift þar sem fólk fær aðgang að ýmsum námskeiðum. Fólk þarf að mæta sér þar sem það er. Það er ekki nóg að segja fólki bara að fara fram úr rúminu og fara í göngutúr.“

Hvíldardagurinn heilagur

Mikilvægt er að hlúa vel að sjálfum sér að sögn Önnu, en mörgu fólki reynist erfitt að finna tíma til þess í amstri dagsins, enda oft mikið að gera í vinnu og að sinna fjölskyldu.

„Fólk þarf að búa til tíma. Fólk getur búið til tíma fyrir börn sín eða vinnufundi og þá getur það búið til tíma fyrir sjálft sig. Það þarf ekki að vera langur tími. Byrjaðu á að gefa þér fimm mínútur. Þegar ég var að vinna mig út úr kulnun tók ég sunnudaga frá til að hvíla mig. Fólk mátti ekki tala við mig á sunnudögum og vissi það. Ég vil helst hafa alla sunnudaga svona til að safna kröftum fyrir komandi viku,“ segir hún og segist þurfa að passa vel upp á svefninn því annars fari allt úr skorðum.

Anna segir fólk verði að skoða hvað gefi því ró.

„Sumir prjóna, aðrir fara í göngutúr, í heitt bað eða hlusta á eitthvað rólegt. Það er mismunandi eftir einstaklingum en allir þurfa eitthvað til að láta sér líða betur.“

Raddirnar í höfðinu

Í einkaþjálfun segist Anna hlusta á hvað kúnninn vilji og leggur hún áherslu á að fólk eigi ekki að vera of hart við sjálft sig. Fólk þarf að kynnast sjálfu sér og þekkja sín mörk.

„Ég er með ókeypis námskeið á netinu sem ég kalla Til mín. Þarna eru verkefni sem fólk gerir með það að markmiði að hlúa að sjálfu sér,“ segir hún og segir marga hugsa eingöngu um velferð annarra en gleyma sjálfum sér.

„Við skiptum líka máli og megum taka pláss,“ segir hún og segir fólk þurfi að íhuga neikvæðnisraddir í höfði sér.

„Hvaðan koma raddirnar sem segja að maður sé ekki nógu góður; nógu mjór, nógu duglegur? Er það satt? Hver og einn þarf að skoða sjálfan sig og auðvitað má skoða hvað má fara betur eða hvaða stuðning maður þurfi til að líða betur.“

Njóttu vegferðarinnar

„Hvaða litla skref er hægt að taka í átt til betri heilsu?“ spyr Anna og segir fólk eigi alls ekki að hugsa um ræktina sem refsingu, heldur frekar njóta hennar.

„Fólk á frekar að líta á tímann í ræktinni sem sinn einkatíma; tíma frá fjölskyldunni og vinnunni. Best er að fólk velji sér eitthvað sem því þykir skemmtilegt sem hægt er að tengja við vellíðan.“

Hvaða ráð viltu gefa fólki sem vill byrja nýja árið á breytingum til þess að öðlast betri heilsu?

„Spurðu þig hvað þig langi til að gera til að bæta heilsuna og hvaða leiðir þú vilt velja. Ekki gera of mikið í einu. Síðan skaltu alltaf klappa þér á bakið þó skrefin séu lítil og ekki refsa þér. Taktu einn dag í einu. Sýndu þér sjálfsmildi og njóttu vegferðarinnar.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir