Síðasti stórátakatíminn á undan hruninu var fyrir kosningarnar vorið 2003 og fram á haust 2004. Þá myndaði Samfylkingin bandalag með hópum í viðskiptalífinu.

Vettangur

Bjorn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Efnt var til málþings um bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors, Landsdómsmálið – stjórnmálarefjar og lagaklækir, í Háskóla Íslands 16. janúar. Ögmundur Jónasson, fyrrv. ráðherra, var frummælandi auk höfundarins. Í lok málþingsins tók Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, til máls.

Geir er eini Íslendingurinn sem sætt hefur ákæru og verið sóttur til saka fyrir landsdómi frá því að hann kom til sögunnar árið 1905. Í 14. grein stjórnarskrárinnar segir að alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra og landsdómur dæmi þau mál. Hann er skipaður 15 dómurum, löglærðum og leikum.

Alþingi ákvað 28. september 2010 að ákæra Geir H. Haarde. Landsdómur kom í fyrsta sinn saman 10. febrúar 2011 og var dómur kveðinn upp 23. apríl 2012 – fimm vikum eftir að munnlegum málflutningi lauk í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Geir var sýknaður af öllum ákæruatriðum nema einu.

Meiri hluti landsdóms taldi Geir hafa látið fyrir farast að gera það sem mælt væri fyrir um í 17. grein stjórnarskrárinnar, að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Hann hefði ekki haldið slíka fundi um stórfellda hættu sem að ríkinu steðjaði af yfirvofandi falli bankanna og ljós hefði orðið snemma árs 2008. Bankarnir hrundu í byrjun október 2008. Sakfelldi meiri hluti landsdóms, níu dómarar af fimmtán, Geir án refsingar en minni hlutinn vildi sýkna hann.

Í bókinni segir Hannes Hólmsteinn erfitt að „verjast þeirri hugsun, að meiri hluti landsdómsins hefði gert smávægilegt orðalagsatriði að aðalatriði í því skyni að geta sakfellt Geir fyrir eitthvað, svo að meiri hluti Alþingis færi ekki sneypuför, jafnframt því sem fullnægt væri sterkum þjóðarvilja um að láta einhvern sæta ábyrgð á bankahruninu“.

Ögmundur Jónasson lýsti svipaðri skoðun, Geir hefði ekkert til saka unnið. Það mætti hins vegar ekki gleyma leiðarstefi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra vegna málaferlanna: „að róa þjóðina“. Pólitík hefði ráðið för þegar þingmenn ákváðu að ákæra, þetta hefði ekki verið neitt annað en pólitík. Ögmundur sagði réttilega að erfiðleikar bankanna hlytu að hafa verið ræddir í ríkisstjórn Geirs og hvert kynni að stefna. Ráðherrar hefðu auðvitað rætt málið eins og öll þjóðin.

Notaði Ögmundur sterk orð á fundinum þegar hann lýsti undrun yfir að dómarar í mannréttindadómstólnum í Strassborg litu fram hjá pólitíkinni í ákærunni gegn Geir. Pólitík hefði ráðið för, ekkert annað. Þetta vissi hann frá fyrstu hendi þar sem hann hefði verið í ákærendahópi þingmanna, síðar hefði honum orðið ljóst að þar var ekki rétt að verki staðið.

Þótt Ögmundur Jónasson og Hannes Hólmsteinn væru í stórum dráttum samstiga í efnislegri gagnrýni sinni á niðurstöðu meiri hluta landsdóms greindi þá á um orsök hrunsins.

Ögmundur sagði að rætt hefði verið um áfallateymi fyrir þjóðina í þann mund sem rannsóknarnefnd alþingis skilaði skýrslu sinni, sjálfur hefði hann verið í þörf fyrir áfallahjálp frá því að áhrifa stjórnarstefnu Davíðs Oddssonar fór að gæta á tíunda áratugnum.

Spurt var hvort halda ætti í landsdóm. Hannes Hólmsteinn var á því en með betri málsmeðferð. Ögmundur var í vafa. Geir H. Haarde sagði að takast ætti á um pólitíska ábyrgð í kosningum og láta kjósendur dæma. Lægju ráðherrar undir grun um saknæmt atferli ætti að rannsaka það og dæma eins og hvert annað sakamál.

Þegar Ögmundur Jónasson ræddi um þróun bankastarfsemi og útlána á öðrum áratug aldarinnar minntist hann á loforðið sem framsóknarmenn gáfu fyrir kosningarnar 2003 um allt að 90% lánshlutfall Íbúðalánasjóðs.

Í kosningabaráttunni þá sótti ég fund í lánastofnun þar sem fundarmenn voru yfir sig hneykslaðir á þessu loforði. Það væri algjör fásinna að bjóða slíkt.

Fór ég með það veganesti af fundinum að þarna yrði að veita sterkt viðnám. Þegar bankarnir völdu síðan þá leið eftir kosningar að bjóða 100% hlutfall varð minna úr viðnáminu en annars hefði orðið. Þetta var tími yfirboða sem þjóðin er enn að súpa seyðið af eins og sést af umræðunum um ÍL-sjóðinn, leifar Íbúðalánasjóðs, og uppgjör á honum.

Samtal Hannesar Hólmsteins og Ögmundar Jónassonar á málþinginu vakti fleiri minningar um örar breytingar á íslensku samfélagi á árunum frá 1991 til 2008.

Þegar litið er til baka voru áhrif stóra stökksins með aðildinni að evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 meiri á fyrstu 15 aðildarárunum en við var ráðið. Samhliða gjörbreytingu í samkeppnismálum og starfsumhverfi fjármálastofnana vegna EES festi kvótakerfið sig í sessi eftir að framsalsréttur aflaheimilda var lögfestur undir forystu vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar árið 1990.

Síðasti stórátakatíminn á undan hruninu var fyrir kosningarnar vorið 2003 og fram á haust 2004. Þá myndaði Samfylkingin bandalag með hópum í viðskiptalífinu sem töldu réttarkerfið misnotað gegn sér. Stofnað var til stórátaka um eignarhald á fjölmiðlum. Forseti Íslands tók sér stöðu gegn ríkisstjórninni með peningamönnum sem hann studdi af einurð fram yfir hrun. Jafnframt birtist sumarið 2003 til umdeild skoðun innan hæstaréttar að dómarar ættu að velja dómara en ekki ráðherrar. Dró hún dilk á eftir sér.

Bókin um landsdómsmálið snýst öðrum þræði um persónur og leikendur á þessum átakatímum. Öllum æðstu stjórntækjum lýðveldisins var beitt til að ná flokkspólitískum markmiðum. Stjórnkerfið og stjórnarskráin stóðust áraunina – ný stjórnarskrá er óþörf.