Tímamót Júlíus J. Jónsson þakkar fyrir sig í kveðjuhófi fyrir skömmu.
Tímamót Júlíus J. Jónsson þakkar fyrir sig í kveðjuhófi fyrir skömmu. — Ljósmynd/Garðar Ólafsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Margar pestir hafa hrjáð landsmenn að undanförnu, fólk verið hvatt til þess að fara varlega og taka því rólega heima veikist það. Fréttir af þessu tagi hafa ekki snert Júlíus Jón Jónsson, en síðan hann byrjaði að vinna hjá Hituveitu Suðurnesja fyrir rúmum 40 árum og þar til hann hætti sem forstjóri HS Veitna um nýliðin áramót, missti hann aðeins úr þrjá daga vegna aðgerða, engan vegna veikinda! „Ef maður er heppinn og nógu þrjóskur getur þetta gerst,“ segir hann.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Margar pestir hafa hrjáð landsmenn að undanförnu, fólk verið hvatt til þess að fara varlega og taka því rólega heima veikist það. Fréttir af þessu tagi hafa ekki snert Júlíus Jón Jónsson, en síðan hann byrjaði að vinna hjá Hituveitu Suðurnesja fyrir rúmum 40 árum og þar til hann hætti sem forstjóri HS Veitna um nýliðin áramót, missti hann aðeins úr þrjá daga vegna aðgerða, engan vegna veikinda! „Ef maður er heppinn og nógu þrjóskur getur þetta gerst,“ segir hann.

Eftir að hafa útskrifast sem viðskiptafræðingur starfaði Júlíus í Reykjavík, en flutti suður með sjó og hóf störf sem skrifstofu- og fjármálastjóri hjá Hitaveitu Suðurnesja 1. október 1982. Varð síðan forstjóri 1992. 2008 var fyrirtækinu skipt upp í HS Orku og HS Veitur og var hann forstjóri þeirra beggja í fimm ár, en síðan eingöngu hjá HS Veitum frá 2014. „Ég er fæddur Suðurnesjamaður og helsta ástæða þess að ég sótti um starfið á sinum tíma var að flytja aftur á Suðurnesin,“ segir hann.

„Ég þekkti ekkert inn á Hitaveitu Suðurnesja og ekkert inn á orkumál,“ heldur hann áfram. Starfið hafi verið gefandi, vinnustaðurinn skemmtilegur og engin ástæða verið til að breyta til. Eðlilega hafi orðið miklar og hraðar breytingar á löngum tíma, verkefnum fjölgað og verið víða og fjölbreytnin mikil. „Þó ég hafi verið á sama stað hef ég ekkert verið á sama stað.“

Frí, fótbolti og golf

Við þessi tímamót er þakklæti fyrir að fá að hafa fengið að taka þátt í og leiða þróunina í 40 ár efst í huga Júlíusar. „Ég er heppinn að hafa fengið þetta tækifæri.“ Virkjanir, sem HS orka hafi nú umsjón með, hafi verið stórauknar á þessum tíma, veitukerfin verið endurbætt til muna og svo megi lengi telja. „Varmadælustöðin í Vestmannaeyjum var til dæmis tímamótadæmi.“

Á árum áður spilaði Júlíus sem tengiliður í fótboltaliði Reynis í Sandgerði og færði sig síðan aftur í miðvörðinn áður en hann hætti 1985. Hann segist alla tíð hafa verið hraustur og ekkert hafi bitið á sig.„Pestir hafa látið mig í friði og ég hef hvorki fengið flensu né Covid,“ segir hann. Vissulega hafi komið upp sú staða að hann hafi getað tekið veikindafrí, en hann hefði aldrei talið sig nógu veikan til þess. „Ég var einn dag á spítala vegna slitinnar hásinar, annan dag þurfti að laga æðahnúta og þann þriðja þurfti eitthvað að gera við axlirnar. Þar með eru fjarvistirnar upptaldar.“

HS Veitur njóta enn starfskrafta Júlíusar sem ráðgjafa en hann er kominn í langt frí með Ingibjörgu Magnúsdóttur, eiginkonu sinni, og ætlar að njóta þess að spila golf á Flórída næstu mánuðina. Hann er með 15 í forgjöf en náði best 4,4. „Eftir að ég hætti í fótboltanum hef ég mikið verið í golfi í frítímanum,“ segir Júlíus. Hann reyni líka að sjá sína menn í fótboltanum í Sandgerði og Keflavík á hverju sumri og hafi séð marga leiki erlendis, síðast Tottenham á móti Arsenal um liðna helgi. „Ég hef séð um 30 til 40 heimaleiki hjá Tottenham í gegnum tíðina, en nú er það golfið.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson