„Íslenskan myndi aldrei bíða þess bætur yrði ljóðinu ýtt út. Það er því gleðilegt að ljóðið lifir enn þá góðu lífi og mikið kemur út af ljóðabókum. En við þurfum stöðugt að vera á verði enda sækja önnur öfl stíft að tungumálinu okkar,“ segir Arnar Jónsson.
„Íslenskan myndi aldrei bíða þess bætur yrði ljóðinu ýtt út. Það er því gleðilegt að ljóðið lifir enn þá góðu lífi og mikið kemur út af ljóðabókum. En við þurfum stöðugt að vera á verði enda sækja önnur öfl stíft að tungumálinu okkar,“ segir Arnar Jónsson. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það henda engar siðaðar þjóðir fólki út bara fyrir þær sakir að það nær einhverjum tilteknum aldri. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það vill og getur

Arnar Jónsson býr á fjórðu hæð í lyftulausu húsi. Spurður hvort það sé ekki vesen þegar menn eru komnir á svona virðulegan aldur hristir hann höfuðið. „Nei, þvert á móti. Stiginn gerir mér miklu meira gagn en ógagn. Hann hjálpar mér að halda mér í þjálfun. Ég þarf líka á þessu að halda enda búinn að vera hálffótalaus síðan ég slasaði mig illa fyrir tæpum fjörutíu árum.“

Slysið sem Arnar vísar til varð með þeim hætti að stillans sem hann var að vinna á gaf sig með þeim afleiðingum að hann féll til jarðar. Arnari tókst að lenda á fótunum en braut á sér báða ökkla og hæla og þurfti að notast við hjólastól í hálft ár á eftir. Hann náði sér merkilega vel en kveðst þó koma til með að þurfa að glíma við eftirköstin út lífið. „Ég hafði alltaf verið fimur, getað farið heljarstökk á sviði og hvað eina og hélt að leikferlinum væri þarna lokið en sem betur fer gerðist það ekki,“ segir Arnar sem var nýbúinn að leika Gísla Súrsson í kvikmyndinni Útlaganum á þessum tíma. Spartverskan kappa. „Þessi fimi hjálpaði mér á sviðinu, ekki bara í hreyfingum, heldur ekki síður í orku. Þess vegna tala ég gjarnan um leikferil minn fyrir og eftir slysið.“

– Varstu í fimleikum sem strákur?

„Nei, bara í leikfimi í skólanum heima á Akureyri. Ég áttaði mig snemma á því að ég væri liðugur og fimur. Ég þjálfaði mig ekki meðvitað til neins en fannst þetta spennandi og skemmtilegt. Síðar meir nýttist það allt á sviðinu.“

Arnar þjálfaði ekki bara líkamann, heldur líka röddina. „Richard Burton, sem var frá Wales, æfði röddina með því að fara upp á fjallstinda og hrópa tind af tindi. Sjálfur vann ég í sumarbúðum á Böggvisstöðum í Svarfaðardal í tvö sumur þegar ég var ungur maður og notaði hvert tækifæri til að ganga með krakkana á Böggvisstaðafjall og reyna að fá hljóm og dýpt í röddina. Þetta var mjög skemmtilegur tími og ég er enn að hitta fólk sem var þarna og man eftir mér. „Ég var hjá þér á Böggvisstöðum í gamla daga,“ segir það.“

Hann brosir.

Síðar komst Arnar aftur í hann krappan þegar hann velti bíl sínum í flughálku í Kömbunum. „Ég fór margar veltur og eins og þegar ég féll af stillansinum var eins og tíminn stæði í stað. Það er stórundarleg tilfinning. Eldri hjón, sem voru á eftir mér, námu staðar og hafa ábyggilega haldið að þau væru að sjá draug þegar ég steig út úr bílnum. En það var ekki skráma á mér. Það er svo furðulegt.“

Hoppar niður af stallinum

Arnþór ljósmyndari er mættur til að taka myndir af viðmælandanum og veltir fyrir sér hvort léttleikinn eða dramatíkin eigi að ráða för. „Þú ræður því, elskan mín,“ segir Arnar, „en ég hef enga sérstaka þörf fyrir að vera hátíðlegur. Það er alltaf verið að setja mann á einhvern stall, sérstaklega eftir því sem maður verður eldri, en ég hef alltaf reynt að hoppa niður af þeim stalli. Kannski þekkir fólk mig betur úr dramatískari hlutverkum í seinni tíð en á mér eru fleiri hliðar og þegar ég var yngri lék ég mikið í gamanleikritum, óperettum og slíku.“

Þeir prófa hvort tveggja og allir eru sáttir. Líka snáðinn sem heldur á ljósinu.

En áfram með samtalið. Við blasir að spyrja Arnar næst hvernig tilfinning það sé að verða áttatíu ára?

„Mér finnst það bara absúrd. Þetta passar ekki, það er ennþá einhver strákur þarna sem langar bara til að sprella dálítið. En ég verð víst að láta mig hafa það.“

Hann hlær.

„Annars veit ég ekki hvernig mér á að líða. Hvernig líður áttræðu fólki? Ég er við góða heilsu, sem skiptir öllu máli, og hef á heildina litið lifað góðu lífi. Auðvitað hefur lífið líka lamið mig heilmikið, eins og gengur. Erfiðast fannst mér að verða þrítugur. Það voru einhver undarleg skil, með breytingum og ábyrgð sem óx mér í augum. Ég fann ekkert fyrir því að verða fertugur og fimmtugur og fannst bara gott að verða sextugur og sjötugur. Þess vegna leggst vel í mig að verða áttræður. Auðvitað finn ég að líkaminn orkar ekki eins miklu og þegar ég var yngri en ég er bara tiltölulega brattur miðað við allt og allt. Ég reyni að halda mér í formi, þó ég geti ekki gengið mikið. Ég fór í golfið eftir slysið og varð nánast atvinnumaður. Golfið hefur gefið mér mikið.“

Hún er alltaf hjá mér

Hann er þakklátur fyrir margt fleira. „Ég á mér alls konar líf sem gleðja mig og gera mér gott. Ég stend enn á leiksviði sem hefur glatt mig svo mikið gegnum tíðina. Svo er það ljóðalífið, ástríða sem hefur fylgt mér frá blautu barnsbeini. Síðast en ekki síst á ég mér dásamlegt fjölskyldulíf og góða vini, bæði lífs og liðna. Þráinn vinur minn og kollegi Karlsson er farinn en samt alltaf nálægur. Sama má segja um elstu dóttur okkar, Guðrúnu Helgu, sem kvaddi okkur alltof snemma. Hún er alltaf hjá mér – með einum eða öðrum hætti.“

– Það er ekki hægt að verða fyrir þyngra höggi í lífinu en að missa barn.

„Nei, maður á ekki að þurfa að standa yfir moldum barna sinna. Það er ekki hægt að lýsa slíku áfalli með orðum. Fyrst á eftir leit maður við og bjóst við henni inn um dyrnar á hverri stundu. Maður heyrði líka hláturinn hennar en hún var mjög glaðsinna. Hún var alltaf nálæg. Þetta er öðruvísi í dag en nærvera hennar er eigi að síður stöðug. Það er mjög gott og notalegt að finna fyrir henni nálægt sér.“

Arnar og Þórhildur Þorleifsdóttir, eiginkona hans, eignuðust fimm börn. Guðrún Helga var elst, þá kemur Sólveig, Þorleifur Örn, Oddný og Jón Magnús. Þrjú þeirra hafa fetað í fótspor foreldra sinna sem leikarar og leikstjórar. Með góðum árangri, svo sem þjóðin þekkir. „Þetta er mikið barnalán,“ segir faðirinn.

Barnabörnin eru orðin níu og eitt þeirra slær einmitt á þráðinn til afa síns meðan á spjalli okkar stendur. Afinn svarar ljúflega og lofar að tala betur við sonarsoninn þegar tími gefst til. Nú sé hann í blaðaviðtali. „Þetta er nú enn eitt hlutverkið sem ég er ákaflega þakklátur fyrir,“ segir hann og ljómar.

Verður vonandi fordæmi

Því fer víðsfjarri að Arnar sé sestur í helgan stein. Þvert á móti kveðst hann enn hafa mjög mikið að gera. Til marks um það var hann að frumsýna nýja sýningu í gærkvöldi, kvöldið fyrir áttræðisafmælið, Marat/Sade í Borgarleikhúsinu. Hann er þar í aðalhlutverki, leikur De Sade markgreifa. Leikhópurinn er mjög skemmtilega samsettur en yngstu menn eru um sjötugt og þeir elstu komnir fast að níræðu.

„Vonandi verður þetta fordæmi,“ segir Arnar með nokkrum áhersluþunga. „Það er fullkomin tímaskekkja að láta fólk hætta að vinna þegar það er 67 ára eða sjötugt. Áður voru menn búnir á þessum aldri, á líkama og sál, vegna erfiðra kringumstæðna en það á ekki lengur við. Það á að afnema þessa reglu strax! Við sem tökum þátt í Marat/Sade erum upp til hópa spræk og búum að mikilli reynslu og kunnáttu sem leikhúsið á vitaskuld að færa sér í nyt. Þetta er raunar einstök hugmynd; líklega hefur aldrei í sögu íslensks leikhúss eins mikil reynsla og kunnátta verið samankomin á sama sviðinu. Unglingadýrkun og narsisismi nútímans er mér ekki að skapi. Það henda engar siðaðar þjóðir fólki út bara fyrir þær sakir að það nær einhverjum tilteknum aldri. Fólk á að fá að vinna eins lengi og það vill og getur.“

Hryggjarstykkið í verkinu, sem er eftir Peter Weiss, eru samtöl De Sade og byltingarmannsins Marat, sem Sigurður Skúlason leikur. Sögusviðið er geðveikrahæli í Charenton og vistmenn setja upp leikrit undir stjórn De Sade sem sjálfur er vistmaður á hælinu. Sumsé leikrit inni í leikriti. Verkið hverfist um frönsku byltinguna og er þrungið af átökum og andstæðum sem endurspeglast í hinum týndu sálum hælisins.

Af öðrum leikendum má nefna Árna Pétur Guðjónsson, Kristbjörgu Kjeld, Hönnu Maríu Karlsdóttur, Helgu Elínborgu Jónsdóttur, systur Arnars, Eggert Þorleifsson, mág hans, og eiginkonuna, Þórhildi Þorleifsdóttur. Leikstjóri er Rúnar Guðbrandsson.

Stund hefndarinnar

Margrét Guðmundsdóttir leikur Charlotte Corday í sýningunni, líkt og hún gerði í Þjóðleikhúsinu, árið 1967, þegar verkið var fremur nýtt af nálinni. Corday drap sem kunnugt er Marat. Ári áður höfðu Arnar og Margrét leikið saman í uppfærslu á Fando og Lis eftir Fernando Arrabal, þar sem persóna Arnars ber persónu Margrétar til bana með svipu. Á fyrstu æfingunni núna rak Margrét upp stór augu þegar Arnar færði henni þessa sömu svipu en Corday húðstrýkir De Sade í Marat/Sade. „Jæja, Margrét mín. Þá er stund hefndarinnar runnin upp!“

Hann hlær.

Það getur borgað sig að geyma gamla leikmuni, eins og Arnar hefur gert gegnum tíðina. Hann á til dæmis sverðið sem hann notaði í Útlaganum. Á vísum stað.

Arnar hefur áform um að leika frumsýninguna mjög hægt – þannig að síðustu setningarnar falli eftir miðnætti, þegar hann verður orðinn áttræður. „Ég veit samt ekki hvort þetta tekst,“ segir hann hlæjandi.

Hafi hann náð þessu mega lesendur sem voru á frumsýningunni gjarnan senda mér línu á netfangið hér að ofan.

– Muntu halda áfram að leika á níræðisaldrinum?

„Já, frá mínum bæjardyrum séð er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að stíga á svið – meðan ég get og langar til. Vonandi sjá leikhúsin það í sama ljósi.“

Ekki skortir í öllu falli reynsluna en Arnari telst til að aðalhlutverkin sem hann hefur leikið séu farin að slaga upp í æviárin. Þá eru ótalin öll smærri hlutverkin. Þeir eru ekki margir leikararnir sem slá honum við að þessu leyti, ef nokkur.

Ljóðalestur á vínyl

Afmælisbarnið hyggst ekki slá upp veislu að sinni en reiknar með að fara út að borða með fjölskyldunni í kvöld. „Við hjónin höfum verið mjög upptekin við æfingar að undanförnu og enginn tími til að skipuleggja veislu. Með haustinu kemur á hinn bóginn út tvöföld vínylplata með ljóðalestri mínum og það er gott tilefni til að slá upp veislu. Einnig stendur til að opna heimasíðu, þar sem þessi lestur verður aðgengilegur, og ég ætla að reyna að láta þetta falla saman.“

Arnar gerði grein fyrir þessu verkefni í samtali við Sunnudagsblaðið síðasta sumar en þarna kinkar hann kolli til lærifeðra sinna og uppáhaldsskálda, lífs og liðinna. „Ég hef lengi átt mér þann draum að gefa út ljóðalestur á plötu enda er ljóðaflutningur skrýtin skepna og þarf langa meðgöngu. Það komast rúmar 20 mínútur á hverja hlið vínylsins, þannig að þetta verða um 90 mínútur í það heila. Það veitir ekkert af því. Ég fer í að klára þetta verkefni núna strax eftir frumsýninguna á Marat/Sade.“

Ljóðið sem listform er Arnari alltaf jafn kært. „Það er mikill misskilningur að kippa ljóðinu út úr þjálfun þeirra sem eiga að flytja texta á sviði í Listaháskólanum. Nema við ætlum bara að bulla, hoppa og hía í framtíðinni. Ljóðið ber með sér allar myndir og litróf tungumálsins og lífsins yfirhöfuð. Íslenskan myndi aldrei bíða þess bætur yrði ljóðinu ýtt út. Það er því gleðilegt að ljóðið lifir ennþá góðu lífi og mikið kemur út af ljóðabókum. En við þurfum stöðugt að vera á verði enda sækja önnur öfl stíft að tungumálinu okkar. Þess vegna skiptir máli að breiða út fagnaðarerindi ljóðsins og með þessari plötuútgáfu er ég að reyna að leggja mitt lóð á vogarskálarnar.“

Platan er enginn endapunktur. Arnar mun halda áfram að lesa ljóð og vonar að einhverjir opinberir aðilar sjái sér fært að leggja honum lið svo hann geti uppfært heimasíðuna og haldið henni síkvikri. Hann fagnar líka öllum hugmyndum um hvaða ljóð hann eigi að lesa. „Ég mun halda áfram að lesa ljóð eins lengi og röddin dugar. Fer bara suður á bóginn og les í hlýrra loftslagi. Richard Burton, fjallstindarnir og allt það,“ segir hann brosandi.

Lék með þjóðleikurunum

Samkvæmt mínum heimildum steig Arnar fyrst á svið í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á Hans og Grétu þegar hann var 12 ára. Það er ekki rétt. „Ég hélt þetta líka, alveg þangað til í fyrra að ég var minntur á, að ég hefði staðið á sviði með þjóðleikurunum þegar ég var níu ára. Þjóðleikararnir voru leikarar úr Þjóðleikhúsinu sem ferðuðust um landið og þegar þeir komu eitt árið austur á Þórshöfn með verkið Tópas var ég þar staddur hjá ömmu minni og afa. Börn á hverjum stað tóku þátt í sýningunni og einhver spurði hvort Addi Öddu væri ekki á staðnum. Ég var kallaður það á Þórshöfn, mamma hét Arnþrúður [Ingimarsdóttir]. Pabbi, [Jón Kristinsson rakari], var formaður Leikfélags Akureyrar og mönnum fannst því líklegt að ég gæti leikið. Ég var búinn að steingleyma þessu.“

– Ætlaðirðu alltaf að verða leikari?

„Nei, það gerðist ekki fyrr en ég var 16 eða 17 ára. Ég hafði þá verið með LA í ýmsum uppfærslum en aðallega litið á það sem skemmtun. Svo kom að því að leika í Pabbanum sem Jónas Jónasson, sá ágæti útvarpsmaður, setti upp fyrir norðan. Pabbi lék pabbann og ég elsta son hans. Ég hef ábyggilega verið svolítið erfiður við Jónas en hann lét það ekkert á sig fá. Þarna fann ég í fyrsta skipti hvað ég var öruggur á sviðinu og að ég gæti leikið og höndlað það. Á því augnabliki upplaukst fyrir mér: Þetta ætla ég að gera! Upp frá því varð leiklistin ástríða og einhvers konar köllun. Hún hefur alla tíð skipt mig miklu máli.“

Arnar lagði stund á nám í Menntaskólanum á Akureyri en flosnaði upp úr námi í 5. bekk vegna alvarlegra veikinda. Hann lá vikum saman á spítala í Reykjavík og var á endanum greindur með blóðsjúkdóm. Arnar jafnaði sig en sjúkdómurinn tók sig aftur upp þegar hann var 25 ára og á leikferðalagi um landið. „Ég vaknaði einn morguninn eins og Fílamaðurinn. Ég vakti Þórhildi strax til að sýna henni hverju hún væri gift og hún hringdi í Þórarin Guðnason lækni. Hann sagði Þórhildi bara að passa upp á mig og að hann myndi skera úr mér miltað um leið og við kæmum suður að lokinni leikför – sem gekk eftir. Ég hef ekki fundið fyrir þessum sjúkdómi síðan en ónæmiskerfið er þó veikara en áður.“

Góðir farþegar!

Eftir að hafa hætt í MA, fékk Arnar sér vinnu og hélt áfram að starfa í frístundum með LA og hafði engin áform um að flytja frá Akureyri. Það breyttist nokkuð óvænt árið 1962. Hann fór þá suður til að sækja handrit að leikriti fyrir LA og rakst í leiðinni á fyrrnefndan Jónas Jónasson. Hann hvatti Arnar til að þreyta inntökupróf í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins, sem þá stóðu yfir, enda vantaði sárlega stráka. „Ég hafði svo sem ekki mikla trú á því verkefni en ákvað eftir smá umhugsun að skella mér; flutti mónólóg eftir Shakespeare, ljóðið Í draumi sérhvers manns eftir Stein Steinarr og eitthvað fleira – og komst inn. Þar með voru örlög mín ráðin.“

– Hvað hefðirðu orðið hefðirðu ekki orðið leikari?

„Amma vildi að ég yrði prestur en ég hef látið mér nægja að leika presta, þeirra á meðal Kaj Munk, sem var mjög eftirminnilegt hlutverk. Arngrímur frændi minn Jóhannsson hafði farið með mig ungan í flug og ég ætlaði að læra svifflug á Melgerðismelum. Ekkert varð af því vegna þess að ég fór suður í Leiklistarskólann. Kannski hefði ég orðið flugmaður?“

Kæru lesendur, hallið ykkur nú aftur í stólnum eða sófanum og ímyndið ykkur að Arnar Jónsson sé að tala við ykkur í háloftunum: „Góðir farþegar, þetta er flugstjórinn sem talar.“

Konan besti gagnrýnandinn

Þegar hann lítur um öxl þá er Arnar þakklátur fyrir að hafa fengið að helga sig leiklistinni og að gera hana að sínu ævistarfi. „Það er margs að minnast. Til að byrja með var ég ungur og villtur og taldi mig geta lagt heiminn að fótum mér. Seinna meir tók ég í lurginn á sjálfum mér og fór að aga mig meira. Ég er líka mjög þakklátur konunni minni fyrir að hafa verið minn besti og harðasti gagnrýnandi alla tíð. Það er ekki sjálfgefið að hjón fái að fylgjast að í listinni, eins og lífinu. Hefði Þórhildur verið eitthvað allt annað, til dæmis lyfjafræðingur, þá hefði líf mitt ábyggilega orðið dálítið öðruvísi. Við höfum gengið þennan veg saman.“

Leikarastarfið verður sennilega seint kallað hálaunastarf og Arnar viðurkennir að á köflum hafi verið þröngt í búi, einkum þegar fimm börn voru á heimilinu. En allt bjargaðist það. „Maður borðaði bara bílinn sinn, ef þess þurfti,“ segir hann hlæjandi.

Hjónin hafa ferðast mikið um landið til að sýna og um tíma voru þau á Akureyri, þar sem Þórhildur steig sín fyrstu skref sem leikstjóri. „Við tókum þátt í að stofna atvinnuleikhús á Akureyri 1973 og tveimur árum síðar stofnuðum við Alþýðuleikhúsið fyrir norðan ásamt nokkrum öðrum hjónum. Við lærðum ekki lítið af hinu fátæka leikhúsi; gerðum allt sjálf og gengum í öll verk. Við Þráinn gerðum leikmyndir og ég veit ekki hvað. 1978 fluttum við Alþýðuleikhúsið suður og skömmu síðar fór ég í fyrsta sinn inn í Þjóðleikhúsið á föstum samningi.“

Þar lék hann þau mörg, hlutverkin. Arnar á einnig drjúgan feril í sjónvarpi og kvikmyndum, að ekki sé talað um Útvarpsleikhúsið.

Arnar lítur björtum augum á framtíðina á þessum merku tímamótum. Eins og hann kom inn á áðan hyggst hann halda áfram störfum, eins lengi og þrek endist. Þau Þórhildur hafa líka mjög gaman af því að ferðast og eru nýkomin úr skemmtilegu ferðalagi til Marokkó og Spánar. Ekki er heldur langt síðan þau voru í Úsbekistan sem Arnar segir hafa verið mjög fróðlegt. „Við höfum komið til 60 eða 70 landa og erum hvergi nærri hætt. Ætli við rúllum þó ekki meira um slóðir sem eru nær okkur á komandi árum. Við höfum líka mjög gaman af því að fara í golfferðir.“

Já, kylfan er aldrei langt undan og á sumrin spilar Arnar helst á hverjum degi ef veður leyfir. Þau hjónin dveljast mikið í sumarbústað sínum í Úthlíð í Biskupstungum á sumrin. „Það er nú ekki leiðinlegt; eins og að búa í Kjarvalsmálverki,“ segir hann.

Arnar fer sjaldnar á æskustöðvarnar á Akureyri í seinni tíð en nýtur þess alltaf þegar því verður við komið. Ekki síst að spila völlinn. En Akureyringur verður hann hér eftir sem hingað til. „Heldur betur, drengur minn. Það er ekki hægt að taka af okkur!“

Höf.: Orri Páll Ormarsson