Sigurgleði Máté Lékai, Ungverjinn reyndi, fagnar eftir að hafa innsiglað sigurinn gegn Brasilíu í lokin á leik liðanna í gær.
Sigurgleði Máté Lékai, Ungverjinn reyndi, fagnar eftir að hafa innsiglað sigurinn gegn Brasilíu í lokin á leik liðanna í gær. — AFP/Adam Ihse
Ungverjar komu sér í góða stöðu í milliriðli Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta í gær með því að leggja Brasilíumenn að velli í sveiflukenndum leik í Gautaborg, 28:25. Þeir geta nú náð öðru sæti riðilsins með sigri á Grænhöfðaeyjum á morgun…

HM 2023

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ungverjar komu sér í góða stöðu í milliriðli Íslands á heimsmeistaramótinu í handbolta í gær með því að leggja Brasilíumenn að velli í sveiflukenndum leik í Gautaborg, 28:25.

Þeir geta nú náð öðru sæti riðilsins með sigri á Grænhöfðaeyjum á morgun en þurfa þá um leið að treysta á að Svíar sigri Portúgala í lokaleiknum annað kvöld. Lokakaflinn gegn Íslandi ætlar að reynast þeim dýrmætur, rétt eins og hann virðist hafa verið banabiti íslenska liðsins á þessu móti.

Brasilíumenn hefðu sjálfir átt möguleika á sæti í átta liða úrslitum með sigri og þeim tókst að vinna upp forskot Ungverja í báðum hálfleikjum, sex marka mun í fyrri hálfleik og fjögurra marka mun í þeim síðari. Ungverjar voru hins vegar seigir á lokamínútunum og knúðu fram sigur.

Máté Lékai skoraði sjö mörk fyrir Ungverjaland og Gabor Ancsin gerði sex. Hugo da Silva skoraði sex fyrir Brasilíu. Roland Mikler var Ungverjum mikilvægur í markinu, einu sinni sem oftar.

Portúgal á möguleika

Portúgalar hristu frændur sína frá Grænhöfðaeyjum af sér í síðari hálfleik í fyrsta leik gærdagsins í Gautaborg. Þeir voru með nauma forystu í hálfleik, 14:12, en stungu síðan af og unnu tólf marka sigur, 35:23.

Portúgalar geta nú náð sjö stigum með því að sigra Svía í lokaleiknum og hafa það sér í hag að þeir munu vita nákvæmlega hvað þeir þurfa að gera í þeim leik annað kvöld.

Antoinio Areia var í aðalhlutverki hjá Portúgölum og skoraði níu mörk en Victor Iturriza skoraði fimm. Rétt eins og gegn Íslandi var Delcio Pina markahæstur hjá Grænhöfðaeyjum með sex mörk.

Spánverjar sigldu áfram

Spánverjar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum og tóku Frakka þangað með sér í leiðinni með því að vinna Slóvena 31:26 í Kraká í gær. Slóvenar voru eina liðið sem gat ógnað Spánverjum og Frökkum en eru nú úr leik eftir að hafa tapað fyrir báðum.

Þar með er afar lítið í húfi annað en stoltið hjá liðunum sex í milliriðli eitt í lokaumferðinni á morgun.

Kauldi Odriozola skoraði sex mörk fyrir Spánverja og Daniel Dujshebaev fimm en Jure Dolenec skoraði sjö mörk fyrir Slóvena.

Frakkar hvíldu stjörnur

Frakkar vissu að þeir væru komnir áfram þegar flautað var til leiks hjá þeim og Íran í gær, eftir viðureign Spánverja og Slóvena. Þeir hvíldu af þeim sökum bæði Nikola Karabatic og Dike Mem fyrir átökin síðar á mótinu. Það kom ekki að sök og Frakkar unnu öruggan sigur, 41:29, eftir 18:14 í hálfleik.

Nicolas Tournat og Thibaud Briet skoruðu sex mörk hvor fyrir Frakka, Melvyn Richardson og Elohim Prandi fimm hvor.

Pólland sigraði Svartfjallaland örugglega, 27:20, en bæði liðin voru þegar úr leik í keppninni um að komast áfram. Piotr Jedraszczyk skoraði 7 mörk fyrir pólska liðið sem hefur þá náð að vinna tvo leiki á mótinu.

Höf.: Víðir Sigurðsson