Laxveiðimaðurinn Þórarinn að þreyta lax á Breiðunni í Blöndu, öðrum af uppáhaldssveiðistöðum sínum.
Laxveiðimaðurinn Þórarinn að þreyta lax á Breiðunni í Blöndu, öðrum af uppáhaldssveiðistöðum sínum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þórarinn Sigþórsson er fæddur 22. janúar 1938 og verður því 85 ára á morgun. Hann fæddist á Valbjarnarvöllum í Borgarbyggð þar sem foreldrar hans bjuggu fyrst en þau fluttu síðan í Einarsnes við Hvítá í Borgarfirði þegar Þórarinn var 8 ára

Þórarinn Sigþórsson er fæddur 22. janúar 1938 og verður því 85 ára á morgun. Hann fæddist á Valbjarnarvöllum í Borgarbyggð þar sem foreldrar hans bjuggu fyrst en þau fluttu síðan í Einarsnes við Hvítá í Borgarfirði þegar Þórarinn var 8 ára. „Þar var laxveiði í net og ég fékk snemma áhuga á laxinum og hegðun hans, má segja. Ég reyndi mikið að veiða lax á stöng en afraksturinn varð aðallega bleikja og sjóbirtingur.“

Þórarinn var í barnaskóla á Brennistöðum og síðan einn vetur í Borgarnesi, í 1. bekk í gagnfræðaskóla og bjó þá þar. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1960 og tannlæknanámi frá Háskóla Íslands 1965.

Hann hóf störf sem aðstoðartannlæknir hjá Hauki Clausen í Reykjavík í mars 1966 og vann þar þangað til í september 1971. Eigin tannlæknastofu rak hann frá október 1971 til 2018. „Ég hef notið þess að vera heilsuhraustur og haldið kollinum í lagi. Ég hef alltaf haft ánægju af starfinu svo ég hélt því eitthvað áfram eftir að ég hætti rekstri eigin stofu. Starfið hefur alltaf verið mitt helsta áhugamál.“ Við tannlæknadeild HÍ var hann prófdómari 1973 til 1991.

Þórarinn er margfaldur bridgemeistari og hefur margsinnis spilað fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum vettvangi. Þá varð hann fyrsti íslenski stórmeistarinn í bridge. „ Ég hafði nú ekki svo mikinn áhuga á þessum blessuðu hugaríþróttum í fyrstu, en ég var samferða Gunnari Felixsyni í Verslunarskólanum og við sátum í námunda hvor við annan. Hann smitaði mig af skákáhuganum og við vorum með lítið vasatafl sem við létum ganga á milli okkar í tímum. Ári seinna varð ég svo Verzlunarskólameistari í skák. Einhverra hluta vegna fékk ég síðan áhuga á bridge þegar ég var að byrja í háskólanáminu og það gjörsamlega heltók mig svo ég lagði skákina til hliðar.“

Þórarinn hætti keppni í bridge 1988 og var þá stigahæstur íslenskra bridgespilara. „Ég sá að það gekk ekki að stunda þetta allt saman, vinnuna, veiðina og bridge. En ég spila bridge við vini mína á netinu, en núna er þetta bara leikur, í og með til að halda kollinum í lagi. Svo tefli ég hraðskákir, einkum á laugardagsmorgnum í KR og hef mjög gaman af því.“

Þórarinn er kunnur laxveiðimaður, m.a. fyrir að veiða 812 laxa á stöng árið 1976. Hann hefur veitt yfir 21.000 laxa um ævina. „Það var strax í Verzlunarskólanum sem ég fór að stunda veiðar af krafti. Ég kynntist þá læriföður mínum, Kristjáni Sigurmundssyni, í gegnum skólabróður minn og son hans, Snæbjörn. Kristján kenndi mér það allt sem ég kann, eða svona „hérumbil“ allt sem ég kann. Ég stunda ennþá laxveiðar og rjúpnaveiðar og fer hverja einustu helgi sem leyft er að skjóta rjúpu. Ég held ég sé búinn að fara hringinn í kringum landið á rjúpnaveiðum mínum. Það á sömuleiðis við um laxveiðina, það eru mjög fáar ár sem ég hef ekki veitt í.“

Uppáhaldsár Þórarins eru Kjarrá, Miðfjarðará og Selá í Vopnafirði og uppáhaldsveiðistaðirnir eru Æðarfossar í Laxá í Þing og Breiðan í Blöndu. Þórarinn hefur einnig stundað laxveiðar erlendis um árabil, þ.e.a.s. í Rússlandi, Noregi og Skotlandi. Þar hefur hann m.a. veitt tvo 44 punda laxa.

Félags- og trúnaðarstörfum gegndi Þórarinn í bridge- og taflnefnd TFÍ 1975 til 1978. Að auki gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum í þágu bridgehreyfingarinnar. Hann hefur verið í Frímúrarareglunni frá 1994. Þórarinn hefur ritað greinar um laxveiði og veiðimennsku í blöð og tímarit. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna fyrir laxveiðar og bridgespilamennsku.

Fjölskylda

Eiginkona Þórarins er Ragnheiður Jónsdóttir danskennari, f. 25.8. 1950. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar hennar: Hjónin Jón Guðmundsson búfræðingur, bóndi og hreppstjóri á Hvítárbakka í í Andakíl í Borgarfirði, f. 9.2. 1928, d. 25.5. 2018, og Björg Sigríður Jónsdóttir húsfreyja f. 13.3. 1929. Hún er nú búsett í Reykjavík. Börn Ragnheiðar af fyrra hjónabandi eru Jón Ragnar Örlygsson skógarverkfræðingur, f. 18.11. 1972, kvæntur Ólöfu Árnadóttur framkvæmdastjóra, f. 24.3. 1977 og eiga þau tvö börn, og Björg Örlygsdóttir verslunarstjóri, f. 29.3. 1976, gift Arnari Matthíassyni þýðanda, f. 18.11. 1964.

Þórarinn var áður kvæntur Kristínu Þorsteinsdóttur kennara, f. 12.8. 1943, d. 2.1. 2017. Börn þeirra eru 1) Sólveig tannlæknir, f. 23.5. 1964 og á hún fjögur börn. Maki: Þórður Þórðarson, verktaki, f. 14.10. 1966; 2) Rannveig, viðskiptafræðingur, f. 31.5. 1969 og á hún tvö börn. Sambýlismaður: Stefán Stefánsson prentari f. 20.10. 1966. Dóttir Þórarins og Guðríðar Magnúsdóttur, ökukennara, f. 17.4. 1950, er 3) Kristín Stefanía almannatengsla- og markaðsfræðingur, f. 27.7. 1978. Hún á tvö börn.

Systkin Þórarins eru Guðmundur landbúnaðarhagfræðingur, f. 20.10. 1940, Helga Sigþórsdóttir viðskiptafræðingur, f. 22.1. 1943, Jóhanna S. Sigþórsdóttir blaðamaður, f. 10.8. 1949, Þór Sigþórsson lyfjafræðingur, f. 5.7. 1951, Óðinn Sigþórsson, bóndi og fyrrverandi formaður Landssambands veiðifélaga, f. 5.7. 1951, Sigríður Sigþórsdóttir arkitekt, f. 30.6. 1953.

Foreldrar Þórarins voru hjónin Sigþór Karl Þórarinsson, hreppstjóri og bóndi í Einarsnesi í Borgarbyggð, f. 28.1. 1918, d. 23.1. 1981, og Sigríður Guðmundsdóttir, húsfreyja í Einarsnesi f. 11.12. 1916, d. 8.9. 2008.