Matreiðsla Sigurjón Bragi Geirsson keppir fyrir Íslands hönd.
Matreiðsla Sigurjón Bragi Geirsson keppir fyrir Íslands hönd. — Morgunblaðið/Eggert
Heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu, Bocuse d’Or, verður haldin í Lyon í Frakklandi á morgun og mánudag. Þar munu fulltrúar 24 þjóða keppa og fulltrúi Íslands verður Sigurjón Bragi Geirsson

Heimsmeistarakeppni einstaklinga í matreiðslu, Bocuse d’Or, verður haldin í Lyon í Frakklandi á morgun og mánudag. Þar munu fulltrúar 24 þjóða keppa og fulltrúi Íslands verður Sigurjón Bragi Geirsson. Þjóðirnar höfðu öðlast keppnisrétt eftir að hafa unnið til þess í forkeppni í sinni heimsálfu.

Sigurjón vann keppnina Kokkur ársins 2019. Þá náði hann 5. sæti í Bocuse d´Or Europe í Búdapest í október sl. Undirbúningur hefur staðið yfir mánuðum saman og nærri tonn af eldhúsáhöldum og tækjum verið sent til Lyon. Þjálfari Sigurjóns er Sigurður Laufdal, sem keppti í Bocuse d´Or árin 2013 og 2021, og aðstoðarmaður er Guðmundur Bender.

Sigurjón leggur fram sína rétti fyrir dómnefndina á mánudag og úrslit keppninnar munu liggja fyrir síðdegis sama dag. Aðalhráefnið í réttum Sigurjóns verður skötuselur, hörpuskel og bláskel og meðlæti inniheldur m.a. grasker og fiskfat.

Hvert þátttökuland á fulltrúa í dómarateymi Bocuse d´Or og kemur Friðgeir Eiríksson til með að dæma fyrir hönd Bocuse d´Or akademíunnar á Íslandi. Keppnin hefur verið haldin síðan 1987 en fyrsti íslenski keppandinn tók þátt árið 1999. Það var Sturla Birgisson og náði hann fimmta sæti. Bestum árangri, eða bronsinu, hafa Hákon Már Örvarsson (2001) og Viktor Örn Andrésson (2017) náð.