Fundur Þeir Geir H. Haarde og Ögmundur Jónasson ræddu saman fyrir opna fundinn um bók Hannesar Hólmsteins sem haldinn var á mánudaginn. Ögmundur veitti bókinni álit á fundinum.
Fundur Þeir Geir H. Haarde og Ögmundur Jónasson ræddu saman fyrir opna fundinn um bók Hannesar Hólmsteins sem haldinn var á mánudaginn. Ögmundur veitti bókinni álit á fundinum. — Morgunblaðið/Hákon
Inga Þóra Pálsdóttir ingathora@mbl.is „Þetta var væntanlega ekki gert vegna þess að utanríkisráðherra gerði sér grein fyrir að við þessu var andstaða VG-ráðherra í ríkisstjórninni,“ segir Ögmundur Jónasson um stuðning Íslands við hernað í Líbíu á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Landsdómsmálið kveikir umræðu um hvenær mál skuli rædd á ríkisstjórnarfundi og hvenær ekki. Geir H. Haarde var sakfelldur árið 2013 fyrir að funda ekki.

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is

„Þetta var væntanlega ekki gert vegna þess að utanríkisráðherra gerði sér grein fyrir að við þessu var andstaða VG-ráðherra í ríkisstjórninni,“ segir Ögmundur Jónasson um stuðning Íslands við hernað í Líbíu á tíma ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Landsdómsmálið kveikir umræðu um hvenær mál skuli rædd á ríkisstjórnarfundi og hvenær ekki. Geir H. Haarde var sakfelldur árið 2013 fyrir að funda ekki.

Ögmundur, sem var ráðherra Vinstri grænna í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, vildi ekki að íslensk stjórnvöld lýstu yfir stuðningi við að Atlantshafsbandalagið, NATO, tæki þátt í hernaði í Líbíu árið 2011. Málið, sem mörgum þótti mikilvægt, var ekki tekið á dagskrá ríkisstjórnarfundar. Ögmundur telur að málið hefði átt að ræða í ríkisstjórn.

Borgarastríð hófst í norðurafríska ríkinu í febrúar árið 2011. Stuttu eftir að átök hófust skárust Bandaríkin og NATO-ríki í leikinn. Ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar, sem Samfylkingin og Vinstri grænir áttu aðild að, var umdeild, einkum á meðal félagsmanna Vinstri grænna og friðarsinna.

Skylda í stjórnarskránni

Í 17. grein stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um skyldu ríkisstjórnar til að taka fyrir mikilvæg stjórnarmálefni á ríkisstjórnarfundi.

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var sakfelldur í Landsdómi fyrir brot gegn c. lið 8. greinar laga um ráðherraábyrgð fyrir að hafa ekki kallað saman ríkisstjórnarfund til að ræða mikilvæg stjórnarmálefni, eins og mælt er fyrir um í 17. grein stjórnarskrárinnar. Staða bankakerfisins var tvísýn og hefði átt að fá umræðu í ríkisstjórn, var álit dómsins. Var þetta í fyrsta skipti sem Landsdómur var kallaður saman. Engin dómafordæmi var til að styðjast við.

Deilt er um hvað teljist mikilvæg stjórnarmálefni í skilningi stjórnarskrárinnar. Frá lýðveldistímanum er hægt að nefna nokkur dæmi þar sem ríkisstjórn hefur ekki tekið fyrir mál sem fella mætti undir 17. grein stjórnarskrár.

Nefnir þrjú dæmi

Í nýrri bók Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, um landsdómsmálið rekur hann þrjú mál sem eru fordæmisgefandi.

Í fyrsta lagi nefnir Hannes að öryggis- og varnarmál hafi ekki verið rædd á ráðherrafundum í tíð vinstri stjórnarinnar 1956-1958 þrátt fyrir að ýmsir mikilvægir samningar hafi verið gerðir við Bandaríkin. Á þessum tíma geisaði kalt stríð milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Í öðru lagi nefnir Hannes Íraksmálið. Árið 2003 lýstu Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, yfir stuðningi við hernaðaraðgerðir Bandaríkjanna og Bretlands í Írak án þess að taka það fyrir á ríkisstjórnarfundi.

Hannes vitnar til greinargerðar Eiríks Tómassonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem skrifuð var í tilefni Íraksmálsins. Í henni segir Eiríkur eðlilegt að ráðherrar taki ákvarðanir í sínum málaflokkum enda ríkisstjórnin ekki fjölskipað stjórnvald heldur bera ráðherrar ábyrgð á sínum málaflokki. Í tilfelli forsætisráðherra getur hann, samkvæmt þessari túlkun, tekið ákvarðanir um mikilsverð málefni að höfðu samráði við ráðherra viðkomandi málaflokka. Eiríkur var einn dómara Landsdóms sem sakfelldi Geir. Hannes vekur athygli á þessu misræmi.

Í þriðja lagi bendir Hannes á að þegar bandaríski sendiherrann James Gadsden gekk á fund Davíðs Oddssonar og tjáði honum að Bandaríkjamenn hygðust flytja orrustuþotur sínar frá Íslandi var það ekki tekið fyrir í ríkisstjórn. Segir Hannes þetta hafa verið stórmál þar sem litlar sem engar varnir yrðu eftir á Íslandi. Lausn í málinu var unnin í kyrrþey.

„Sum málefni, sem hljóta að teljast mikilvæg stjórnarmálefni í víðari merkingu orðanna, þótt ef til vill séu þau ekki mörg, eru þess eðlis, að þau eiga ekki erindi inn á ráðherrafundi,“ segir Hannes í bók sinni.

Þá segir Hannes að þegar um sé að ræða viðkvæm mál vaxi áhætta séu þau á formlegri dagskrá ríkisstjórnarfundar. Í aðdraganda bankahrunsins var hætta á áhlaupi á íslensku bankanna. Umtal um vanda bankanna hjá æðstu stjórnvöldum ríkisins hefði aukið hættuna á áhlaupi.

Hefði átt að ræða málin

„Mikilvæg stjórnarmálefni, eins og það heitir í stjórnarskrá, á að taka fyrir á ríkisstjórnarfundum,“ segir Ögmundur í samtali við Morgunblaðið. Ögmundur telur að Líbíumálið hefði átt að taka fyrir á ríkisstjórnarfundi. Sömuleiðis telur hann að umræða um ofangreind dæmi hefði átt að fara fram í ríkisstjórn.

Spurður hvort honum finnist umrædd mál sambærileg því að yfirvofandi efnahagskreppa hafi ekki verið rædd á ríkisstjórnarfundi segir Ögmundur:

„Mér finnst þau ekki sambærileg á nokkurn hátt. En eitt veit ég að í engu tilviki hefði ég dregið menn fyrir Landsdóm.“

Bætir hann við að mikilvægt sé að ráðherrar axli ábyrgð á gjörðum sínum og að hörð gagnrýni komi fram séu mikilvæg stjórnarmálefni ekki rædd á ráðherrafundi, líkt og kom fram í kjölfar Íraksmálsins.

Höf.: Inga Þóra Pálsdóttir