Butcher Babies á límbandsárunum. Skrúði til heiðurs Wendy O. Williams.
Butcher Babies á límbandsárunum. Skrúði til heiðurs Wendy O. Williams. — AFP/Nathan Miller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvers vegna erum við að þessu? Og fyrir hvern eða hverja? Þetta eru grundvallarspurningar sem við glímum öll reglulega við í lífi okkar og leik. Heidi Shepherd, annar rymjara bandaríska grúvmálmbandsins Butcher Babies, virðist vera búin að svara þessu fyrir sína parta, í eitt skipti fyrir öll

Hvers vegna erum við að þessu? Og fyrir hvern eða hverja? Þetta eru grundvallarspurningar sem við glímum öll reglulega við í lífi okkar og leik. Heidi Shepherd, annar rymjara bandaríska grúvmálmbandsins Butcher Babies, virðist vera búin að svara þessu fyrir sína parta, í eitt skipti fyrir öll. Alltént komst hún svona að orði í hlaðvarpinu BREWtally Speaking á dögunum:

„Það er engin list án þróunar. Við verðum að nema nýjar lendur og prófa alls kyns ólíka hluti. Við gerum það ekki fyrir aðdáendur okkar; heldur okkur sjálf. Auðvitað gleður það okkur ef þeim líkar það sem við erum að gera og vilja heyra ákveðna hluti, en það verður líka að vera rúm fyrir mínar eigin tilfinningar á plötum. Það er mín þerapía. Rándýra þerapía. Það skiptir okkur öllu máli.“

Tilefni þessara orða er fjórða breiðskífa Butcher Babies sem væntanleg er í allar betri plötubúðir á næstunni. Á tökkunum er Josh Schroeder, sem meðal annars hefur unnið með Lornu Shore og King 810. Platan verður sumsé löðrandi í tilfinningum, með dágóðum slatta af reiði. Eins og vera ber. Gefum Heidi aftur orðið:

„Við höfum verið hljómsveit í 15 ár, þannig að þegar við byrjuðum vorum við reiðir krakkar – ofboðslega reiðir. Það var margt að reiðast yfir. Síðan fór okkur að vegna vel og við þurftum að skilja fjölskyldur okkar og vini eftir [til að sinna vinnunni]. Það kallaði fram alls kyns tilfinningar og einmanaleika. Fyrir það fengum við útrás á þriðju plötunni. Síðan vorum við allt í einu orðin reið aftur, vegna þess að allt hafði verið tekið af okkur [í heimsfaraldrinum]. Við héldum til Michigan um hávetur og okkur leið meira og minna eins og á fyrstu plötunni – þær tilfinningar blasa við öllum á fjórðu plötunni vegna þess að við erum á sama stað tilfinningalega, þannig lagað séð.“

Skyndimynd af tímanum

Að sögn Heidiar liggur fegurðin í útgáfunni ekki síst í því að platan hverju sinni er skyndimynd af tímanum. Skyndimynd af því sem listamennirnir eru að ganga í gegnum á þeim tímapunkti og því sem þeim finnst þeir þurfa að kanna.

Hún getur varla beðið eftir viðbrögðum við plötunni vegna þess að lunginn af efninu var saminn á sex vikna tímabili meðan sveitin var í hljóðverinu. „Þannig að þið eigið eftir að heyra hvernig okkur leið meðan á upptökunum stóð. Kyndugar tilfinningar því að sum okkar höfðum ekki sést í meira en ár. Kyndugar tilfinningar vegna þess að við gátum ekki túrað og flutt þessi nýju lög. Kyndugar tilfinningar um allt mögulegt. Allt þetta upplifðum við hvert með sínum hætti, þannig að þið eigið veislu í vændum.“

Heidi var einnig í viðtali við málmgagnið Metalfest og bætti þar þessu við um nýju plötuna:

„Við lögðum hjarta og sál í hvert einasta lag sem verður á plötunni. Við fórum aldrei með rassinn á undan og þess vegna viljum við tryggja að platan öðlist það líf og athygli sem hún á skilið.“

Einmitt þess vegna hefur eitt og eitt lag verið að lauma sér út í kosmósið undanfarna mánuði enda segir Heidi marga vilja melta tónlist í smærri skömmtum.

Taumlaus heift

Heidi Shepherd stofnaði Butcher Babies ásamt samrymjara sínum og vinkonu, Cörlu Harvey, árið 2010. Auk þeirra eiga hlut í bandinu gítarleikarinn Henry Flury, bassafanturinn Ricky Bonazza og trymbillinn Chase Brickenden. Lýsa má tónlist sveitarinnar sem blöndu af ómenguðum málmi, þrassi, grúvi og pönki. Mikið hefur frá upphafi verið lagt upp úr líflegri sviðsframkomu og málmblaðamaðurinn Keith Valcourt sagði Butcher Babies minna um margt á Pantera á sviði en með augljósum hryllingsáhrifum frá köppum á borð við Alice Cooper og Rob Zombie. „Carla og Heidi syngja ekki bara: Þær ráðast á mannskarann með taumlausri heift og misþyrma honum. Skaranum til ómældrar ánægju.“

Butcher Babies hafa tilgreint hljómsveitir eins og Slayer, Slipknot, Meshuggah, Iron Maiden og Marilyn Manson sem áhrifavalda en dýpst ristir þó aðdáun þeirra og virðing fyrir Wendy heitinni O. Williams og pönkbandi hennar, Plasmatics. Nafnið sækja þau til að mynda í lag Plasmatics, Butcher Baby. „Wendy var grjóthörð og drullusama hvað öðrum fannst … og við deilum þeim anda,“ sögðu Harvey og Shepherd einu sinni í viðtali við hinn ágæta miðil Gute Horrorfilme. Lengi vel komu þær iðulega fram berbrjósta á tónleikum með límband yfir geirvörtunum, líkt og Williams var þekkt fyrir á sinni tíð, en hafa nú skipt um stíl. Williams naut lýðhylli á ofanverðum áttunda áratugnum og þeim níunda en settist í helgan stein árið 1990. Hún svipti sig lífi átta árum síðar. Harvey og Shepherd hafa einnig sagst tengja við konur á borð við Joan Jett og Gwen Stefani sem boðið hafa ægivaldi karla í tónheimum byrginn.

Framkoma Harvey og Shepherd er ekki allra. Þær hafa fengið yfir sig aurslettur gegnum tíðina fyrir dirfsku á sviði og fyrir að vera latar að fela kynþokka sinn. Harvey lét sér þetta í léttu rúmi liggja í viðtali við málmgagnið Blabbermouth á sínum tíma. „Það verða alltaf hatarar. Satt best að segja látum við neikvæðnina ekki trufla okkur eða lesum of mikið í hana. Fólk er upp til hópa hrætt við allt sem er kynferðislegt, ekki síst hér í Bandaríkjunum.“

Vann sem útfararstjóri

Cörlu Harvey er margt til lista lagt. Hún kom fyrst fram á sjónarsviðið sem fréttamaður Playboy-stöðvarinnar og nektarfyrirsæta. Hún venti síðan kvæði sínu í kross, nam útfararstjórn og vann um tíma sem líksnyrtir og útfararstjóri. Draumurinn um að vinna við tónsköpun blundaði þó alltaf í henni og árið 2010 lét hún slag standa og stofnaði Butcher Babies. Harvey er einnig rithöfundur og teiknari. Hún hefur sent frá sér tvær skopmyndabækur, Butcher Babies og Soul Sucks, sem mæltust vel fyrir. Fyrsta skáldsaga hennar, Death and Other Dances, kom út 2014. Harvey er af írskum og eþíópískum uppruna gegnum föður sinn og af finnsku og ítölsku bergi brotin gegnum móður sína. Kærasti hennar er einnig hluti af málmsamfélaginu, Charlie Benante, trymbill Anthrax og nú Pantera.