Í nótt var ég að tala við Kötu Jak á Arnarhóli í hettupeysu með brotin skíði yfir öxlinni. Ég var í hettupeysunni sko, ekki hún.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Hafið þið einhvern tímann pælt í því hvað það er þreytandi að þurfa sífellt að vera að hugsa? Allan guðslangan daginn og ekkert hægt að stoppa allar þessar hugsanir. Nema rétt yfir blánóttina og þá hefjast draumfarirnar. Stundum er ég í vinnunni heilu og hálfu næturnar og stundum er ég að synda yfir hafið án þess að þurfa að pústa. Í nótt var ég að tala við Kötu Jak á Arnarhóli í hettupeysu með brotin skíði yfir öxlinni. Ég var í hettupeysunni sko, ekki hún. Kata sagði mér að ég liti út eins og útigangskona og svo vaknaði ég.

Og heilinn fór í gang. Hugsa, hugsa, hugsa, skipuleggja daginn, ekki gleyma neinu! Það er ekki furða að við leitum sífellt að ró með alls kyns ráðum; hugleiðslu, jóga, prjónaskap, sjósundi, róandi tónlist, göngutúrum eða hugbreytandi efnum. Reyndar stunda ég ekkert af ofantöldu, nema einstaka göngutúr, og þarf því bara að fást við þessar endalausu hugsanir sem koma eins og þúsund þorskar á færibandi á vertíð. En ég kvarta ekki. Daginn sem slökknar á hugsunum er dagurinn sem ég dey og ekki vill maður það á næstunni. Það er nefnilega ansi skemmtilegt að vera til. Og hugsa og pæla.

Hafið þið pælt í því hvað maður kaupir mikið af óþarfa hlutum til dæmis? Ég meina algjörlega óþarfa hlutum sem safna svo bara ryki? Ég man að eitt sinn sá ég svo sniðugt tæki til að skera lauk og var næstum búin að kaupa það þegar systir mín spurði mig: „Finnst þér leiðinlegt að skera lauk?“ Eftir stutta íhugun var svarið nei, mér finnst það frekar skemmtilegt!

Og maður er helmingi fljótari að nota bara hníf! Og hvað erum við mörg sem eigum æfingatæki sem taka pláss og eru aldrei notuð? (Ég á eitt.) Eða eldhústæki eins og djúsvél sem var notuð í viku? Gönguskíði sem voru notuð einu sinni til að heimsækja nágrannann? Og heimurinn fyllist af drasli! Er ekki ráð að staldra við og hugsa um hvort maður þurfi virkilega alla þessa hluti?

Eitt sinn keypti vinkona mín rauða kápu frá Kína á spottprís og lét senda hana til mín þegar ég bjó um hríð í New York. Ég opnaði pakkann og sprakk úr hlátri. Kápan var úr ógeðslegu filtefni þannig að maður fékk gæsahúð við það eitt að koma við efnið. Hún var auk þess á um það bil tíu ára gamalt barn, en ekki fullorðna konu sem notar XL. Konurnar í Kína eru vissulega penari en við víkingarnir. Kápan endaði í grenndargámi í Harlem. Algjör óþarfakaup.

Þetta átti hvorki að vera predikunarpistill um að kaupa minna dót né dómsdagspistill vegna ofneyslu mannkynsins. Og þó?

Nei, þetta voru bara hugsanirnar sem hlupu með mig í gönur. Hvað þýðir annars gönur? Þið getið pælt aðeins í því. Yfir og út.