Ramstein Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sést hér með Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og Oleksí Resnikov, varnarmálaráðherra Úkraínu.
Ramstein Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra sést hér með Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, og Oleksí Resnikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. — AFP/Andre Pain
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í gær að þýsk stjórnvöld hefði ekki tekið neina ákvörðun af eða á um það hvort að þau muni senda Leopard 2-orrustuskriðdreka eða heimila öðrum ríkjum að senda sín eintök til Úkraínumanna.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði í gær að þýsk stjórnvöld hefði ekki tekið neina ákvörðun af eða á um það hvort að þau muni senda Leopard 2-orrustuskriðdreka eða heimila öðrum ríkjum að senda sín eintök til Úkraínumanna.

Þjóðverjar hafa verið undir umtalsverðum þrýstingi síðustu daga um að veita slíkt leyfi, en Pólverjar, Danir og Finnar hafa m.a. boðist til þess að senda hluta af sínum skriðdrekum til Úkraínu. Varnarmálaráðherrar vestrænna ríkja og annarra sem styðja við Úkraínu funduðu í gær í Ramstein-flugstöð Bandaríkjamanna í Þýskalandi til þess að ræða frekari vopnasendingar, og var jafnvel vonast til að svar myndi liggja fyrir við spurningunni um Leopard-skriðdrekana.

Pistorius sagði hins vegar að þýsk stjórnvöld gætu enn ekki sagt hvenær slíkrar ákvörðunar væri að vænta, né heldur hver sú ákvörðun yrði. Hann tók þó fram að hann hefði fyrirskipað birgðatalningu, bæði hjá þýska hernum og hjá framleiðanda Leopard-skriðdrekanna, þannig að vitað væri hversu marga skriðdreka væri hægt að senda, ef þýsk stjórnvöld veittu jákvætt svar.

Bjartsýnn á að fá leyfi

Pistorius sagði einnig að það væri ekki svo að Þjóðverjar væru þeir einu sem stæðu í veginum fyrir að skriðdrekarnir yrðu sendir. Mariusz Blaszczak, varnarmálaráðherra Póllands, sagði eftir fundinn að hann væri sannfærður um að vesturveldin myndu ná samstöðu um að senda Leopard 2-skriðdrekana til Úkraínu.

Sagði Blaszczak að ráðherrar frá um 15 ríkjum hefðu fundað á hliðarlínum aðalfundarins og rætt þar sérstaklega skriðdrekasendingarnar. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, gaf í skyn í fyrradag að Pólverjar myndu jafnvel senda sína skriðdreka án þess að fá leyfi frá Þjóðverjum.

Hanno Pevkur, varnarmálaráðherra Eistlands, sagðist hins vegar vera viss um að það leyfi myndi fást á næstu dögum. „Ég er meira en öruggur um að Þýskaland mun ekki stoppa neitt annað ríki sem er tilbúið til að senda skriðdreka,“ sagði Pevkur við breska ríkisútvarpið BBC í gær.

Bar blak af Þjóðverjum

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og gestgjafi fundarins, sagði við blaðamenn eftir hann að öll ríkin gætu gert meira til þess að aðstoða Úkraínu. Varði hann jafnframt Þjóðverja fyrir ásökunum um að þeir væru ekki að gera nóg og sagði Austin að þýsk stjórnvöld væru „traustur bandamaður“, hvað sem skriðdrekasendingum liði.

Austin sagði hins vegar einnig að hann ætti von á gagnsókn Úkraínumanna nú í vor og því þyrftu bandamenn að senda meiri hernaðaraðstoð nú. „Við höfum tækifæri milli núna og vorsins,“ sagði Austin. „Það er ekki langur tími og við þurfum að ná saman réttu tækjunum.“

„Ramstein skriðdrekanna“

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundabúnað og kallaði eftir auknum hergögnum. „Gerið þennan fund að „Ramstein skriðdrekanna“,“ sagði Selenskí og bætti við að framtíðarfundir hópsins gætu þá snúist um langdrægar eldflaugar og F-16-orrustuþotur, sem Úkraínumenn hafa einnig beðið um.

Austin sagði í ávarpi sínu til fundargesta að nú væri vendipunktur fyrir Úkraínu, þar sem Rússar væru að verða „uppiskroppa með skotfæri og verða fyrir gríðarlegu mannfalli í bardögum“. Sagði Austin að nú þyrfti að senda enn meiri aðstoð. „Úkraínska þjóðin fylgist með okkur, Kreml fylgist með okkur og mannkynssagan fylgist með okkur,“ sagði Austin.

Dmitrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, lét sér hins vegar fátt um finnast í gær og sagði að vestrænir orrustuskriðdrekar myndu ekki skipta neinu máli. „Þeir munu bæta í vandræði Úkraínu, en breyta engu varðandi sókn Rússa í átt að markmiðum sínum,“ sagði Peskov. Þá sagði Peskov að vesturveldin væru haldin „dramatískri firringu“ um að Úkraína gæti unnið á vígvellinum gegn Rússlandi.

Finnar senda meiri aðstoð

Þrátt fyrir að ekki hafi náðst samkomulag um orrustuskriðdreka á fundinum í gær, hafa nokkur af helstu bandalagsríkjum Úkraínumanna tilkynnt um aukna hernaðaraðstoð á undanförnum dögum. Finnsk stjórnvöld bættust í þann hóp í gær, en þau tilkynntu að Finnar myndu senda hernaðaraðstoð upp á 400 milljónir evra, eða sem nemur tæpum 61,8 milljörðum íslenskra króna.

Er þetta stærsti aðstoðarpakkinn sem Finnar hafa sent til Úkraínu til þessa, en innifalið í honum eru stórskotalið og skotfæri. Áður höfðu Danir tilkynnt að þeir myndu senda 19 Caesar-hábyssur af franskri gerð og Svíar ætla að senda Archer-stórskotalið til Úkraínu.

Ísland sendir aukna aðstoð til Úkraínu

Heita rúmlega 360 milljónum

Ísland mun veita tveimur milljónum punda, eða sem nemur rúmlega 360 milljónum króna, í sérstakan stuðningssjóð fyrir Úkraínu sem bresk stjórnvöld settu á laggirnar á síðasta ári. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var fulltrúi Íslands á Ramstein-fundinum og tilkynnti um þetta framlag Íslands þar í gær.

„Ísland hefur leitað allra leiða til þess að leggja varnarbaráttu Úkraínu lið. Á fundinum hér í dag var mikil samstaða og áhersla á að nú væri mikilvægur kafli í stríðinu og mikilvægt að þau sem vilja styðja Úkraínu liggi ekki á liði sínu. Það hefur sýnt sig að stuðningssjóðurinn sem við leggjum nú lið hefur reynst vel, þar eru ákvarðanir teknar hratt svo mikilvægur stuðningur berst hratt þangað sem þörfin á honum er mest. Jafnvel þótt Íslendingar hafi ekki vopn eða skotfæri til að senda til Úkraínu þá getum við aðstoðað með öðrum leiðum og það munum við halda áfram að gera,“ sagði Þórdís Kolbrún í tilkynningu utanríkisráðuneytisins, sem birtist á vef Stjórnarráðsins í gær.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson