Ögrar „Magnúsi tekst í víðsýnum prósaskrifum sínum alltaf að koma á óvart, að ögra formum á sinn háttvísa, yfirvegaða og menntaða hátt,“ skrifar gagnrýnandi um fjórða prósasafn Magnúsar Sigurðssonar, Húslestur.
Ögrar „Magnúsi tekst í víðsýnum prósaskrifum sínum alltaf að koma á óvart, að ögra formum á sinn háttvísa, yfirvegaða og menntaða hátt,“ skrifar gagnrýnandi um fjórða prósasafn Magnúsar Sigurðssonar, Húslestur. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ritgerðir Húslestur ★★★½· Eftir Magnús Sigurðsson. Dimma, 2022. Kilja, 196 bls.

Bækur

Einar Falur Ingólfsson

Á titilsíðu Húslesturs, þessa fjórða prósasafns Magnúsar Sigurðssonar, kemur fram að um ritgerðir sé að ræða. Og höfundurinn snýr svo sannarlega með athyglisverðum og skemmtilegum hætti upp á það form, eins og Magnús gerir einnig í fyrri prósabókum sínum. Í stuttum texta um höfundinn á innslagi er því vel lýst og prósasöfn hans sögð einkennast af „uppátækjasömum samruna eldri texta og hugmynda við hversdagsheimspeki líðandi stundar“.

Magnús kom fram á ritvöllinn fyrir 14 árum með bæði ljóðabók og prósabók í farteskinu. Verk hans hafa verið áhugaverð frá upphafi, lærð, djúp og frumleg; auk prósaverkanna fjögurra hefur hann sent frá sér fimm ljóðabækur. Og frábærar ljóðaþýðingar að auki, síðast rómað úrval af ljóðum Emily Dickinson sem kom út í kjölfar þess að Magnús varði doktorsritgerð sína um viðtökur skrifa skáldkonunnar í íslenskum bókmenntaheimi. Og Dickinson kemur nokkrum sinnum við sögu í Húslestri, til dæmis í ritgerðinni „Um vonbrigðin III“ sem er einfaldlega svona:

„Svo þetta er allt og sumt?“

Sem voru, að sögn, lokaorð Emily Dickinson.

Í safninu eru rúmlega 80 ritgerðir, allnokkrar svona örstuttar, flestar sitja á hálfri til einni síðu en nokkrar taka tvær til fjórar blaðsíður. Ein þeirra, og ein sú áhugaverðasta, fjallar til dæmis um rannsókn og skoðun Konráðs Gíslasonar Fjölnismanns á íslenskunni, í kjölfar þess að unnusta hans lést, skömmu fyrir fyrirhugað brúðkaup þeirra.

Í sérkennilega grallaralegum texta, „Hundalógík“, er fjallað um það hvernig fróðleiksfýsn Leonardos da Vinci var ekkert mannlegt – eða hundslegt - óviðkomandi og koma hundsrassar þar við sögu. Í ritgerðinni „Um ekkert“ kemur einmitt það, ekkertið, við sögu og koma ýmsir og ólíkir einstaklingar að því máli, svo sem heimspekingurinn Heidegger, persóna í gamanþáttunum Seinfeld, Lér konungur, John Cage og José Mourinho! Og í „Glæpi og refsingu“ segir af Marka-Bjarna, vinnumanni nokkrum „sem hófst af sjálfum sér í Þingeyjarsýslu um aldamótin 1900“ og vildi aðeins ræða um kindur en leitaði svo til Andskotans um hjálp við að ná sér í konu. Það fór ekki vel.

Lengsta ritgerðin í safninu, „Ef þú rýnir inn í bergið – “, fjallar um kunnan „mislestur“ Finns Magnússonar leyndarskjalavarðar á meintum rúnum á Rúnamó-klettinum í Svíþjóð, vel skrifaður texti um metnað Finns, sigurstundina og fallið. Eftir að Finnur hafði „þýtt“ rúnaristurnar var sýnt fram á að um jökulrispur var að ræða. En Finnur, skrifar Magnús, „mun eiga sinn sess á spjöldum sögunnar um ókomna tíð fyrir sitt „stóra vont“. Og er að því leytinu til ekki ósvipaður Hesóstratusi sem brenndi hof Díönu, eitt af sjö undrum veraldar í fornöld, svo að nafn hans mætti lifa að eilífu.“

Allnokkrar „ritgerðanna“ í safninu eru listar af ýmsu tagi. „Eitt þúsund vetra kólgað blóð“ er þannig upptalning á því hvað slæmir vetur í Íslandssögunni hafa verið kallaðir (Roðavetur (1118), Sóttarvetur (1153), Fellivetur (1186), Nautadauðavetur (1187) …); Í „Þunnt“ eru talin upp orð sem lýsa einmitt því, þunnum drykkjum (argasull, baunaskol, englapiss, fuglahland …); og í „Hin föllnu“ eru rifjuð upp á fjórða tug dæma um fall persóna í sögum af ýmsu tagi (Eva í freistni, Lúsífer af himnum, Loftsteinninn sem bar lífið til jarðar, Íkarus af oflæti, og svo framvegis).

Sumar stuttu ritgerðanna, einungis nokkrar setningar, eru „um“ hitt og þetta – „Um fegurðina“ er um fullyrðingu rússnesks skálds um sköpunarmátt rússneskrar tungu og hvernig Lenín brást við orðum hans. Í „Um vináttuna II“ segir í þremur línum af samtali Becketts og vinar. Og viðfangsefnin eru furðulega mörg og ólík: í einni ritgerðinni er fjallað um andlátsorð Gertrude Stein, í „Mæling heimsins“ kemur þyngdin á heilum nokkurra hugsuða við sögu, og í „Formáli þessa rits“ segir af ritgerðasamkeppni sem Hið íslenska bókmenntafélag stóð fyrir árið 1849.

Magnús vinnur í þessu brotakennda og forvitnilega safni með hefð húslestursins, frásagna sagnaþularins sem fræðir þá sem til hans heyra um allt mögulegt sem ómögulegt, satt sem logið. Hann kemur vægast sagt víða við, með vísunum í skrif og sagnir um fólk víða að úr sögunni, skáldað sem raunverulegt, heimspekinga sem förumenn.

Ekki er annað hægt en að dást að eljunni við að safna öllum þessum upplýsingum saman, hvort sem um er að ræða orðalista, upplýsingar úr annálum, brot úr skáldskap af ýmsu tagi eða flökkusögur. Sumt er vissulega afar sérviskulegt, sem getur verið gaman að lesa, annað svo knappt að ekki nær flugi í huga þessa lesara, og frásagnirnar eru misforvitnilegar.

En Magnúsi tekst í víðsýnum prósaskrifum sínum alltaf að koma á óvart, að ögra formum á sinn háttvísa, yfirvegaða og menntaða hátt, og í margvíslegum og frumlegum textunum býr líka alltaf lævís og lymskulegur húmor sem bætir athyglisverðu lagi við lesturinn.