Kontrabassi „Það er sjaldan sem maður sér einleik á kontrabassa en hún tæklaði þetta svo rosalega vel,“ segir Sunna um Anneleen Boehme.
Kontrabassi „Það er sjaldan sem maður sér einleik á kontrabassa en hún tæklaði þetta svo rosalega vel,“ segir Sunna um Anneleen Boehme. — Ljósmynd/Bruno Bollaert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áhersla verður lögð á kynjajafnvægi á djasshátíðinni Freyjufest sem haldin verður í Hörpu í dag. Sunna Gunnlaugsdóttir stendur fyrir hátíðinni en undanfari hennar er tónleikaröðin Freyjudjass sem hóf göngu sína árið 2017

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Áhersla verður lögð á kynjajafnvægi á djasshátíðinni Freyjufest sem haldin verður í Hörpu í dag. Sunna Gunnlaugsdóttir stendur fyrir hátíðinni en undanfari hennar er tónleikaröðin Freyjudjass sem hóf göngu sína árið 2017.

Með Freyjudjassi segist Sunna hafa viljað greiða leiðina fyrir konur inn á djasssenuna hér á landi. „Ég byrjaði með þetta sem hvatningu fyrir konur að spila meira. Ég vissi að það væru einhverjar sem höfðu áhuga á þessu en áttu kannski erfitt með að komast að á senunni. Svo ég gerði þetta til þess að opna aðeins dyrnar og gera konur sýnilegri í senunni með því að bjóða erlendum gestum að koma og spila.“ Hún hafi þá sérstaklega reynt að bjóða tónlistarkonum sem spili á hljóðfæri sem sjaldséð er hér á landi að konur leiki á, t.d. kontrabassa.

Kynjajafnvægi á sviðinu

Freyjudjassinn var haldinn reglulega í þrjú ár eða þar til Covid skall á og um svipað leyti fór Sunna að velta fyrir sér möguleikanum á að halda hátíð í sama anda.

„Mig langaði að halda hátíð svo þetta væru ekki bara stakir tónleikar heldur fengju konurnar líka að upplifa sig í samvist við aðrar konur á senunni af því að við erum oft svo einangraðar.“ Hún segir þó að stefnan hafi aldrei verið að halda algjöra kvennahátíð heldur hafi hún viljað hafa kynjajafnvægi á sviðinu. Níu konur og níu karlmenn eru meðal flytjenda.

Spurð hvaða ástæður hún telji að liggi að baki þessu ójafnvægi segir Sunna: „Upphaflega eru það samfélagslegar aðstæður. Senan er um hundrað ára gömul og fyrir fimmtíu, sextíu eða sjötíu árum áttu konur bara að vera heima þannig að þær hafa alltaf átt erfiðara aðgengi að senunni. Þetta voru, á þeim tíma, oft baráttukonur, það þurfti mikinn kjark og úthald til þess að halda þér á þessari senu. Þeim var endalaust gert erfitt fyrir.“

Enn í dag segir hún að sýnileika kvenna í djassinum skorti. „Núna árið 2023 ætti þetta að vera breytt en það virðist þurfa eitthvert átak til þess að breyta þessari ímynd að djasssenan sé bara hópur karlmanna og þeim kröfum að konur spili alveg eins og karlarnir.“

Með þátttöku kvenna segir hún að komi nýtt sjónarhorn á tónlistina sem sé gott því djassinn sé listform en ekki keppnisíþrótt.

Flytjendurnir á hátíðinni eru samsafn listamanna frá Íslandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Sviss, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi en atriðin verða alls sex, þrjú fyrri part dags og þrjú í kvöld. Fyrri hlutinn hefst kl. 13.30 en kvölddagskráin hefst kl. 20.

„Ég var alveg heilluð“

„Þegar ég byrjaði Freyjudjasstónleikaröðina var fyrsti flytjandinn hin bandaríska Myra Melford og mér fannst við hæfi að fá hana aftur til leiks. Hún er rosalega reynslumikil og flott. Það er mikill húmor í henni. Hún er skemmtilegur spilari sem fer óvæntar slóðir. En hún er líka mjög lýrísk í sinni nálgun. Þetta er skemmtileg blanda af frjálsum spuna, blús og tónsmíðum.“ Melford mun leika einleik á píanó.

Kontrabassaleikarinn Anneleen Boehme mun einnig leika einleik en Sunna sá hana spila á hátíð í Belgíu fyrir um einu og hálfu ári. „Ég var alveg heilluð, mér fannst hún alveg frábær. Það er sjaldan sem maður sér einleik á kontrabassa en hún tæklaði þetta svo rosalega vel,“ segir Sunna um Boehme.

„Svo langaði mig að hafa einhverjar ungar, íslenskar konur. Síðustu tvö ár eru bassaleikarinn Ingibjörg Elsa Turchi og píanistinn Anna Gréta Sigurðardóttir búnar að vera að gera alveg stórmerkilega hluti. Þær koma með skemmtilega nálgun inn í djassinn sem er bara samtímatónlist. Anna kemur með sænska tríóið sitt og með Ingibjörgu koma fram einhverjir af flottustu ungu spilurunum okkar. Ég vildi hafa góða fulltrúa íslenska djassins.“

Þá kemur þýski saxófónleikarinn Angelika Niescier fram með Hilmari Jenssyni og Scott McLemore en þau skipa tríóið Broken Cycle sem unnið hefur saman í þónokkurn tíma og komið víða við. Sunna nefnir að Niescier hafi nýverið hlotið djassverðlaun þýska útvarpsins. „Þeirra nálgun er mjög skemmtileg, þetta er drífandi og orkumikill djass.“

Lokaatriði hátíðarinnar verður í höndum stórsveitar svissneska tónskáldsins Sarah Chaksad. „Hún vinnur mikið með stærri böndum og skemmtilegar samsetningar á mismunandi hljóðfærum. Þetta er lýrísk tónlist en líka með alls kyns ryþmískum fléttum. Pabbi hennar er frá Íran og mér finnst votta fyrir öðrum áhrifum í hennar tónlist en í dæmigerðum djasslögum. Þetta verða spennandi tónleikar.“

Oktettinn skipa, auk Chaksad, Svisslendingurinn Benedikt Reising, norski háfjallatrompet- og geitarhornsleikarinn Hildegunn Øiseth, Anneleen Boehme, Angelika Niescier, Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir, Scott McLemore og Sunna sjálf. Hátíðinni lýkur því á að flytjendur úr ólíkum atriðum koma saman og segir Sunna að spenna og eftirvænting ríki í hópnum.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir