Crosby (vísifingraður) ásamt félögum sínum Neil Young, Graham Nash og Stephen Stills árið 1999. Þeir störfuðu saman svo áratugum skipti.
Crosby (vísifingraður) ásamt félögum sínum Neil Young, Graham Nash og Stephen Stills árið 1999. Þeir störfuðu saman svo áratugum skipti.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við David fórum reglulega í hár saman gegnum tíðina og enda þótt höggin væru alla jafna ekki þung þá sátum við eigi að síður eftir með sárt ennið. Til allrar hamingju skildum við sáttir. Hann var án nokkurs vafa bergrisi af tónlistarmanni og…

Við David fórum reglulega í hár saman gegnum tíðina og enda þótt höggin væru alla jafna ekki þung þá sátum við eigi að síður eftir með sárt ennið. Til allrar hamingju skildum við sáttir. Hann var án nokkurs vafa bergrisi af tónlistarmanni og harmónísk næmni hans var tær snilligáfa … ég get ekki á mér heilum tekið vegna fráfalls hans og mun sakna hans meira en orð fá lýst.“

Þannig minntist Graham Nash félaga síns og vopnabróður, Davids Crosbys, en sá síðarnefndi féll frá í vikunni eftir langvarandi veikindi, 81 árs að aldri.

Við þessi vatnaskil sagði Nash standa upp úr hversu dásamlegt það hefði verið að músisera með Crosby og finna hinn eina sanna hljóm. Þeir störfuðu með stuttum hléum saman í hljómsveitinni Crosby, Stills & Nash frá 1968 til 2015 og lengi vel var Neil Young fjórða hjólið undir þeim hljómfagra vagni.

Crosby sló raunar fyrst í gegn með The Byrds árið 1964 en var vikið úr rokkbandinu þremur árum síðar. Í heimildarmyndinni Remember My Name segir Byrdsliðinn Roger McGuinn pólitiskar prédikanir, sem Crosby var þekktur fyrir á tónleikum, hafa verið óbærilegar og annar bandingi, Chris Hillman, segir hann hafa þjáðst af meirimáttarkennd. Því fór sem fór.

Þá varð tríóið Crosby, Stills & Nash til og seldi fyrstu plötu sína, sem bar nafn sveitarinnar, í bílförmum árið 1969. Déjà Vu, sem kom út árið eftir, gekk ekki síður vel en þá var Young búinn að slást í hópinn.

Eins og ráða má af orðum Nash hér að framan gustaði vel um mannskapinn öll þessi ár og í viðtali við breska blaðið The Guardian fyrir tveimur árum lýsti Crosby Nash sem „hreinum óvini“ og sagði að Young væri sjálfhverfasti og eigingjarnasti maður sem hann hefði kynnst.

Crosby uppgötvaði Joni Mitchell á klúbbi í Flórídu árið 1967, kom henni á framfæri og stjórnaði upptökum á fyrstu plötu hennar, Song to a Seagull. Þau létu raunar ekki þar við sitja og áttu um skeið í ástarsambandi. Ekki er langt síðan Crosby lýsti Mitchell sem bestu söngkonu og lagahöfundi sem hann hefði kynnst – „svo miklu munar“.

Hann átti líka farsælan einherjaferil. Fyrsta platan kom út 1971 og sú síðasta, For Free, 2021. Á henni vann Crosby með syni sínum, James Raymond, sem hann vissi ekki af fyrr en sonurinn var þrítugur, 1992. Raymond var ættleiddur og var ekki tjáð fyrr en eftir tvítugt að Crosby væri blóðfaðir hans. Hann hafði þá uppi á Crosby og var gamli maðurinn mjög þakklátur fyrir þau kynni og ekki síður samstarfið á vettvangi tónlistarinnar. „Hann gaf mér tækifæri til að vinna mér leið inn í líf hans gegnum tónlistina,“ sagði Crosby við The Guardian.

Sæði Crosbys féll víðar en maki tónlistarkonunnar Melissu Etheridge ól tvö börn, pilt og stúlku, eftir lífgjöf frá honum. Pilturinn er nú látinn. Þá lætur Crosby eftir sig soninn Django, sem hann átti með eftirlifandi eiginkonu sinni, Jan Dance. Í yfirlýsingu frá Dance í vikunni segir m.a.: „Enda þótt hann sé farinn frá okkur þá munu mennska hans og ljúf sál halda áfram að vísa okkur veginn og hvetja okkur til góðra verka. Arfleifð hans er tryggð gegnum ódauðlega músíkina. Ást og friður til allra sem þekktu David og sem hann snerti um dagana.“
orri@mbl.is