Þjóðverjar undir þrýstingi en allir gætu lagt meira af mörkum

Þjóðverjar sögðu í gær að enn hefði engin ákvörðun verið tekin um það hvort þeir ætluðu að Úkraínumenn fengju afhenta skriðdreka af gerðinni Leopard II til að nota til að hrinda Rússum af höndum sér. Úkraínumenn hafa lagt hart að Þjóðverjum að gefa grænt ljós, en hafa enn ekki haft erindi sem erfiði.

Hinn nýi varnarmálaráðherra Þjóðverja, Boris Pistorius, sagði við blaðamenn utan dagskrár á fundi undir forystu Bandaríkjamanna í bandarísku flugherstöðinni í Ramstein í Þýskalandi í gær, að enn væri ekki ljóst hvenær ákvörðun yrði tekin og þvertók fyrir að Þjóðverjar drægju lappirnar í málinu.

Þjóðverjar hafa verið undir miklum þrýstingi í skriðdrekamálinu. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hefur sagt að svar Þjóðverja velti á því að Bandaríkjamenn afhendi Pólverjum einnig skriðdreka. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að Þjóðverjar séu tregir til að stíga einir skref, sem segja má að sé til marks um að vestrið sé að setja meiri kraft í samstöðuna með Úkraínu.

Hik ráðamanna í Berlín reynir hins vegar á þolinmæði bandamanna þeirra. Það er ekki síst vegna þess að þeir, sem hafa keypt Leopard-skriðdreka af Þjóðverjum, eru bundnir af því að mega ekki láta þá til annarra án samþykkis seljandans. Pólverjar hafa til dæmis lýst yfir því að þeir séu tilbúnir að afhenda Úkraínuher Leopard-skriðdreka strax, en hendur þeirra séu bundnar út af því að Þjóðverjar geti ekki tekið af skarið.

Byrjað var að framleiða Leopard-skriðdrekana á áttunda áratug 20. aldar og þykja þeir með þeim bestu. Að auki eru hundruð slíkra skriðdreka í umferð hjá herjum um alla Evrópu og auðveldar það viðhald og útvegun varahluta. Sérfræðingar segja að það geti skipt miklu máli fyrir Úkraínumenn að fá fleiri skriðdreka. Þeirra skriðdrekafloti er frá Sovéttímanum og farið að saxast á hann í átökunum við Rússa.

Bandaríkjamenn hafa þrýst á að hernaðarmáttur Úkraínumanna verði aukinn. Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í Ramstein í gær að Úkraínumenn væru að undirbúa stórsókn í vor og mikilvægt væri að nýta tímann þar til voraði vel til að tryggja að þeir verði nógu vel búnir hernaðarlega til að ná árangri. Bætti hann við að allir gætu lagt meira af mörkum, líkt og til að gefa til kynna að ekki væri aðeins þrýstingur á Þjóðverjum, sem hann kallaði trausta bandamenn.

Segja má að komin sé upp pattstaða í Úkraínu. Úkraínuher hefur gert rússneska hernum talsverðar skráveifur, en Rússum hefur tekist að ýta aðeins á móti, þótt hernaðarlegur ávinningur þeirra hafi verið takmarkaður. Athygli vekur að málaliðasveitirnar, sem kenna sig við Wagner, hafa eignað sér þennan árangur, en ekki rússneski herinn. Leiðtogi Wagner-sveitanna, Jevgení Prígosjín, sem kallaður hefur verið kokkur Pútíns og seilist greinilega eftir auknum völdum, hefur undanfarið ítrekað borið úkraínska herinn lofi og varpar um leið milli línanna rýrð á þann rússneska.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, talar um að efla rússneska herinn, en það tekur tíma. Þótt rússneski herinn sé í miklum vandræðum, er hins vegar ekki þar með sagt að auðvelt verði að hrekja hann frá Úkraínu.

Þá er þeirri spurningu ósvarað hver markmiðin séu í Úkraínu. Í Kænugarði er yfirlýst markmið að endurheimta allt það land, sem Rússar hafa sölsað undir sig, þar með talinn Krímskaga. Ráðamenn á Vesturlöndum forðast hins vegar alla nákvæmni. Lengi vel var meira að segja sneitt hjá því að tala um sigur Úkraínumanna. Austin missti það eitt sinn út úr sér, en bandaríska varnarmálaráðuneytið gaf í kjölfarið út varkárara orðalag.

Í Evrópu hefur viðkvæðið verið að Rússar mættu ekki vinna og Úkraínumenn ekki tapa. Í seinni tíð hefur tónninn þó breyst. Austin er aftur farinn að tala um sigur Úkraínumanna. Það á líka við um Emmanuel Macron, forseta Frakka, þótt Þýskalandskanslari tali á annan veg og er enda farið að tala um erfiðleika í samskiptum milli Berlínar og Parísar. Miðað við það hvernig Bandaríkjamenn tala virðist ljóst að þeir séu að nálgast sömu afstöðu og Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, og þeirra markmið sé að hrekja Rússa sem lengst til baka.

En hversu langt? Rússar kveinka sér og kvarta sáran. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, gengur svo langt að nota orðið „lokalausn“ þegar hann talar um samstöðu Vesturlanda með Úkraínu líkt og þau ætli Rússum sama hlutskipti og nasistar gyðingum. Það er auðvitað fráleitt. Rússar réðust inn í Úkraínu með brjálæðislegum rökum, hafa farið þar fram með hrottafengnum hætti og hafa ekkert sér til málsbóta. Pútín er eins og innbrotsþjófur, sem ekki er nóg með að neiti að fara þegar innbrotið hefur mistekist, heldur vogar sér að kalla það ofsóknir þegar reynt er að koma honum út.