— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hvernig fékkstu hugmyndina að þáttunum Ímynd? Hugmyndin kviknaði þegar ég sá mynd um Mapplethorpe í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. Ég fór að hugsa að hér á landi hefðu ekki verið gerðar margar myndir um ljósmyndara og stakk upp á því við RÚV

Hvernig fékkstu hugmyndina að þáttunum Ímynd?

Hugmyndin kviknaði þegar ég sá mynd um Mapplethorpe í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. Ég fór að hugsa að hér á landi hefðu ekki verið gerðar margar myndir um ljósmyndara og stakk upp á því við RÚV. Þessu var vel tekið og ég fór í samstarf við tvær ungar konur, þær Katrínu Ásmundsdóttur og Önnu Gyðu Sigurgísladóttur, sem höfðu verið að gera áhugaverða útvarpsþætti um ljósmyndun á RÚV sem heita Glans. Úr urðu yfirgripsmiklir þættir en við fjöllum einnig um hlutverk ljósmyndunar á Íslandi og hvernig það hefur þróast. Við förum um víðan völl, en efninu er skipt niður í sex þætti; mannamyndir, landslagsljósmyndun, fréttaljósmyndun, myndlistar- og samtímaljósmyndun, fjölskyldualbúmið og varðveisla og öðruvísi ljósmyndir, til dæmis rannsóknarljósmyndir.

Hvernig valdir þú ljósmyndarana sem koma fram í myndinni?

Við unnum það með fleirum og höfðum Einar Fal Ingólfsson sem ráðgjafa. Við völdum fólk í kringum þemun en þetta var kannski það erfiðasta við gerð seríunnar. Ég kem sjálf úr þessum geira og vissi að það yrði alltaf erfitt að velja og hafna.

Heldurðu að einhverjir ljósmyndarar verði spældir?

Já, já, örugglega. Það verður bara að hafa það. Þættirnir eru um ljósmyndun á Íslandi en ekki um alla ljósmyndara landsins og alls ekki tæmandi úttekt.

Þú fjallar bæði um frétta- og heimildaljósmyndara og eins listafólk sem notar myndavél í sköpunina. Fer þetta saman?

Já, algjörlega. Þættirnir fjalla um ljósmyndun í breiðasta skilningi orðsins. Myndlist er einn vinkillinn. Hvar byrjar og endar ljósmyndun? Það er ein spurning sem við veltum upp. Svo viljum við færa þetta líka heim í stofu og fjöllum um fjölskyldualbúmið, en nú í stafrænu byltingunni er það að deyja út.

Þetta hljómar mjög yfirgripsmikið. Varstu ekki lengi að gera þessa þætti?

Jú, og svo fékk ég Covid þrisvar og aðrir nokkrum sinnum þannig að það tafði ferlið.

Var eitthvað sem kom á óvart?

Ég uppgötvaði að kvenljósmyndarar á Austfjörðum á árunum 1871-1944 voru mjög margir og jafnvel fleiri en karlarnir.

Ný þáttasería um ljósmyndun og íslenska ljósmyndara er nú sýnd á RÚV en fyrsti þáttur af sex fór í loftið á fimmtudag. Hrafnhildur Gunnarsdóttir stjórnaði upptöku og framleiddi.