Noregur Brúin yfir Karmsund, yfir til eyjarinnar Karmøy.
Noregur Brúin yfir Karmsund, yfir til eyjarinnar Karmøy. — Ljósmynd/Wikipedia
Íslensk kona er alvarlega særð eftir hnífaárás á McDonalds-veitingastað á Karmøy í Noregi í gær. Maðurinn sem liggur undir grun er fyrrverandi eiginmaður konunnar. Hann er einnig frá Íslandi en þau eru bæði á sjötugsaldri

Íslensk kona er alvarlega særð eftir hnífaárás á McDonalds-veitingastað á Karmøy í Noregi í gær. Maðurinn sem liggur undir grun er fyrrverandi eiginmaður konunnar. Hann er einnig frá Íslandi en þau eru bæði á sjötugsaldri. Talið er að árásarvopnið hafi fundist á staðnum, en það var þó ekki staðfest af lögreglu.

Tilkynning um árásina barst til lögreglu kl. 13.44 í gær. Fimmtán mínútum síðar var maðurinn handtekinn þar sem hann sat í bíl fyrir utan heimili sitt. Lögreglan yfirheyrði fjölda vitna í gær, en ekki var hægt að yfirheyra konuna vegna ástands hennar. Húsleit var gerð á heimili mannsins.

Málið er rannsakað sem tilraun til manndráps, en maðurinn hafði áður verið dæmdur í nálgunarbann gagnvart konunni. Norskir fjölmiðlar segja að hann liggi undir grun í öðru sakamáli.

Maðurinn játaði að hafa stungið konuna með hníf í gær. Erik Lea, skipaður verjandi mannsins, segir hann hafa séð svart þegar hann sá konuna og geti ekki útskýrt ástæður gjörða sinna. Hann var úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald og fyrstu tvær vikurnar í einangrun.