40 ára Sóley er fædd og uppalin í Laugardalnum í Reykjavík og býr nú í Laugarnesinu. Hún er með bachelor gráður í eðlisfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hún flutti til Danmerkur með Jakobi manninum sínum 2006 þar sem hann fór í konunglegu…

40 ára Sóley er fædd og uppalin í Laugardalnum í Reykjavík og býr nú í Laugarnesinu. Hún er með bachelor gráður í eðlisfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands. Hún flutti til Danmerkur með Jakobi manninum sínum 2006 þar sem hann fór í konunglegu listakademíuna að læra arkitektúr, en hún fór í meistaranám í áhættu- og öryggisverkfræði við Lundarháskóla í Svíþjóð. Hún komst svo inn í Yale háskóla í Jackson School of Global Affairs þar sem hún fékk meistaragráðu í alþjóðlegum öryggisfræðum og ríkiserindrekstri. Hún komst inn í útvaldan hóp nemenda sem fékk að taka námskeið hjá John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

„Að loknum meistaragráðum okkar fluttum við frá Danmörku til Grænlands þar sem ég kenndi stærðfræði og vísindi við GUX Sisimiut menntaskólann. Það var algjört ævintýri að búa á Grænlandi þar sem við lærðum að keyra hundasleða og veiða gegnum vök. Við áttum góða samleið með heimamönnum og menningu þeirra. Við fluttum til Íslands í lok árs 2016 þegar ég fékk vinnu hjá Landhelgisgæslunni við að sinna áhættugreiningum, norðurslóða- og þjóðaröryggismálum. Það var fjölbreytt og krefjandi starf með framúrskarandi fólki í hverri stöðu.“

Sóley er núna aðalsamningamaður Íslands í fiskveiðisamningum á skrifstofu sjávarútvegs í Matvælaráðuneytinu. „Það er gríðarlega spennandi verkefni að vinna að því að ná sjálfbærri skiptingu deilistofna milli okkar og nágrannaríkja.

Ég hef verið í stjórn Varðbergs (samtök um vestræna samvinnu og alþjóðamál) um árabil enda brenn ég fyrir bættu þjóðaröryggi og alþjóðlegri samvinnu. Ég er einnig í sóknarnefnd Laugarneskirkju og hef árum saman verið bekkjarfulltrúi í Laugarnesskóla.“

Áhugamál Sóleyjar utan vinnu eru börn og uppeldi, útivist og hreyfing, dans og skapandi skrif.


Fjölskylda Eiginmaður Sóleyjar er Jakob Þór S. Jakobsson, f. 1984, arkitekt hjá ASK arkitektum. Börn þeirra eru Óli f. 2011, Steinunn f. 2015, Jón f. 2021 og Guðrún f. 2021. Foreldrar Sóleyjar: Steinunn Kaldal Kristinsdóttir, f. 1945, hjúkrunarritari og tækniteiknari, búsett í Reykjavík, og Jón Kaldal, f. 1942, d. 2003, byggingafræðingur og arkitekt.