Asahláka Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti um það bil 30 útköllum í gær í heimahúsum og fyrirtækjum.
Asahláka Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti um það bil 30 útköllum í gær í heimahúsum og fyrirtækjum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veðurspár gengu eftir í gær og daglegt líf landsmanna raskaðist sem og starfsemi víða um land. Gul veðurviðvörun var í gildi í öllum landshlutum og verður áfram fram undir morgun. Síðasta veðurviðvörunin fellur úr gildi síðdegis.

Veðurspár gengu eftir í gær og daglegt líf landsmanna raskaðist sem og starfsemi víða um land. Gul veðurviðvörun var í gildi í öllum landshlutum og verður áfram fram undir morgun. Síðasta veðurviðvörunin fellur úr gildi síðdegis.

Í dag má búast við rólegu og kólnandi veðri og hvassri suðvestanátt með einhverjum éljagangi vestan til í kvöld en myljandi éljum með hita um og undir frostmarki á höfuðborgarsvæðinu á sunnudag. Á norðausturhorni landsins og á Austurlandi má búast við hláku fram undir hádegi í dag.

Öllu innanlandsflugi var aflýst í gær vegna mikillar ókyrrðar í lofti en engin röskun var á millilandaflugi.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í gærmorgun til að bregðast við miklum leka í Fossvogsskóla og var skólahaldi á miðsstigi aflýst og 150 börn send heim. Ekki urðu verulegar skemmdir á byggingunni vegna lekans og stefnt er að því að skólahald verði með eðlilegum hætti á mánudag.

Skeiða- og Hrunamannavegi var lokað á fimmtudag til að verja brú sem er í smíðum yfir Stóru-Laxá fyrir vatnavöxtum og í fyrrinótt og í gærmorgun rufu verktakar veginn til að veita ánni að hluta til fram hjá brúnni.

Vír fór af hjóli í Fjarkanum, annarri stólalyftu Hlíðarfjalls á Akureyri, og aðstoð björgunarsveitar þurfti til að bjarga skíðafólki niður úr lyftunni. Aðgerðir gengu vel fyrir sig, fólkið fékk aðhlynningu, engan sakaði og engin þáði áfallahjálp.

Eitthvað var um vandkvæði vegna mikillar hláku, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu í gær. Hjalti Jóhannes Guðmundsson, skrifstofustjóri rekstrar og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, segir að allt hafi gengið nokkuð vel fyrir sig.

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafði sömuleiðis í nægu að snúast og sinnti um það bil 30 útköllum, bæði í heimahúsum og fyrirtækjum, einkum vegna hláku. Ekkert stórtjón varð þó sem vitað er af. oap@mbl.is