Drápuhlíð Dagar heilsugæslunnar í þessu gróna íbúðarhverfi verða senn taldir þar sem til stendur að flytja starfsemina yfir í Skógarhlíð 18.
Drápuhlíð Dagar heilsugæslunnar í þessu gróna íbúðarhverfi verða senn taldir þar sem til stendur að flytja starfsemina yfir í Skógarhlíð 18. — Morgunblaðið/Hákon
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Áformað er að flytja Heilsugæsluna í Hlíðum úr Drápuhlíð 14-16 yfir í Skógarhlíð 18. Heilsugæslan er í grónu íbúðahverfi og samkvæmt fasteignaskrá er húsið 819 fermetrar og lóðin 914 fermetrar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Áformað er að flytja Heilsugæsluna í Hlíðum úr Drápuhlíð 14-16 yfir í Skógarhlíð 18. Heilsugæslan er í grónu íbúðahverfi og samkvæmt fasteignaskrá er húsið 819 fermetrar og lóðin 914 fermetrar.

Skógarhlíð 18 er í nokkur hundruð metra fjarlægð en þar er um margt auðveldari aðkoma og fleiri bílastæði í boði en í Drápuhlíð. Hafa iðnaðarmenn unnið að því að standsetja hluta hússins undir heilsugæsluna en það er í eigu fasteignafélagsins Kaldalóns.

Ríkið keypti 85% hlut í fasteigninni Drápuhlíð 14-16 í sumarbyrjun aldamótaárið 2000. Heilsugæsla hafði þá verið rekin á neðri hæð hússins en við kaupin fékkst efri hæðin afhent til sömu nota.

Með reisulegri húsum

Eignin er ein sú reisulegasta í Hlíðahverfinu og er með malbikuðu bílastæði á baklóð. Vegna fyrirhugaðra flutninga vakna spurningar um framtíðarnot hússins.

Karl Pétur Jónsson, upplýsingafulltrúi hjá Framkvæmdasýslunni –Ríkiseignum, sagði málið í skoðun.

„Ekki hefur verið ákveðið hvað bíður byggingarinnar við Drápuhlíð. Til skoðunar er hvort byggingin hentar fyrir starfsemi á vegum ríkisins. Ef svo er ekki verður staðan metin,“ sagði Karl Pétur.

Sem áður segir er húseignin alls um 819 fermetrar og með sérútbúnu bílastæði. Ekki er óraunhæft að fermetraverð í þessari götu sé um 800 þúsund krónur og samkvæmt því er verðmæti hússins um 655 milljónir.

Verðið hefur margfaldast

Því er forvitnilegt að rýna í kaupverð hússins á sínum tíma.

Ríkissjóður lét meta fasteignina til verðs sumarið 1999 og hljóðaði verðmat Dan Valgarðs S. Wiium, löggilts fasteignasala, þá upp á 57,28 milljónir og var kaupverð ríkissjóðs (85%) því 46,69 milljónir. Núvirt var verðmat hússins 171 milljón og má því fullyrða að verðið hafi síðan margfaldast.

Ráðist var í endurbætur á húsinu svo það hentaði starfseminni en það var byggt 1958.

Höf.: Baldur Arnarson