Alls bjuggu 387.800 manns hér á landi í lok nýliðins árs og fjölgaði þeim um 2.570 manns á seinustu þremur mánuðum ársins samkvæmt ársfjórðungstölum sem Hagstofan birti í gær. Ef fjöldi landsmanna um áramótin er borin saman við mannfjöldatölur…

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls bjuggu 387.800 manns hér á landi í lok nýliðins árs og fjölgaði þeim um 2.570 manns á seinustu þremur mánuðum ársins samkvæmt ársfjórðungstölum sem Hagstofan birti í gær. Ef fjöldi landsmanna um áramótin er borin saman við mannfjöldatölur Hagstofunnar fyrir ári síðan eða í árslok 2021 má sjá að landsmönnum hefur fjölgað yfir árið um 11.800. Haldi sá vöxtur áfram á sama hraða (3,1%) á yfirstandandi ári má samkvæmt þessum tölum Hagstofunnar gera ráð fyrir því að landsmenn verði orðnir 400 þúsund talsins á næsta ári, jafnvel á fyrstu mánuðum ársins 2024. Þó kann að vera eitthvað lengra í að því marki verði náð ef haft er í huga að í ljós kom fyrr í vetur að manntal sem gert var á árinu 2021 bendir til að íbúafjöldinn á landinu fyrir tveimur árum síðan hafi verið ofmetinn. Tæplega tíu þúsund færri hafi þá búið á landinu en skráðir voru í þjóðskrá. Stafar misræmið einkum af því að margir flytja af landi brott án þess að tilkynna búferlaflutninga.

Margir þættir hafa áhrif á breytingar á mannfjöldanum, s.s. búferlaflutningar, sveiflur í komum erlendra ríksborgara, dánartíðni og frjósemi. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar sem birt var í seinasta mánuði var gert ráð fyrir að 400 þúsund íbúa markinu verði ekki náð fyrr en á árinu 2028 skv. miðspá en nú virðist blasa við að landsmönnum hafi fjölgað meira að undanförnu en fyrri spár gerðu ráð fyrir.

65.000 erlendir ríkisborgarar

Erlendir ríkisborgarar bera uppi fjölgun íbúa landsins. Á seinasta ársfjórðungi nýliðins árs fluttust 2.120 einstaklingar til landsins umfram brottflutta og segir í frétt Hagstofunnar í gær að brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang hafi verið 60 umfram aðflutta en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 2.170 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Erlendir ríkisborgarar voru rúmlega 65 þúsund um sl. áramót. Sé sjónum beint að þróuninni yfir allt síðast liðið ár kemur í ljós að erlendir ríkisborgarar voru 10.320 fleiri nú um nýliðin áramót en fyrir ári síðan. Íslenskum ríkisborgurum hefur á sama tíma fjölgað um 1.470 frá áramótum í fyrra til ársloka 2022.

Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði íbúum vegna komu erlendra ríkisborgara sem voru 1.530 umfram aðflutta á seinustu þremur mánuðum nýliðins árs en brottfluttir íslenskir ríkisborgarar voru 140 umfram aðflutta á höfuðborgarsvæðið. Á landsbyggðinni var flutningsjöfnuðurinn jákvæður í báðum hópunum þar sem aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 650 umfram brottflutta og aðfluttir íslenskir ríkisborgarar 80 umfram brottflutta.

Á seinasta ársfjórðungi komu flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar til landsins frá Danmörku (140), Noregi (40) og Svíþjóð (70), samtals 240 manns af 380. „Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara en þaðan fluttust 720 til landsins af alls 3.320 erlendum innflytjendum. Úkraína kom næst en þaðan fluttust 580 erlendir ríkisborgarar til landsins,“ segir í umfjöllun Hagstofunnar.

Meðalaldurinn hækkar

Þjóðin eldist hægt og sígandi. Af tölum Hagstofunnar má sjá að meðalaldur íbúanna um seinustu áramót var 38,5 ár en ef horft er 40 ár aftur í tímann kemur í ljós að meðalaldur landsmanna var 31,7 ár í lok ársins 1982.

Búferlaflutningar

Fleiri til Suðurlands

Alls fluttu 2.551 einstaklingar lögheimili sitt á höfuðborgarsvæðinu í nóvember skv. nýjum tölum Þjóðskrár. 2.232 fluttu sig sig um set innan svæðisins en heldur fleiri fluttu frá svæðinu en til þess. Á Suðurnesjum fluttu 370 lögheimili í síðusta mánuði og þar af 74 til höfuðborgarsvæðisins. Á Suðurlandi fluttu 322 lögheimili sitt, þar af fluttu 62 til höfuðborgarsvæðisins en heldur fleiri fluttu til Suðurlands en frá því.

Höf.: Ómar Friðriksson