Ferðalag Frá vinstri talið: Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Arnheiður Jóhannsdóttir. „Unnið er að mörgum nýjum og spennandi verkefnum,“ segir Ragnhildur um stöðu og framvindu mála.
Ferðalag Frá vinstri talið: Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, Lilja Alfreðsdóttir og Arnheiður Jóhannsdóttir. „Unnið er að mörgum nýjum og spennandi verkefnum,“ segir Ragnhildur um stöðu og framvindu mála. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Fulltrúar alls 230 fyrirtækja í ferðaþjónustu kynntu sig á ferðakaupstefnunni Mannamót sem haldin var í Kórnum í Kópavogi á fimmtudaginn. Tal var tekið, tengsl mynduð og staðan tekin fólks á meðal á þessari samkomu sem þykir miklvægur vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fulltrúar alls 230 fyrirtækja í ferðaþjónustu kynntu sig á ferðakaupstefnunni Mannamót sem haldin var í Kórnum í Kópavogi á fimmtudaginn. Tal var tekið, tengsl mynduð og staðan tekin fólks á meðal á þessari samkomu sem þykir miklvægur vettvangur viðskipta í ferðaþjónustu.

„Ferðaþjónustan er í hraðri þróun um þessar mundir og nýtt ár byrjar með krafti,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, forstöðumaður Markaðsstofu Norðurlands og talsmaður Mannamóta, í samtali við Morgunblaðið. Hún segir kaupstefnuna nú hafa verið gott tækifæri fólks til að bera saman bækur sínar. Mannamótum hafi vegna sóttvarna verið aflýst 2021 og þau verið seinna en venjulega í fyrra.

Mikið aðdráttarafl

„Nú á allra síðustu misserum hefur fjöldi nýs fólks komið til starfa í ferðageiranum. Margar spennandi hugmyndir eru því í deiglunni og ýmsum nýmælum hefur verið hrint í framkvæmd, svo sem í rekstri hótela og veitingastaða. Þá hafa verið opnaðir ýmsir nýir staðir með margvíslegri þjónustu sem verður mikið aðdráttarafl. Í því sambandi má nefna mathöll í Hveragerði og nýjan miðbæ á Selfossi. Einnig hafa ýmsir skemmtilegir hlutir verið að gerast á Akureyri,” segir Arnheiður.

Meðal þeirra sem sóttu Mannamót var Lilja Alfreðdóttir, ráðherra ferðamála. Hún tók fólk tali og kynnti sér hvað í boði væri, meðal annars ýmsar nýjungar. „Krafturinn í íslenskri ferðaþjónustu er einstakur eins og kemur bersýnilega í ljós á Mannamóti. Það er ótrúlega gefandi að hitta ferðaþjónustuaðila og sjá hversu fjölbreytt úrval er í boði af gistingu, veitingum, ferðum og afþreyingu. Þá var ánægjulegt að hitta fulltrúa Condor sem er að hefja beint flug frá og til Akureyrar og Egilsstaða í sumar, meðal annars fyrir tilstilli Flugþróunarsjóðs og öflugt starf áfangastaðastofanna,“ segir ráðherrann.

Stíga feti framar

Ævintýraferðir um jökla og fjöll, nýtt hótel í Dölunum, áhugaverðir viðkomustaðir á Norðurlandi, útsýnisflug, hótel og hestaferðir. Þetta og ótalmargt fleira var kynnt á Mannamótum og vakti athygli.

„Hér um slóðir og á landinu öllu er unnið að mörgum nýjum og spennandi verkefnum í ferðaþjónustu,“ segir Ragnhildur Sveinbjarnardóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands. Í því sambandi nefnir hún til dæmis uppbyggingu hálendismiðstöðvar í Kerlingarfjöllum, sviflínu í Reykjadal, fjallaböðin í Þjórsárdal og ýmis önnur spennandi uppbyggingaráform á Höfn í Hornafirði og víðar. „Fólk í greininni er jákvætt, drífandi og jafnan tilbúið að stíga feti framar. Skapa með því ný tækifæri til sóknar, hvort heldur er með upplifun og ævintýraferðum – ella þá að tengja þjónustu og ferðir við menningararfleifð þar sem Íslandsagan kemur sterkt inn. Þar má nefna hestaferðir í Landeyjum um Njáluslóðir og í Vestmannaeyjum er nafni og sögu Herjólfs landnámsmanns haldið vel til haga,“ segir Ragnhildur.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson