Patreksfjörður Auða svæðið í miðju er þar sem annað krapaflóðið fór yfir. Minnisvarðinn um þau sem létust er þríhyrndur og sést fyrir miðri myndinni.
Patreksfjörður Auða svæðið í miðju er þar sem annað krapaflóðið fór yfir. Minnisvarðinn um þau sem létust er þríhyrndur og sést fyrir miðri myndinni. — Morgunblaðið/Guðlaugur J. Albertsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Guðni Einarsson gudni@mbl.is Veðurstofa Íslands gaf út greinargerð um ofanflóð á Patreksfirði. Þar eru góðar upplýsingar um krapaflóðin sem féllu 22. janúar 1983.

Baksvið

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Veðurstofa Íslands gaf út greinargerð um ofanflóð á Patreksfirði. Þar eru góðar upplýsingar um krapaflóðin sem féllu 22. janúar 1983.

„Þennan dag féllu tvö flóð og í þeim fórust samtals 4 manns. Skv. dagblöðum skemmdust 19 hús en í ofanflóðaannál J.G.E. frá 1990 eru 16 hús sögð hafa orðið fyrir skemmdum, þar af gereyðilögðust 5 hús, 13 bílar eyðilögðust, fjórir bílskúrar og tvö fjárhús. Einnig skemmdist sláturhúsið nokkuð. Vatnsveita hreppsins skemmdist verulega og tvær brýr á Litladalsá hurfu gersamlega. Mikið tjón varð á götum,“ segir í greinargerðinni.

Þau sem fórust hétu Marteinn Ólafur Pétursson, 42 ára, Sigrún Guðbrandsdóttir, sex ára, Sigurbjörg Sigurðardóttir, 58 ára, og Valgerður Jónsdóttir, 77 ára. Alls urðu 33 heimilislausir vegna hamfaranna, að sögn Morgunblaðsins.

Áður en flóðin féllu var mikill snjór á Vestfjörðum. Hlý skil nálguðust úr suðri þann 21. janúar og gengu yfir Vestfirði að morgni þess 22. Þeim fylgdi mikil rigning og hiti á láglendi náði 8°C. Stærstu krapaflóð á Patreksfirði og Bíldudal, þ.e. 1959 og 1983, féllu í tengslum við mjög mikla úrkomu.

Fyrra krapaflóðið féll úr Geirseyrargili klukkan 15.40. Alls lenti 31 í flóðinu. Þar af fórust þrír, fimm slösuðust og 23 sluppu ómeiddir. „Flóðið var mjög öflugt og olli miklu tjóni. Það skall á húsunum og tætti þau í sundur. Ýmist mölbraut þau, tók þau með sér, eða sprautaðist í gegnum þau. Alls olli flóðið tjóni á 13 húsum. Að auki varð tjón á tveimur lóðum og innbúi í einu húsi til viðbótar, tvö fjárhús eyðilögðust og tjón varð á húsagörðum og girðingum. Í flóðinu drápust 5 kindur, 2 hundar og nokkur hænsni,“ segir í greinargerðinni.

Seinna flóðið fór fram hjá Litladalsá klukkan 17.15. Einn lést og einn slasaðist. „Flóðið olli skemmdum á Aðalstræti 101 og 101A. Það síðarnefnda rifnaði af grunni og barst 60-70 m með flóðinu. Einnig eyðilagði flóðið útihús og komst inn í sláturhúsið og olli þar skemmdum,“ segir í greinargerðinni. Þetta voru lengstu skráðu flóð í þessum farvegum.

Krapaflóðin sem féllu á Patreksfjörð 22. janúar 1983 eru fólki þar í fersku minni. Fjórir fórust í flóðunum og mikið eignatjón varð. Óttast var að fleiri flóð kynnu að falla og var nánast allur bærinn rýmdur. Um 500 manns gistu í tveimur fjöldahjálparstöðvum og íbúðarhúsum á öruggum svæðum næstu nótt.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að þegar bókin Krapaflóðin á Patreksfirði 1983 eftir Egil St. Fjeldsted kom út 2020 hafi meira verið talað um þennan atburð en nokkru sinni áður.

„Það var ekki áfallahjálp á þessum tíma og mörgum fannst að þetta hefði verið þaggað niður. Fólk vildi ekki tala um þetta og fannst að þetta væri bara liðið,“ segir Þórdís. Hún veit til þess að fólk hafi leitað sér hjálpar löngu eftir að krapaflóðin féllu.

Þórdís segir að hugmyndir fólks um snjóflóð og snjóflóðavarnir hafa mikið breyst á þeim 40 árum sem liðin eru. Unnið hefur verið að gerð snjóflóðavarna fyrir ofan byggðina á Patreksfirði. „Það er búið að gera snjóflóðavarnargarða fyrir ofan ysta hluta bæjarins en ekki þar sem þessi krapaflóð féllu, innar í bænum,“ segir Þórdís. Ljúka á frágangi við þá garða sem þegar hafa verið reistir á þessu ári. Unnið er að frumhönnun varnargarða í giljunum sem krapaflóðin féllu úr 1983. Seinna í vetur er ætlunin að halda fund þar sem næstu skref verða kynnt og fjalla um hvaða þýðingu garðarnir, sem þegar eru komnir, hafa fyrir íbúana.

Þórdís segir að samkvæmt nýlegri áætlun frá Ofanflóðasjóði sé reiknað mweð að nýju garðarnir verði hannaðir á þessu ári og að þeir verði settir upp á árunum 2024-2028. „Ein af forsendunum fyrir því að þessi áætlun standist er að það verði sett nóg fjármagn á fjárlögum í þetta verkefni. Manni sýnist að það vanti fjármagn svo hægt sé að klára öll þau verkefni sem liggja fyrir. Stjórnvöld mótuðu þá stefnu að klára ákveðna forgangsstaði fyrir 2030 og það er t.d. enn eftir að fara í snjóflóðavarnir á Bíldudal. Eins á eftir að hanna meiri varnir á Flateyri og ég hef áhyggur af að þetta verði ekki allt búið 2030.“

En hafa fallið snjóflóð á Patreksfirði frá árinu 1983?

„Ekki á hús en flóð hafa fallið í bænum,“ segir Þórdís. Hún segir að lítið hafi verið talað um snjóflóðahættu á vegum í kringum Patreksfjörð og í Vesturbyggð. „Það hafa oft fallið snjóflóð á veginn um Raknadalshlíð en maður ekur hann þegar komið er af Kleifaheiði. Þar falla mörg snjó- og aurflóð á hverjum vetri auk þess sem grjót hrynur niður á veg. Fólk hefur alveg lent í hættu þar.“ Þórdís segir að mögulega sé hægt að gera þarna öruggari veg á landfyllingu með fjörunni. Þess má geta að snjóflóð lokaði veginum í gær.

Þórdís segir að það sé bjart yfir í Vesturbyggð. „Hér hefur verið mikil íbúafjölgun og mikil atvinna en það er skortur á húsnæði. Við í Vesturbyggð ætlum að framkvæma á þessu ári fyrir meira fé en nokkru sinni áður. Það ríkir mikil jákvæðni og það er mikil uppbygging í sveitarfélaginu. Fólk er líka mikið að hugsa um sínar eignir og fegrun nærumhverfisins. Það er allt á uppleið,“ segir Þórdís.

Patreksfjörður

Minningarathöfn um fórnarlömbin

Fjörutíu ár eru á morgun frá því að tvö krapaflóð féllu á Patreksfjörð þann 22. janúar 1983. Af því tilefni verður haldin minningarstund í Patreksfjarðarkirkju kl. 14.00. Þar verður sérstaklega minnst þeirra fjögurra sem fórust í krapaflóðunum. Séra Kristján Arason heldur minningarstundina að viðstöddum Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi. Tónlistarfólk af svæðinu flytur tónlist.

Síðan verður gengið verður að minnisvarðanum um þau sem fórust og verða viðbragðsaðilar í broddi fylkingar. Lagður verður blómsveigur að minnisvarðanum og kerti tendruð.

Síðan verður haldin minningarathöfn í félagsheimili Patreksfjarðar klukkan 15.15. Þar taka til máls Úlfar Thoroddsen, fyrrverandi sveitarstjóri Patreksfjarðarhrepps, Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Slysavarnardeildin Unnur býður upp á kaffi og veitingar að lokinni dagskránni.

Höf.: Guðni Einarsson