— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Í raun og veru gengur rafbíladæmið hvergi upp nema helst hjá okkur, þar sem rafmagnið hér er góðkynja, þegar hugsað er til og barist við loftbólurnar sem geta gert út af við veröldina.

Ósköp var notalegt að fylgjast með kraftaverkinu sem nokkurra gráðu hiti, rigning og rok geta gert á rúmum sólarhring. Margur hér á suðvesturhorninu hefur búið við „snjóþyngsli“ hið næsta sér, vikum saman. Þeir vita þó innst inni að þetta sem þeir bögglast yfir er hreint lítilræði þegar horft er til landans annars staðar, þar sem alvaran er önnur og tilþrifameiri en sú sem réttlætir tal okkar vælukjóanna. En þótt svo sé, þá má gleðjast yfir því. Og eins hinu að nú eru tveir dimmustu mánuðir hvers árs að baki og það fer ekki fram hjá okkur heldur og við vegsömum það.

Rafmagnaðar gervilausnir

Og á meðan maður stýrist af þess konar hugsunum þá kæmi ekki á óvart þótt brátt rynni upp fyrir mönnum að rafmagnsbílar eru sennilega á einhverjum misskilningi byggðir, þótt þeir séu notalegir og hljóðlausir. Í raun og veru gengur rafbíladæmið hvergi upp nema helst hjá okkur, þar sem rafmagnið er hér góðkynja, þegar hugsað er til og barist er við loftbólurnar sem geta gert út af við veröldina. Í öðrum löndum er látið eins og enginn taki eftir því að rafmagnið sem notað er á rafmagnsbílana kemur frá bannvörunum sem nú knýja bílana okkar áfram. Bréfritari ekur um á þýðum bíl og hleðslan dugar tæpa 40 kílómetra, sem er ríflega upp í Hádegismóa og til baka, nema þegar kólnar mikið, þá eitthvað skemur. Íbúar í örfáum löndum, eins og hjá lífsins lukkuriddurum í Noregi, sem búa að sömu undraeiginleikum og forsjálni þeirra sem nýttu vatnsaflið. Við höfum svo heita vatnið að auki sem hreinan bónus.

Það má ekki gleyma því að það kostaði heljarátök hér innan lands að tryggja að ráðist yrði í stíflugerð og beisla þar með hið mikla afl vatnsins og tryggja þjóðinni ódýrari orku en aðrir búa við. Ég hef verið mjög hugsandi yfir þeim góðviljuðu mönnum sem settu sig gegn slíkum framkvæmdum til að varðveita fegurð landsins en yrða ekki á þá sem útbía landið og skemma sjónarhornið, hvar sem þú ert staddur, með algjörlega óþörfu vindmyllugerði. Hvað varð um umhyggjuna fyrir fegurð landsins og trúnaðinn við hana? Forðum tíð var unnið að rennslisvirkjunum með það fyrir augum að gera sem minnsta útlitsskaða á landinu sem við öll eigum bréf í. Og það hefur tekist svo ekki verður um villst, og verður öllum ljóst þegar horft er á vindmyllufarganið, sem boðið er upp á. Sumir fyrrnefndra standa í þeirri góðu trú að þeir elski landið meira en við hin og er ekki nema gott um það að segja. Margir þeirra hafa vissulega sýnt og sannað að það þurfi ekki að vera fjarri lagi. En eitt verður þó til þess að ómögulegt er annað en að draga heilindin að nokkru í efa þegar þeir sömu sjá ekkert að því að sulla niður um allt land vindmyllum, þrisvar sinnum hærri hverri en Hallgrímskirkja Guðjóns er og með þeim ógeðfellda hvin sem fylgir. Og enn leiðara er að sjá hvernig margur hefur verið keyptur til að ganga erinda erlendu vindmillanna og vindmyllanna þeirra. Margir þeirra virðast telja að ekkert geri til að þekja stendur landsins með þessum hvínandi ófreskjum langt á haf út. Hvernig í ósköpunum tókst að sannfæra Íslendinga um slíkt?

Svo eru það hvalirnir

En nú á þessum dögum eru Bandaríki Norður-Ameríku að vakna upp við vondan draum. Við, sem vorum mörg í hlýlegri innivinnu í stjórnmálum áratugum saman, urðum að taka umræðu vestra, og það þrívegis, annars vegar með tveimur forsetum, sem var hægt að eiga skynsamlegt samtal við og einu sinni, í sama húsi, með varaforsetanum Al Gore, sem var flóknara, því hann telur sig vera meiri vin umhverfisins en við hin og gott er ef það mat tekur ekki til allra jarðarbúa samanlagðra. Enda fylgir hann þeirri ást sinni eftir með endalausum þotuferðum um jarðhjúpinn þveran og endilangan, sem við hin verðum að viðurkenna að við höfum að mestu sleppt fram að þessu. Og það skaðar ekki að hann hefur á langri leið haft svo sem 300 milljónir bandarískra dollara upp úr góðmennskukrafsi sínu og ofan í eigin vasa, sem er líka meira en við höfum gert. En í vikunni birtust fréttir um að fjöldi hvala flaut á land á austurströnd Bandaríkjanna þar sem vindmyllusjávargarðar voru komnir til að vera. Þarna hafa menn sem fallið hafa fyrir óþörfum ótta vegna þess hve stutt sé í lok lífsins látið eftir bröskurum að fleygja upp breiðum af vindmyllum svo langt sem augað eygir. Kjörnir fulltrúar frá svæðunum sem eiga í hlut er brugðið og halda því fram eða geta sér til að hugsanlega geti tíðnin sem vindmyllugarðarnir gefa frá sér hafa villt um fyrir hvölunum eða hvinur og annar hávaði af rekstrinum þar, þegar blæs, sé skaðvaldurinn. Talsmenn vindmyllugarðanna segja að engar sannanir liggi fyrir um þessar getgátur og vara við að menn hrapi að niðurstöðum á meðan svo er. Vindmyllugerð hefur verið niðurgreidd eins og margt annað sem ekki borgar sig, með vísun í baráttuna gegn háskahlýnun jarðar. Þær framleiða á meðan vindur blæs en ekki er auðvelt að varðveita þá orku sem framleidd er, þegar vind skortir. Orkukaupendur eru ekki allir ginnkeyptir. Þeir leggja flestir alla áherslu á öryggi og samfellda orku, ella sé hún tiltölulega lítils virði.

Enn trúað á galdramynt

Fréttir berast af kryptómyntum, galdramyntunum, sem menn trúa á, og taka helst ekki á móti sífelldum aðvörunum tilverunnar. Í sjálfu sér er ekkert sem ætti að banna mönnum að hengja hatt sinn á kryptóguðinn. En hann er eingöngu til vegna þess að hann lýtur engum lögmálum, ábyrgð eða eftirliti. Um leið og settar yrðu reglur þeirri mynt til styrktar, missti hún gildi sitt og alla dulúð hjá þeim sem trúa. Þær „myntir“ hafa síðustu misserin farið illa hver af annarri og hætt er við að þær muni ekki endilega lifa mjög lengi úr þessu. Það er þó ekkert að því að menn hengi þar sín fjármál eða hluta þeirra og trúi því reyndar að bitcoin, sem hvað lengst hefur lifað, hafi sannað tilverurétt sinn. Hlutabréfamarkaðir heimsins sæta samræmdum reglum og ákveðnu eftirliti, en „litlu karlarnir“ á þeim markaði skynja þó fljótt að stóru drekarnir þar hafa allt aðra stöðu en þeir, og kauphöllin hér virðist ekki vera mjög öflugur öryggisventill fyrir þá, og reyndar má efast um getu hennar til að gæta jafnræðis á markaðnum, eða vera fær um að grípa inn í þegar það væri réttlætanlegt og jafnvel óhjákvæmilegt. Þeir sem voga sér inn á hlutabréfamarkað þurfa því að gera það með því hugarfari að þótt allt fari á versta veg þá fari tilvera þeirra ekki úr skorðum. Orkuframleiðendur selja „einhverjum“ aðilum mikið rafmagn til þess að þeir geti stundað „námugröft“ fyrir myntina! Ýmsum þætti sjálfsagt meiri fengur í að selja orkuna heimaaðilum sem stuðla að framleiðslu og atvinnurekstri innanlands. Það er gott að selja galdrakörlum í námugreftri orku á meðan galdurinn afhjúpast ekki, en hitt væri vísast öruggara til lengri tíma. Sam Bankman, síðasti kryptoforinginn, sem fór á hliðina, hafði gefið demókrötum fúlgur fjár fyrir kosningarnar og ekki er endilega talið víst að repúblikanar hafi verið hafðir alveg út undan. Það var sumt skondið við hann. Það hjálpaði kannski einhverjum að senda fjármuni í vörslu hans, að hann skyldi þó heita Bankman. Og það var von að menn treystu honum fyrir þeim aurum, því að hann var skráður, skömmu fyrir fallið, 41. ríkasti maður Bandaríkjanna og 60. ríkasti maður í heimi. Nú segist hann ekkert eiga eftir. En hann var ekki settur inn, heldur látinn ganga laus gegn tryggingu og fjárhæðirnar sem krafist var voru engir smáaurar. En leynd hvílir yfir því hverjir það voru sem veittu hana. Allt er þetta hið dularfyllsta.

Tómur tankur

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, var aðeins 37 ára þegar hún tók við sem forsætisráðherra og lætur af því starfi eftir rúm 5 ár í embætti. Í hennar landi er raunar kosið á þriggja ára fresti til þings en síðustu árin hefur orðið sjaldgæfara að forsætisráðherrar sitji svo lengi. Hún kom inn með töluverðri sveiflu og naut um hríð góðs stuðnings og mikillar hylli. Það má segja að kórónuveiran hafi tekið hana eins og fleiri. Þannig var Boris Johnson flæmdur úr embætti fyrir engar sakir, nema að menn telji að hann, margbólusettur og liggjandi lengi á sjúkrahúsi með Covid, hafi framið glæp með því að drekka bjórglas í garði hússins númer 10, með fjarlægðarmörk í lagi og ekkert í kringum sig nema margbólusetta menn.

Forsætisráðherra Nýja-Sjálands gekk allt of langt í Covid. Allir sem fengu veiruna voru hnepptir í einangrun og þeir sem ekki vildu bólusetningu voru ofsóttir, misstu störf sín og titla. Þessi stefna hennar, sem var miklu harðari og ágengari en nágrannanna í Ástralíu, skildi efnahag landsins eftir í brotum og forsætisráðherrann mjög óvinsælan.

Hún hverfur úr embætti í næsta mánuði og mun ekki leiða flokkinn í næstu kosningum, þar sem mjög illa er spáð fyrir forsætisráðherranum og flokki hennar.

Tannkremstúpulögmálið

Frakklandsforseti stendur í ströngu núna. Hann vill hækka lífeyrismörkin úr 62 í 64 í áföngum. Í gær mótmæltu meira en milljón manns á götum Frakklands, Í mörg ár hafa gulvestingar haldið uppi mótmælum gegn forsetanum við öll tækifæri. Við getum ekki haft víðtækar skoðanir á baráttumálum alþýðunnar í Frakklandi, en við getum ekki heldur með góðu móti hellt okkur yfir Macron forseta fyrir varfærnislegar tillögur hans. Meira að segja myndi það flækjast fyrir Eflingu að blása til orrustu út af slíkum baráttumálum. En einhvern tíma hafa franskir forsetar í góðmennskukasti, kannski laust fyrir kosningar, gengið of langt í gjafmildi sinni. Það minnir á óneitanlega á Richard Nixon, forseta Bandaríkjanna, þegar hann stóð sem oftar í ströngu í Watergate-slagnum. Hann leitaði ráða hjá sínum nána ráðgjafa, H.R. Haldeman, starfsmannastjóra Hvíta hússins. Haldeman horfði á húsbónda sinn og sagði: „Það er bitur staðreynd, að þegar maður hefur ýtt öllu tannkreminu út úr túpunni þá er ekki nokkur vinnandi vegur að koma því inn í hana aftur.“ Og Nixon varð að horfa framan í þá bitru staðreynd.