Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem í dagvinnu leikur með Magdeburg í Þýskalandi, stekkur hér upp til þess að raða inn enn einum boltanum í mark Grænhöfðunga, en Íslendingar unnu þá sannfærandi 30-40 í millilriðli.
Landsliðsmaðurinn Gísli Þorgeir Kristjánsson, sem í dagvinnu leikur með Magdeburg í Þýskalandi, stekkur hér upp til þess að raða inn enn einum boltanum í mark Grænhöfðunga, en Íslendingar unnu þá sannfærandi 30-40 í millilriðli. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Landsmenn bjuggu sig undir enn eitt kuldakastið, en að þessu sinni gátu þeir þó huggað sig við að hlýindi og hláka voru í kortunum er því lyki. Ríki og sveitarfélög hyggjast stuðla að uppbyggingu allt að 12 þúsund íbúða fyrir liðlega 24 þúsund manns á næsta áratugi

14.1-20.1

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Landsmenn bjuggu sig undir enn eitt kuldakastið, en að þessu sinni gátu þeir þó huggað sig við að hlýindi og hláka voru í kortunum er því lyki.

Ríki og sveitarfélög hyggjast stuðla að uppbyggingu allt að 12 þúsund íbúða fyrir liðlega 24 þúsund manns á næsta áratugi. Í nýju húsnæðiskerfi á að treysta félagslega íbúðakerfið og stéttaskiptingu enn frekar í sessi. Enginn veit hvað það á að kosta.

Um áramótin var gjaldskrá vegna geisla- og myndgreiningar hjá opinberum stofnunum hækkuð um rúm 10%, svo þjónustan er nú dýrari en hjá einkareknum fyrirtækjum.

Reykjavíkurborg lætur aka snjó af götum borgarinnar upp á heiðar, en vill ekki setja hann í sjó. Landeigandi við Hólmsheiðarveg kvartaði hins vegar undan því að snjónum væri sturtað þar við veginn, svo vandræði hlytust af.

Viðbragðsteymi heilbrigðisráðherra um bráðaþjónustu sér mörg færi til þess að bæta hana um land allt. Meðal vanda er að ekki eru allir aðvífandi sjúklingar með kennitölu, svo möppuliðar eru í sárum.

Borgnesingar ætla að færa hringveginn út fyrir byggðina fyrr en áður var fyrirhugað og er gert ráð fyrir tveimur milljörðum króna til þess arna á þriðja tímabili samgönguáætlunar.

Þingmenn komu aftur af fjöllum eftir jól.

Gylfi Magnússon, stjórnarformaður Orkuveitunnar, sagði að milljarða lántaka og kaupsamningar dótturfyrirtækisins Ljóðleiðarans á snúrum í eigu helsta viðskiptavinarfyrirtækisins komi engum við, hvorki eigendum né öðrum.

Karlalandslið Íslands tapaði leik við Ungverja á heimsmeistaramótinu í handbolta í Kristianstad í Svíþjóð, bæ á stærð við Kópavog.

Rafmagnslaust varð á öllum Suðurnesjum eftir að Suðurnesjalínu sló út vegna bilunar. Ekki var að spauga með þá Útnesjamenn þegar ljóst varð að viðgerð yrði ekki lokið í tæka tíð fyrir spennuleik við Kóreu á HM í handbolta.

Stéttarfélagið Efling hyggst bjóða tilteknum hópum félagsmanna að kjósa um verkfallsaðgerðir, en innan félagsins heyrast einnig raddir um að réttara sé að afla umboðs allra félagsmanna til verkfallsboðunar.

Efnt var til fyrstu þorrablótanna rétt áður en þorri gekk í garð.

Leit að 48 ára manni úr Borgarnesi, sem saknað hefur verið síðan 7, janúar, var hætt.

Landslið karla í handbolta lagði Suður-Kóreu á HM í handbolta og þunglyndi eftir Ungverjaleikinn breyttist í ofsakæti.

Stjórnmálamenn hrifust með handboltastemmningunni og boðuðu byggingu 12 þúsund manna þjóðarhallar undir handbolta og tónleika. Þeir höfðu að vísu ekki hugmynd um hvað hún myndi kosta (13-19 ma.kr. ef allt gengur að óskum) eða hver ætti að borga.

Meira er etið af lambaketi en áður, salan jókst en framleiðslan minnkaði, svo dilkakjötshóllinn gæti klárast.

Greint var frá því að hefndaraðgerðir Evrópusambandsins gegn Bretlandi kæmu í veg fyrir að íslenskir Skotlandsvinir fái haggis (hakkkeppi) fyrir Burns-kvöldið.

Umhverfis- og samgöngunefnd fór samdægurs til Skotlands og Lundúna.

Helgi Áss Grétarson lagði fram tillögu í borgarstjórn um fjölbreyttari notkun jarðhæða á þéttingarreitum. Þar er víðast gert ráð fyrir verslun og þjónustu, en megnið stendur autt.

Landvörslu við eldstöðvar í Merardölum var hætt, en fólki ráðlagt að fara að öllu með gát í hrauninu.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra greindi frá því að reglugerð um heimild lögreglu til notkunar rafvarnarvopna hefði verið undirrituð og biði einungis birtingar.

Loks fékkst að ræða í borgarstjórn um leynilegan kaupsamning Ljósleiðarans á eignum Sýnar, en engri leynd var aflétt og verður varla fyrr en einhver kjaftar í Greco.

Framleiðsla í fiskeldi dróst lítillega saman á liðnu ári, en þar munaði mestu um veirusýkingu í sjóeldi fyrir austan og óveður í Dýrafirði. Alls var slátrað nær 45 þúsund tonnum af laxi í fyrra, um 1.500 t minna en árið á undan.

Hrannir mynduðust á Ölfusá og hægði á rennsli árinnar, svo grannt var fylgast með flóðahættu í ljósi fyrirsjánlegrar hláku og leysinga.

Jafnlaunavottun nær nú til liðlega 100 þúsund manns eða 73% starfsmanna þeirra fyrirtækja sem lagaskyld eru til hennar. Aðstæður á vinnumarkaði hafa gerbreyst fyrir vikið, eins og allir þekkja.

Hafnarfjörður samdi við ríkið um viðtöku á 450 hælisleitendum.

Læknadagar fóru fram í Hörpu.

Jón Sigurðsson, fv. ráðuneytisstjóri og forstjóri Járnblendifélagsins, lést 88 ára gamall.

Ákæra var þingfest í hryðjuverkamálinu gegn tveimur sakborningum. Þeir neituðu báðir sök á hryðjuverkum en viðurkenndu eitt og annað smálegra.

Hugmyndir eru uppi um smíði líforkuvers í Eyjafirði, sem unnið gæti verðmæti úr lífrænum úrgangi, sem nóg fellur til af.

Eyfirðingar ættu að ræða það við Reykvíkinga, en sorphirða endurvinnsluefna hefur víða í borginni þurft að bíða í allt að tvær vikur.

Héraðssaksóknari felldi niður rannsókn á starfsháttum SÁÁ, sem hafin var eftir ábendingu Sjúkratrygginga snemma árs 2020.

Landlæknir segir að alls hafi orðið 238 andlát af völdum Covid-19 á Íslandi. Þar af 199 á liðnu ári.

Annars láta margar umgangspestir á sér kræla þessa dagana.

Samkvæmt kjarakönnun, sem Gallup gerði fyrir Einingu-Iðju á Akureyri segjast 38% félaga hafa fjárhagsáhyggjur. Meðallaun aðspurðra voru 616 þúsund á mánuði, en þau höfðu hækkað um 18% frá lífskjarasamningum.

Von er á fleiri skemmtiferðaskipum til Akureyrar á næstu vertíð og tekjurnar áætlaðar um hálfur milljarður króna.

Reykjavíkurborg segir óþarfi að hafa áhyggjur af auðu verslunarhúsnæði í Hlíðarendahverfi; brátt bætist við 1.300 íbúðir þar og þá muni þar allt iða af verslun og þjónustu. Sjálfsagt útimörkuðum og börnum með flugdreka líka.

Sundlaugum í borginni og sumum nágrannabæjum var lokað vegna skorts á heitu vatni í kuldakastinu.

Nokkrar áhyggjur voru af fyrirsjáanlegum vatnavöxtum helgarinnar í asahláku. Var nokkur viðbúnaður vegna þess.

Aðalmeðferð hófst í stóru kókaínmáli, þar sem fjórir eru ákærðir fyrir tilraun til þess að smygla tæpum 100 kg af efninu til landsins.

Ýmis mjólkurvara selst nú betur en nokkru sinni.

Upp komst að stjórnmálafræðikennari í Versló hefði líkt Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni við Adolf Hitler. Þá kom í ljós að kennari í MS hafði verið með ekki minna einkennilegan söguþráð í sama fagi. Sá fyrri var í framboði fyrir vinstri græn og sá síðari Alþýðufylkinguna. Skólarnir sögðu að innrætingin hefði verið tekin úr samhengi.

Fram kom að ráðgert væri að verslun og þjónusta glæddust í Hlíðarendahverfi þegar borgarlínan kæmi.

Bolvíkingar eru orðnir 997 og geta vart beðið eftir að verða þúsund.

Mikill vatnselgur varð í asahláku, en vandræðin ekki meiri en von var á.