Þangskurður Nýr þangskurðarprammi Asco Harvester að störfum.
Þangskurður Nýr þangskurðarprammi Asco Harvester að störfum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Töluverð gerjun er í þörungarækt og -vinnslu hér á landi. Þótt hér séu góðar aðstæður til stórframleiðslu, bæði í sjó og á landi, er framleiðslan lítil. Þörungar eru unnir til matvælaframleiðslu og ýmiss konar iðnaðar

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Töluverð gerjun er í þörungarækt og -vinnslu hér á landi. Þótt hér séu góðar aðstæður til stórframleiðslu, bæði í sjó og á landi, er framleiðslan lítil. Þörungar eru unnir til matvælaframleiðslu og ýmiss konar iðnaðar. Það er þó ávinningurinn fyrir umhverfið sem menn staldra sérstaklega við, því þörungarækt fylgir ekkert kolefnisfótspor, ólíkt annarri matvælaframleiðslu, því þörungarnir binda kolvísýring (CO2) úr andrúmsloftinu.

Hér starfa fáein fyrirtæki í sjálfbærri öflun, ræktun og vinnslu þörunga og mörg eru í rannsókna- og undirbúningsferli. Nú hafa verið stofnuð Samtök þörungafélaga og eru 20 fyrirtæki og stofnanir gengin í þau. Samtökin hafa sótt um inngöngu í Evrópusamtök þörungafélaga (EABA) og kemst Ísland þá inn í tölfræði um þróun iðnaðarins en hingað til hafa takmarkaðar upplýsingar um starfsemina á Íslandi ratað inn í evrópska tölfræði.

Binda koltvísýring

Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Asco Harvester í Stykkishólmi og formaður nýstofnaðra Samtaka þörungafélaga, vekur athygli á því að þriðjungur af útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum komi frá matvælaframleiðslu, stærsti hlutinn vegna framleiðslu á kjöti. Þótt kolefnisfótspor Íslands sé lítið í stóra samhenginu sé stefnt að kolefnishlutleysi hér með ýmsum aðgerðum, þar sem orkuskipti beri hátt. „Ef við myndum snúa okkur meira að sjálfbærum lausnum í matvælaframleiðslu gæti það skilað okkur miklu meiri árangri í umhverfismálum en orkuskipti í samgöngum,“ segir Sigurður og bætir því við að með því gæti Ísland sem matvælaframleiðsluþjóð lagt sitt af mörkum til að minnka kolefnisfótspor mannkyns.

Ræktun smá- og stórþörunga gæti orðið mikilvægur liður í þessu, að mati Sigurðar, því þörungarnir binda kolefni. Stórþörungarækt í sjó hafi auk þess hreinsandi áhrif á hafið og geti spornað við súrnun þess. Með sínar einstöku náttúruauðlindir og með aðgangi að hreinu vatni, sjó, jarðvarma og grænni raforku hafi Ísland alla burði til þess að ná leiðandi stöðu í framleiðslu þörunga til lands og sjávar. Sjálfbær nýting þangs og þara er einnig umhverfisvæn því nýjar plöntur vaxa upp af ökrum sem slegnir eru í hafinu og auka bindinguna. „Við sitjum á auðlind sem við nýtum ekki í dag að því marki sem hægt væri að gera á sjálfbæran hátt,“ segir hann.

Árangur í smáþörungarækt

Ræktun á stórþörungum hefur aukist mikið á undanförnum árum og raunar í þrjá áratugi þótt mesta aukningin hafi verið síðustu árin. Heildarframleiðslan er samkvæmt upplýsingum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) yfir 35 milljónir tonna sem er meira en tíu sinnum meiri framleiðsla en allt laxeldi í heiminum gefur af sér. Megnið af henni er í Asíu, eða 97%. Þótt framleiðslan sé enn lítil í Evrópu og Ameríku hefur hún vaxið mjög á einstaka svæðum.

Tvö fyrirtæki eru lengst komin við framleiðslu smáþörunga í ræktunarkerfum á landi og afurða úr þeim. Algalíf í Reykjanesbæ er orðinn einn stærsti framleiðandi í heimi á verðmætu fæðubótarefni, astaxanthin. Nýsköpunarfyrirtækið Algaennovation sem komið hefur sér upp aðstöðu í jarðhitagarði Orku náttúrunnar við Hellisheiðarvirkjun leggur ekki síst áherslu á Omega 3-fitusýrur. Þriðja fyrirtækið, Mýsköpun í Mývatnssveit, hefur verið að þróa framleiðslu á spirulínudufti sem fæðubótarefnis, úr örþörungum úr Mývatni.

Framleiðsla úr stórþörungum hefur aukist mikið á heimsvísu. Sigurður segir að engin planta bindi meira kolefni en þari og þang. Hann segir það rangnefni þegar rætt er um Amazon-regnskógana sem lungu heimsins. Það eigi miklu fremur við um höfin því sjávarþörungar bindi 20 sinnum meira kolefni á hvern hektara en skógar. „Með því að efla þörungarækt höfum við möguleika á að auka bindingu kolefnis, hlutfallslega miklu meira en í allri skógrækt og landgræðslu,“ segir Sigurður.

Hann segir að þessi staðreynd hafi vakið athygli hans þegar hann var einn af stjórnendum Arctic Fish. Fyrirtækið gerði á árinu 2019 tilraunir með þörungarækt í Dýrafirði í samvinnu við Eldey Aqua á Ísafirði sem lið í að kolefnisjafna laxeldið. Varð fyrirtækið fyrsta laxeldisfyrirtækið sem hóf þessa vegferð en nú feta laxeldisrisarnir í Noregi þessa slóð. Sigurður vekur athygli á því að engin framleiðsla uppfylli jafn marga þætti í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þörungarækt. Evrópusambandið hefur nú endurnýjað stefnu sína í þessum málum og setur stefnuna á að framleiðslan aukist úr 300 þúsund tonnum á ári í 8 milljónir tonna á næstu sjö árum.

Ný fyrirtæki rísa upp

Thorverk á Reykhólum, áður Þörungavinnslan, er langstærsta fyrirtækið sem framleiðir afurðir úr þangi og þara en það hefur starfað frá 1976. Asco Harvester, fyrirtækið sem Sigurður á aðild að í félagi við heimafólk, hefur hafið framleiðslu í Stykkishólmi. Þar er áherslan á fullvinnslu afurða. Íslensk bláskel og sjávargróður í Stykkishólmi hefur einnig unnið sjávarþörunga og ræktað þara og er eina fyrirtækið sem hefur fengið opinbert leyfi til ræktunar þörunga. Kanadískt fyrirtæki hefur einnig verið með áform um að koma upp vinnslu í Stykkishólmi. Þá er eigandi Svefneyja að vinna að verkefnum sem byggjast á því að gera fatnað úr þörungum.

Nokkrar aðrar rannsóknir hafa verið gerðar til að rækta þörunga á öðrum svæðum en við Breiðafjörð. Gerðar hafa verið tilraunir til að rækta stórþörunga á Vestfjörðum. Íslandsþari – Icelandic Kelp áformar að afla og fullvinna stórþara á Norðurlandi og hefur Húsavík og fullvinnsla á Akureyri verið fyrsti kostur. Tilraunir eru hafnar hjá fyrirtækjum á Akranesi. Eitt þeirra, Running Tide, er að byggja upp aðstöðu á Akranesi og Grundartanga en viðskiptahugmyndin er einkum að selja bindingu kolefnis. Fleiri fyrirtæki eru í ýmsum tilraunum og rannsóknum, meðal annars að vinna snyrtivörur og gera plast úr þörungum.

„Þörungarækt og -vinnsla er verulega umhverfisvæn leið til þess að framleiða matvæli en möguleikarnir eru mun fleiri. Það eru til dæmis bindiefni úr þörungum í ís og málningu, svo dæmi séu tekin. Nú er verið að gera tilraunir með að búa til byggingarefni úr þörungum. „Það myndi leysa ýmis vandamál ef hægt væri að leysa steinsteypuna af hólmi,“ segir Sigurður og bætir því við að með breyttu mataræði, þar sem fjöldi fólks neytir aðeins grænmetisfæðis, geti þörungar komið sterkir inn. Í Bandaríkjunum sé vaxandi framleiðsla á þarasalati. Í Kaliforníu er byrjað að framleiða beikon og lax úr sölvum.

Spurður hvað hægt sé að gera til að flýta þróuninni hér segir Sigurður að mikilvægast sé að stjórnvöld móti með atvinnugreininni stefnu í þessum málum þar sem hugað verði að öllum þáttum. Þá væri hægt að auka fjárframlög til fræðslu og rannsókna enda um mikilvægan möguleika Íslands til jákvæðra skrefa í umhverfismálum að ræða.

Höf.: Helgi Bjarnason