Helena hefur þurft að finna leiðir til að lifa með sorginni sem fylgir því að missa eiginmann sinn.
Helena hefur þurft að finna leiðir til að lifa með sorginni sem fylgir því að missa eiginmann sinn. — Ljósmynd/Leifur Rögnvaldsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
En það sem enginn vissi var að ég var búin að undirbúa mig að fara í vikunni á eftir. Að kveðja.

Við mælum okkur mót einn morgun í vikunni og ákveðum að hittast í myndsímtali, enda býr danshöfundurinn, kvikmyndagerðarkonan og hátíðarstjórnandinn Helena Jónsdóttir í Antwerpen í Belgíu og því miður aðeins of langt fyrir blaðamann að hoppa í hitting. Helena er dansari og danshöfundur í grunninn. Hún nýtir þann grunn í kvikmynda- og vídeólist sína og ferðast víða um heim að sýna listrænar kvikmyndir. Hún er einmitt um þessar mundir að undirbúa hátíð sína Physical Cinema Festival eða Hreyfimyndahátíð í samvinnu við Stockfish-hátíðina, sem verður haldin 23. mars til 2. apríl hér á landi. Helena lætur ekki þar við sitja því hún vinnur einnig að eigin verkum, skrifum og kvikmyndalist, en auk þess hefur hún unnið ötullega við að koma arfleifð og eignarbúi eiginmanns síns heitins, Þorvaldar Þorsteinssonar, í örugga höfn. Helena segir ekki hægt að fara í gegnum sorgina, heldur þurfi að læra að lifa með henni. Rúv sýnir einmitt um helgina heimildarmynd Kristínar Andreu Þórðardóttur, Er ást. Hún fjallar um ástarsamband Helenu Jónsdóttur og Þorvalds Þorsteinssonar og vinnu Helenu við að koma listrænni arfleifð Þorvalds í örugga höfn og halda áfram eftir ótímabært andlát hans.

Engin uppskrift að sorg

„Ég vaknaði í fyrra,“ segir Helena þegar blaðamanni verður að orði að það virðist vera meira en nóg að gera hjá henni, en Helena er með mörg járn í eldinum.

„Heilsan byrjaði að koma til baka í fyrra, og með heilsunni kom sköpunargleðin aftur en hún dó 2013,“ segir Helena en Þorvaldur lést 23. febrúar árið 2013 og líf hennar snerist algjörlega á hvolf.

„Þegar Kristín spurði mig fyrst, hvort ég vildi vera í þessari mynd, voru mín fyrstu viðbrögð: „nei“. En Kristín hvatti mig til að hugsa málið. Og þegar ég leit í kringum mig fannst mér vera lítið um efni um sorgina; lítið talað um sorg. Þetta er einmanalegt ferli; það er eins og dyrunum sé lokað og lífið bíður hinum megin eftir að maður finni sína eigin leið til að finna kraft til að opna. Ég var algjörlega týnd í sorginni og varð að finna mín eigin ráð, ég fann það einnig á fólkinu í kringum mig. Það sem kom mér mest á óvart var hvað við vissum lítið um hvernig við getum hjálpað okkur sjálfum og öðrum. Það sem ég lærði, og alltof seint, er að við getum ekki gert þetta ein og við þurfum þorpið í kringum okkur til að hjálpa okkur að sjá ljósið. Ekki bíða eftir að einstaklingurinn nái sér og banki upp á þegar hann eða hún er orðin hress, hringdu bjöllunni,“ segir Helena.

„Það er engin uppskrift til sem hentar okkur öllum, hvert og eitt ferli er ólíkt öðrum. Eina ráðið sem ég hef sem er góð byrjun, er að hlusta, ekki bara á orðin heldur líka á hvað þarf, hvort sem það er súpa eða verkefni. Að vera manneskja í jafnvægi er nægilega flókið og þegar maður lendir í áfalli verður það enn flóknara. Ég hafði upplifað sorgina áður en ekki á þennan hátt; ég hafði misst systur mína árið 2001 í bílslysi. Sorgin er hjá þér á hverjum degi og þá hafði ég Þorvald við hlið mér til að fara í gegnum erfiða tíma og það er mikilvægt og dýrmætt að hafa daglegan stuðning,“ segir hún og segir þær systur hafi verið afar nánar vinkonur.

„Svo að missa Þorvald var gífurlegt áfall og voru öll ráð dýrmæt,“ segir Helena og mælir með bókinni The Year of Magical Thinking eftir Joan Didion.

„Ég er svo þakklát vini okkar Þorvaldar sem mætti í dyragættina með þessa bók haustið eftir að Þorvaldur dó. Mögnuð bók fyrir alla sem upplifa sorg á einn eða annan hátt. Hún er lífgjöf og ég var lengi með hana í veskinu og greip í hana nær daglega mánuðum saman. Hún gaf mér styrk þegar mér fannst ég vera að missa vitið.“

Fékk blæðandi magasár

Þú segist hafa vaknað til lífsins í fyrra. Hvað gerðist?

„Það er engin skýring á því. Ég byrjaði að finna fyrir krafti 2018 en þá veiktist systir mín af krabbameini sem tók hana að lokum. Fjórum mánuðum síðar fór móðir mín líka. Þetta var gífurlega erfitt að missa þau öll. Í gegnum æskuna var alltaf ég, mamma og systurnar, svo bættist við Dagur sonur minn og svo Þorvaldur,“ segir hún og fór skiljanlega aftur niður í djúpan dal við andlát systur sinnar.

„Við mamma studdum hvor aðra eftir lát systur minnar en svo lagði hún sig á gamlársdag 2019 og vaknaði ekki aftur. Þremur mánuðum síðar þegar ég var að ganga frá dánarbúinu greindist ég með Covid og fór í einangrun, stödd á æskuheimili mínu þar sem ég var í rúmlega fimm vikur. Umkringd af fjölskyldumyndum af öllu þessu látna fólki í kringum mig. Ég fann varla fyrir Covid en fór að finna fyrir öðrum einkennum og var farin að hósta blóði og hélt það væri tengt Covid en eftir margar heimsóknir til lækna greindist ég með slæmt magasár,“ segir hún.

„Batinn hefur tekið tvö ár og er enn í vinnslu. Krafturinn er að koma aftur og með betri heilsu kemur viljinn til að lifa. Og þá kom sköpunarkrafturinn.“

Hæfileikaríkur og tilfinningasamur

Helena og Þorvaldur áttu einstakt og fallegt samband og gátu endalaust talað um lífið og listina.

„Við vorum bestu vinir. Við kynntumst árið 1998 og vorum saman upp á hvern einasta dag eftir það. Hann var alveg einstakur maður og snerti marga í kringum sig,“ segir Helena, en Þorvaldur lést á heimili þeirra í Antwerpen. Helena var þá stödd á Íslandi.

Helena talar opinskátt um að Þorvaldur hafi verið AA-maður. Það hafði ekki áhrif á þeirra samband, fyrir utan góðu sporin sem fylgdu samtökunum.

„Ég að minnsta kosti upplifði það ekki öðruvísi. Fyrir mér að vera með einhvers konar fíkn er eins og að vera með sjúkdóm, sjúkdóm sem maður verður að meðhöndla á hverjum degi, annars getur hann tekið mann á verri stað. Hann var í AA-samtökunum mestallt sitt líf og var edrú með einstökum föllum. Til gamans þá eru Blíðfinns-bækurnar byggðar á þeirri hugsun,“ segir hún.

„Þorvaldur var hæfileikaríkur og tilfinningasamur listamaður. Eins og flestir listamenn og -konur á Íslandi vann hann mikið og fékk lítil laun fyrir,“ segir Helena en þau hjón fluttu um skeið til Los Angeles til að upplifa hlýtt loftslag, komu svo til Íslands í nokkur ár og fluttu svo síðar til Antwerpen þar sem þau undu hag sínum vel í stærra samhengi listasamfélagsins á meginlandinu.

„Hann var nærður og vannærður heima á Íslandi, vann oft langt fram á nótt fyrir framan tölvuna. Við upplifum oft í amerískri kvikmynd þegar það er „rómanserað” að hinn þjáði rithöfundur, sem fer aldrei úr náttsloppnum, situr fyrir framan ritvélina með viskíglas í annarri og sígarettuna í hinni. Það er ekki beint hin sanna mynd listamannsins; ég tel að stress og yfirvinna skapi nýja meðalið. Fíkn, í hvaða mynd sem er, er ekki veikleiki heldur eigum við að sjá hana sem sjúkdóm og við ættum að skoða og næra ræturnar áður en sjúkdómurinn tekur völdin. Ég tel að verkjalyf, sem móðir mín tók á hverjum degi í marga mánuði ef ekki ár við bakverkjum, hafi hjálpað henni, ásamt hjartasorginni, inn í hinn langa svefn.“

Þetta var mín lausn

Fyrstu árin eftir andlát Þorvaldar segist Helena hafa verið í algjöru áfalli.

„Ég tók róandi lyf fyrstu tvö árin til að komast fram úr rúminu til að sinna þeim reikningum sem þurfti til. Svo fór ég að þreifa fyrir mér hvernig ég gæti styrkt sjálfa mig í gegnum þetta ferli. Það var erfitt að finna gott stuðningsefni og ég upplifði líka að fólk er frekar feimið að tala um sorgina. Mér finnst mikil vöntun á góðum tækjum og tólum til að styðja við syrgjandann og þá sem standa næst honum. Ég man þó eftir lestri á netinu sem ég fann, frá írskri konu sem hafði misst sinn maka. Hún gaf mér þau mikilvægu ráð að ekki gefa neitt af dótinu okkar frá mér fyrsta árið og að halda heimilinu okkar í minnst ár eða meira,“ segir Helena og segist hafa farið eftir þeim ráðum.

„Ég er svo fegin að vera í listinni því hún hjálpaði mér að finna lausnir. Ég er þakklát fyrir dansinn því líkami minn var sterkur. Líkaminn er ótrúlegur þegar kemur að áfalli og hann passaði mig líka á furðulegan hátt, að það kom fyrir að hann slökkti á sér á viðkvæmum stundum, eins og giftingardegi eða öðrum minningardögum; það leið yfir mig og ég vaknaði á gólfinu,“ segir hún og segist hafa þurft að aðlagast nýjum aðstæðum á hverjum degi sem hafi ekki verið auðvelt. Eitt af því sem hún ákvað fljótlega var að halda utan um verk Þorvaldar og koma þeim á góðan stað.

„Það hélt mér upptekinni og honum nær mér, því verkin hans voru börnin hans. Hann var rétt að byrja þegar hann fór. Þetta var mín lausn. Sumir hella sér í vinnu og aðrir fara undir sæng og allt þar á milli. Ég byrjaði á verkefnum sem hann var þegar byrjaður á og þannig byrjaði þetta eignabúsævintýri,“ segir hún.

„Ég bretti upp ermarnar og lagði af stað. Í kjölfarið kynntist ég stórkostlegu fólki sem hafði verið í kringum hann. Fólki sem þykir svo vænt um hann,“ segir hún og við tóku endalausar opnanir fyrir verk hans og rödd.

„Bækurnar hans, tónlistin, menntastefnan, myndlistin, skrif og leikverk eru enn í gangi. Og nefni ég eitt af mínu uppáhalds, leikverkið Engillinn, þar sem sýn Þorvaldar og hugmyndir um heiminn, menntun og list birtist áhorfendum. Það er gott dæmi um hugmynd sem Ari Matt, þá þjóðleikhússtjóri, hvatti til framkvæmdar. Ég get endalaust talið upp það frábæra fólk sem hefur komið að verkum Þorvaldar á einn eða annan hátt síðastliðin ár. Ég komst einnig að því að fólk vill að verkin hans séu hjá okkur,“ segir hún og segir Þorvald lifa áfram með okkur í gegnum listina.

„Ég er nýbúin að klára það sem hann var byrjaður á og meira til, og nú er komið að mér að koma þessu í gott horf,“ segir Helena og dreymir um að sjá öll verk hans í nýju lífi og á góðum stað.

„Fyrst var ég með þá hugmynd að koma á fót svokallaðri Þorvaldsstofu. Þegar ég var að vinna við sýninguna hans fyrir norðan á Listasafni Akureyrar uppgötvaði ég fljótt að það er ekki beint í hans anda,“ segir hún og segist vera að þróa hugmynd um „Þorvaldsstofu” hugvitsins með frábæru fólki sem byrjaði á Akureyri og er nú að teygja sig til Reykjavíkur.

„Ég held að þetta verði eins og hann var; fjölþætt. Að þetta verði staður, stefna, hugmynd, skóli, fólk, listasetur og annað. Að hann verði svokallaður „safnstjóri hinnar ímynduðu heildar“. Ég er búin með kafla eitt og nú er að byrja kafli tvö og ég er svo þakklát fyrir alla þá sem hafa þegar stigið inn, hvort sem það er með samvinnu, framvinnu, lausnir eða ábendingar. Við erum rétt að byrja.“

Hætti við að kveðja

Helena er í dag í sambandi við videólistamanninn Marcel Erna Joseph Crabeels.

„Hann var einmitt ein lífsbjörgunin. Þegar Þorvaldur fór, hvarf ekki bara hann heldur líka umhverfið okkar. Rétt eftir að við fluttum út kynntumst við góðum vinum á þeim stutta tíma sem Þorvaldur var á lífi í Antwerpen, Perry Roberts og Sarah Blee. Þróaðist fljótt náinn vinskapur. Þau stigu inn í líf mitt eftir að Þorvaldur fór og pössuðu vel upp á mig. Þau bjuggu í næsta húsi og bönkuðu oft upp á til að færa mér mat eða félagsskap. Stundum fóru þau með mig út til að viðra mig,“ segir hún og brosir.

„Rúmlega ári eftir að Þorvaldur fór, buðu þau mér á myndlistaropnun til að hitta fólk, en fram að því hafði ég mest haldið mig heima. Þarna kynna þau mig fyrir vini sínum og það kemur í ljós að hann þekkir margt af sama fólki og við Þorvaldur þekktum; hann var einnig videólistamaður og hafði komið til Íslands. Hann var skemmtilegur í spjalli og við spjölluðum um listina, en ég var enn hálfdofin,“ segir hún.

„En það sem enginn vissi var að ég var búin að skipuleggja að kveðja þetta líf á komandi dögum,“ segir hún.

„Eftir að ég kom heim af opnuninni, opnaði ég tölvuna og þar beið mín langt bréf frá Marcel. Hann sagðist verða að hitta mig aftur, helst daginn eftir, þar sem hann væri á leiðinni til Parísar til að halda sýningu og kæmi ekki aftur fyrr en eftir hálfan mánuð. Bréfið var svo magnað að mér fannst að ég yrði allavega að hitta hann í kaffisopa. Við hittumst og töluðum samfleytt í fjóra klukkutíma. Ég fann það að þarna var Þorvaldur að senda mér einhvern til að halda í höndina á mér. Þetta varð til þess að ég setti ákveðnar hugmyndir til hliðar. Þarna kviknaði á einhverju, að það væri eitthvert líf. Ég var ekkert að hugsa um að fara í samband, enda var ég gift Þorvaldi og er enn gift Þorvaldi,“ segir hún og sýnir blaðamanni giftingarhringinn, en við hlið hans er hún með hring frá Marcel. Einnig er Helena með húðflúr á handarbakinu, sem er undirskrift Þorvaldar.

„Áður en Marcel varð myndlistarmaður starfaði hann við geðhjúkrun. Ég segi alltaf að það hefur komið sérlega að góðum notum, hann hefur svo fallegann skilning og mikilvægast er að hann viðurkennir mína sorg á öllum þeim stigum sem hún birtist. Hann er einnig mikil hvatning að vinna með mér í í eignasafninu og honum finnst vænt um að hafa Þorvald með okkur,“ segir Helena og segir þau hafi byrjað sambandið rólega og með tímanum þróaðist þeirra samband eins og það er í dag.

Marcel hefur þá komið inn í líf þitt á hárréttum tíma?

„Já. Ég er alveg með það á hreinu að þar sé Þorvaldur að verki. Þorvaldur er búinn að vera með mér allan tímann. Ég finn alltaf fyrir honum. Ég er endalaust að fá alls konar skilaboð frá honum í gegnum fólk og atburði. Ég hugsa til hans, mömmu og systra minna á hverjum degi. Ég er ekki að hanga í einhverri eymd, en fólkið mitt sem er farið hérna megin er alltaf hjá mér.“

Göngum öll í gegnum sorg

Eftir að hafa farið í gegnum sorgina, finnst þér þú lent og búin að finna hamingjuna á ný?

„Maður fer ekki í gegnum sorgina, maður lærir að lifa með henni og styrkist með hverju ári. Marcel hjálpar mér að sjá lífið og gleðina. Það besta við að eiga góðan vin er að hann heldur í höndina á mér og Þorvaldur gerir það líka. Marcel er mjög gamansamur og það er stutt í gleðina. Sem betur fer hefur hann ekki upplifað mikinn missi þannig að það er gott að við erum ekki bæði í þeim báti. Ég vil ekki tala um að ég sé komin í gegnum eitthvað, heldur er ég stödd í kaflanum þar sem mig langar að vanda mig að vera til,“ segir hún og segist vera í auknum mæli að endurnýja kynni við gamla vini og styrkja vinaböndin.

Við ræðum kvikmyndina Er ást sem kemur fyrir sjónir almennings á sunnudaginn. Spurð hvernig Helenu finnist að fólk fái að sjá hana opna sig um þessi erfiðu mál, segir hún:

„Eftir að ég gekk inn í þetta ferli og sagði já við myndinni, gerði ég strax sátt við það að hleypa fólki heim til mín. Ástæðan fyrir að því að ég samþykkti að gera þetta er sú að ég vonast til að myndin hjálpi einhverjum. Ég vona að fólk sem horfir á myndina finni fyrir stuðningi eða sjái einhverja von sem hjálp til að ganga í gegnum erfiða hluti. Vonandi vekur hún einnig upp áhuga að við getum talað meira um erfiða hluti eins og sorgina og skoða hvernig við högum okkur í kringum sorg. Við munum öll upplifa sorg á einn eða annan hátt,“ segir hún.

„Ég tel að þessi mynd hafi kennt mér að það sé í lagi að tala um erfiða hluti. Eins og mamma Þorvaldar sagði alltaf, á maður „að segja eins og er.“ Og ég er enn að æfa mig í að „segja eins og er“, við sjálfa mig og aðra.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir