Eftir Doig Verk eftir Peter Doig en ekki Peter Edward Doige.
Eftir Doig Verk eftir Peter Doig en ekki Peter Edward Doige. — AFP/Daniel Leal
Hinn virti enski listmálari, Peter Doig, hefur unnið mál sem Robert Fletcher höfðaði gegn honum en hann hélt því fram að hann ætti verk eftir Doig. Hlaut Doig á endanum 2,5 milljónir dollara í skaðabætur

Hinn virti enski listmálari, Peter Doig, hefur unnið mál sem Robert Fletcher höfðaði gegn honum en hann hélt því fram að hann ætti verk eftir Doig. Hlaut Doig á endanum 2,5 milljónir dollara í skaðabætur. Teygir dómsmálið sig aftur um ein tíu ár.

Fletcher hélt því fram að hann hefði kynnst Doig á áttunda áratugnum þegar hann var við nám í Lakehead-háskólanum í Ontario. Fletcher starfaði þá sem fangavörður og segist hafa keypt verk af fanga fyrir hundrað dollara. Mörgum árum síðar, þegar Doig hafði slegið í gegn í myndlistar­heiminum – og verk eftir hann selst fyrir 11,3 millónir dollara á uppboði sem var metfé fyrir verk eftir lifandi listamann - reyndi Fletcher að selja hið meinta verk eftir Doig listaverkasala í Chicago að nafni Peter Bartlow. Doig frétti af því og sagði verkið ekki eftir sig.

Árið 2013 fóru Fletcher og Bartlow í mál við Doig og sökuðu hann um lygar. Segir í frétt á vefnum ArtNews að Fletcher haldi því fram að hann hafi verið skilorðseftirlitsmaður Doig þegar Doig hafi hlotið dóm fyrir vörslu á LSD. Heldur Fletcher því fram að í framhaldi hafi hann eignast verk eftir Doig sem merkt er „Pete Doige 76“. Doig segist aftur á móti aldrei hafa hlotið dóm og aldrei hafa verið við nám í Lakehead þar sem Fletcher segist hafa kynnst honum. Lögmenn Doig lögðu fram gögn til sönnunar því að verkið væri í raun eftir Peter Edward Doige en systir hans var við nám í Lakehead og Doige þessi sat í fangelsi um hríð.