Nútíminn Joe Biden með ofursta í herstöðinni Joint Base Andrews í Maryland nú í vikunni Biden var þarna á leiðinni vestur til Kaliforníu.
Nútíminn Joe Biden með ofursta í herstöðinni Joint Base Andrews í Maryland nú í vikunni Biden var þarna á leiðinni vestur til Kaliforníu. — AFP/Andrew Caballero-Reynolds
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin stórmerkilega saga fámenns uppreisnarríkis á ofanverðri 18. öld sem þróast yfir í að verða máttugasta stórveldi heimsins í byrjun 21. aldar.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Staða Bandaríkjaforsetanna hefur auðvitað breyst mikið í aldanna rás. Þeir fyrstu voru dálítið eins og húsbændur á herragarði en nú fara þeir um á heilu flugflotunum og ráða yfir kjarnorkuvopnum sem gætu eytt allri heimsbyggðinni. En um leið þurfa þeir að þrefa á þinginu um hverja krónu, liggur mér við að segja,“ segir Illugi Jökulsson rithöfundur.

Yfirskrift þriggja kvölda námskeiðs við Endurmenntun Háskóla Íslands í næsta mánuði er Forsetar Bandaríkjanna - þeir bestu og þeir verstu. Um hvað fjallað verður segir sig sjálft í titlinum og af mörgu er að taka. Fyrsti forsetinn var George Washington sem settur var í embætti 30. apríl 1789 og gegndi því fram í mars 1797. Þá tók við John Adams og sá þriðji var Thomas Jefferson. Svona má rekja söguna áfram allt til Joe Biden sem er 46. forseti hins mikla veldis í vestri.

Stjórnarskráin skilgreinir völdin

Um forsetana hafa verið skrifaðar ævisögur, sagnfræðibækur, annálarit og fleira slíkt svo af nægu hefur verið að taka við undirbúning námskeiðsins, segir Illugi. Hann hefur verið með fjölda námskeiða fyrir almenning um söguleg efni hjá Endurmenntun síðustu árin, svo sem um Rómarkeisara, Jesú Krist, Stalín, Hitler og Churchill og nú var einfaldlega komið að Bandaríkjaforsetunum.

„Ja, ef maður hefur áhuga á sögu yfirleitt, þá hlýtur maður að heillast af sögu forsetanna í Bandaríkjunum, svo fyrirferðarmikil sem þau eru í heiminum og hafa verið lengi,“ segir Illugi.

Á námskeiðskvöldunum þremur fer hann yfir sögu forsetanna allra, en tekur fram að mismikið sé um hvern og einn að segja þó eitthvað sé merkilegt við þá alla.

Sjálfstæðisyfirlýsing fulltrúa þrettán breskra nýlenda vestanhafs þann 4. júlí 1776 markar stofnun Bandaríkjanna. Í yfirlýsingunni lýstu leiðtogar nýlendanna yfir frelsi og sjálfstæði frá breska heimsveldinu. Með þessu var í raun lagður grunnur að stofnun Bandaríkjanna, en árið 1788 samþykkja nýlendurnar og forystumenn þeirra sameiginlega stjórnarskrá í Philadelphiu árið 1787. Stjórnarskrá Bandaríkjanna er æðsta lögskjal landsins og skilgreinir meðal annars völd forsetans. Og meðal þeirra sem undirrituðu stofnskjalið var George Washington; fyrsti forsetinn sem segja má að hafi að nokkru markað slóð þeirra sem eftir hafa fylgt.

Sumir gleymdir og aðrir gagnrýndir hart

„Í bakgrunninum sé svo hin stórmerkilega saga fámenns uppreisnarríkis á ofanverðri 18. öld sem þróast yfir í að verða máttugasta stórveldi heimsins í byrjun 21. aldar. Öll sú saga er mögnuð og hana segi ég gegnum sögu forsetanna,“ segir Illugi.

„Þótt gagnrýna megi Bandaríkin fyrir margt gegnum tíðina, þá er þó óneitanlega aðdáunarvert hversu vandlega þeir hafa haldið í lýðræðishugmyndina sem kviknaði strax og fyrstu forsetarnir settust að völdum. Það er kannski brogað lýðræði og á fullmikið undir peningaöflum og hefur reynst viðkvæmara en við héldum, en lýðræði er það samt, og ef Bandaríkjaforsetarnir hefðu ekki haldið fast í sitt lýðræði hefði það efalaust átt erfitt uppdráttar víðar um veröld.“

Áhrif forseta Bandaríkjanna á samtíma sinn og þróun til framtíðar hafa eðilega verið misjafnlega mikil. Sumir eru gleymdir í sögunni og aðrir hafa verið gagnrýndir hart, stundum þannig að þeir hafa ekki notið fullrar sanngirni.

„Í bili er ég mest að velta fyrir mér tveimur forsetum sem áttu mjög mótsagnakenndan feril,“ segir Illugi. Woodrow Wilson (1856-1924) sem sat á forsetastóli 1913-1921 var að sögn Illuga stórgáfaður og að mörgu leyti hinn merkasti hugsjónamaður sem áttaði sig á því í byrjun 20. aldar að Bandaríkin hlytu að taka að sér hlutverk stórveldis á heimsvísu, samanber hugmyndir hans um alþjóðasamvinnu. Á sama tíma hefði hann verið forstokkaður rasisti heima fyrir og festi í sessi kynþáttaaðskilnað sem var við lýði í áratugi.

Hinn forsetinn sem Illugi tiltekur sem mistækan er Lyndon Johnson (1908-1973) sem sat á forsetastóli frá 1963-1969, það er er tímabilið milli Kennedys og Nixons. Johnson hafi átt einna mestan þátt í að losa um bönd aðskilnaðarstefnu og hafið þróun í átt að velferðarríki. Um leið hafi hann steypt Bandaríkjunum út í hörmulegt stríð í Víetnam. Í rauninni mætti helga þessum forsetum, það er Wilson og Johnson, sjálfstæð námskeið.

Forsetar flakka upp og niður

Stundum er sagt að engir séu ánægðari með forsetatíð Trumps en draugar þeirra Bandaríkjaforseta sem sátu fram til ársins 2016. Fylgjur forsetanna Franklin Pierce (1853-1857) James Buchanans (1857-1861) Warren G. Hardings (1921-1923) og líklega Andrew Johnsons (1865-1869) sveimi þó enn á sviði sögunnar, segir Illugi, og þyki vafasamar.

„Meiningin er sú að Trump hafi nú tryggt sér neðsta sætið á listum yfir afleita forseta til allrar frambúðar. Því ber minna á slappri frammistöðu sumra forsetanna í embætti. Sannleikurinn er sá að Trump var alveg einstakur forseti. Frjálsleg meðferð hans á sannleikanum hefði til dæmis dugað til að hrekja úr embætti flesta aðra forseta, þó ekki væri annað, en hann lifði það allt af, þótt hann tapaði svo í kosningum á endanum. Ég held að Trump muni alltaf eiga erfitt uppdráttar á svona listum en það er þó of snemmt að gera endanlega upp forsetatíð hans,“ segir Illugi.

„En menn flakka upp og niður á þessum listum, vissulega. Ég held til dæmis að Obama, eins vel og hann var liðinn á sinni tíð, muni síga niður svona lista á næstunni. En þarna er reyndar komið út í pólitík samtímans og um hana er nú ekki ætlunin að fella neina dóma á þessu námskeiði.“

Nokkrir Bandaríkjaforsetar hafa komið til Íslands

Nokkrir forsetar Bandaríkjanna hafa komið til Íslands í stuttar heimsóknir. Dwight Eisenhower hafði tveggja stunda viðdvöl á Keflavíkurflugvelli 1955 og ræddi þá við Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseta Íslands, og Ólaf Thors forsætisráðherra.

Þá kom Richard Nixon hingað til lands árið 1973 og átti hér fund með Pompidou Frakklandsforseta. Örlögin höguðu því svo til að báðir voru á síðustu dögum þegar hér var komið sögu. Nixon sagði af sér skömmu síðar vegna Watergate-málsins og Pompidou var orðinn veikur og lést ekki löngu eftir Íslandsförina.

Hæst ber þó væntanlega í sögu heimsókna Bandaríkjaforseta til Íslands að Ronald Reagan kom hingað í október 1986 og átti þá hinn fræga leiðtogafund með Gorbatsjov í Höfða. Fleiri forsetar hafa ekki gist Ísland meðan þeir sátu í embætti, en Lyndon Johnson, George Bush eldri og Bill Clinton hafa komið til Íslands ýmist fyrir eða eftir að þeir réðu ríkjum í Hvíta húsinu.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson