Ari Skúlason
Ari Skúlason
Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðum Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtaka atvinnulífsins (SA) fyrir hönd fjármálafyrirtækjanna. Ari Skúlason, formaður SSF, segir í pistli um stöðuna á vef samtakanna að samninganefndin hafi eytt…

Hvorki gengur né rekur í kjaraviðræðum Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) og Samtaka atvinnulífsins (SA) fyrir hönd fjármálafyrirtækjanna. Ari Skúlason, formaður SSF, segir í pistli um stöðuna á vef samtakanna að samninganefndin hafi eytt mörgum tilgangslausum dögum í samningaviðræður við bankana. Það sem eftir standi sé tilboð um 6,75% launahækkun með 66 þúsund króna þaki og hækkun fyrir tvö starfsheiti um 7,2%.

Bankarnir varla á vonarvöl

„6,75% launahækkun með þaki felur í sér 5,7-5,8% kostnaðarauka fyrir bankana þar sem tæplega helmingur starfsmanna fær skerta launahækkun og bankarnir þannig í raun að taka af þeim samningsrétt. Við vitum að kostnaðarmat við þá samninga sem gerðir voru á undan var um og yfir 8%. Sum okkar heyrðu forstjóra Haga kvarta yfir íþyngjandi 10-12% launahækkunum á uppgjörsfundi í vikunni. Forsvarsmenn veitingageirans tala um yfir 10% launahækkanir. Hver eru rökin fyrir því að bankarnir sleppi með undir 6%, varla eru þeir á vonarvöl eftir góðan hagnað undanfarin ár.
Við höfum reynt mikið til þess að afnema þetta 66 þús. kr. þak en án árangurs. Þetta þak beinist augljóslega nær einungis að starfsmönnum fyrirtækja á fjármálamarkaði. Á sá hópur það skilið?“ spyr hann í pistlinum.

Segir Ari enn fremur að SSF hafi ítrekað reynt að ná fram lágmarkshækkun fyrir lægstu hópana en án árangurs. Reiknað er með næsta sáttafundi nk. þriðjudag en fyrir þann fund mun stjórn SSF funda með formönnum aðildarfélaga SSF.

Eflingardeila í hnút

Kjaradeila Eflingar og SA er enn í algjörum hnút að sögn Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara en hann hefur boðað samninganefndir viðsemjenda til sáttafundar næsta þriðjudag kl. 11. „„Lög­um sam­kvæmt þá eru haldn­ir fund­ir í kjara­deil­um á tveggja vikna fresti, nema það sé sam­komu­lag á milli aðila um eitt­hvað annað,“ sagði hann við mbl.is í gær. Um ákveðinn stöðufund sé að ræða.