Borgarnes Borgnesingum finnst ekkert fallegra en Hafnarfjallið, ekki síst þegar það er í vetrarbúningi, sjórinn er spegilsléttur og kyrr og kvöldsólin slær roða á himininn.
Borgarnes Borgnesingum finnst ekkert fallegra en Hafnarfjallið, ekki síst þegar það er í vetrarbúningi, sjórinn er spegilsléttur og kyrr og kvöldsólin slær roða á himininn. — Morgunblaðið/Guðrún Vala
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir ber hæst í menningarlífi Borgarness sýning Gísla Einarssonar sem ber heitið „Ferðabók Gísla Einarssonar“ og sýnd er í Landnámssetrinu. Í kynningu um verkið segir að hinn víðförli Borgfirðingur Gísli Einarsson hafi…

Úr bæjarlífinu

Guðrún Vala Elísdóttir

Borgarnesi

Um þessar mundir ber hæst í menningarlífi Borgarness sýning Gísla Einarssonar sem ber heitið „Ferðabók Gísla Einarssonar“ og sýnd er í Landnámssetrinu. Í kynningu um verkið segir að hinn víðförli Borgfirðingur Gísli Einarsson hafi ferðast fram og aftur með það að markmiði að uppfæra rannsóknir þeirra Eggerts og Bjarna.

En hverjir voru þeir? Jú þeir félagar voru fræðimenn sem rannsökuðu landshætti á Íslandi og líf Íslendinga. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá en Ferðabók þeirra kom út árið 1772. Margt hefur breyst og rannsóknir þeirra hafa ekki verið uppfærðar fyrr en nú að Gísli tekur af skarið. Tekið er hins vegar fram að markmið hans hafi ekki náðst, enda séu „vinnubrögð hans ófagleg og hvarvetna kastað til höndum, útkoman sé því mislukkað grín þar sem hæðst er á ósmekklegan hátt að einstaka byggðarlögum og íbúum þeirra“.

Þau sem hafa nú þegar séð sýninguna segja Gísla fara á kostum eins og honum er einum lagið. Tilhlökkun mín er mikil en ég á miða um aðra helgi.

Sagan endalausa um viðgerðir á Borgarfjarðarbrúnni heldur áfram. Það er eins og alltaf sé verið að laga brúna, ár eftir ár er það þannig í minningunni. Og rétt er að brúin, þessi lífæð okkar Vestlendinga, hefur undanfarin ár verið í endurnýjunarferli, þar sem dekkið og slitlagið hefur verið endurnýjað. Oftast er þetta gert á haustin en síðastliðnar vikur, alveg frá því í nóvember, hefur brúarflokkur innan Vegagerðarinnar verið að skipta um vegriðið á brúnni.

Væntanlega hafa Vegagerðarmenn ekki gert ráð fyrir þeim fimbulkulda sem hefur verið allsráðandi í desember og það sem af er janúar. Þeir áttu í mesta basli með aðstæður þarna á brúnni, þurftu stöðugt að hreyfa sig til þess að halda á sér hita. Auk þess dugði ekki til að hafa sírennsli á vatninu sem þeir þurftu að nota við borinn, það fraus þrátt fyrir það. Þeir eru ekki öfundsverðir, mennirnir í brúarflokknum, og nú er farið að hlýna en vonandi þurfa þeir hvorki að þola of mikið rok né vatnsveður á næstu vikum.

Þessa dagana er verið taka öll skilti niður á Food Station-húsinu við Digranesgötu. Fyrir liggur að Grillhúsið mun flytja þangað úr núverandi húsnæði við Brúartorg 6. Reiknað með að flutningarnir verði upp úr miðjum febrúar og mun Grillhúsið halda áfram með sína girnilegu rétti þar. Nýja húsnæðið er mun stærra, og þar er einnig ísbúðin Huppa til staðar þannig að hægt er að fá sér ís eftir matinn.

Þjóðvegur nr. 1 liggur í gegnum Borgarnes og hefur stundum verið tilnefndur sem ein stærsta hraðahindrunin á hringveginum. Svokölluð „Tillaga 5“ var til umfjöllunar hjá skipulags- og byggingarnefnd Borgarbyggðar 6. janúar síðastliðinn. Tillagan felur í sér að flytja skuli veginn utar á leirurnar en áður var gert ráð fyrir. Enn fremur felur þetta í sér að vegurinn út á Snæfellsnes færist ofar í bæinn og um leið að hægt verður að skipuleggja nýja byggingarreiti fyrir íbúðir. Vonandi tekst útfærslan á þessu vel og verður leidd farsællega til lykta.

Í byrjun vetrar opnaði Metabolic stöð í Borgarnesi, staðsetta í Brákarey þar sem björgunarsveitin var áður til húsa. Metabolic er æfingakerfi skipt upp í 4 vikna ákefðarbylgjur þar sem ákefðin eykst með hverri vikunni en æfingarnar eru einnig í þremur erfiðleikastigum.

Þjálfunin fer fram í hópatímum þar sem hver og einn getur valið sitt erfiðleikastig hverju sinni. Æfingarnar skiptast í styrk-, snerpu- og þolæfingar og eru því gríðarlega fjölbreyttar. Enn er sífellt verið að þróa og laga kerfið að nýjustu vísindum og má því segja að engar tilviljanir eigi sér stað heldur er þetta algjörlega hannað þannig að iðkendur fái sem mest út úr æfingunum.

Í Borgarnesi eru Metabolic-hópatímar þar sem þrjú erfiðleikastig eru í boði hverju sinni en einnig er boðið upp á sér lyftingatíma. Eins er boðið upp á tíma fyrir unglinga, nýbakaðar mæður og fjölskylduæfingar. Allir ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi en besta leiðin til að vita hvort þetta henti er að koma og prófa. Nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðunni Metabolic Borgarnesi.

Höf.: Guðrún Vala Elísdóttir