[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljóðbækur eru í uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Undanfarnar vikur og mánuði hef ég verið að hlusta á bækur um sögu og stjórnmál. Ég er nýbúinn að hlusta á bækur um ævi Winstons Churchills, tilurð og sögu Magna Carta, menninguna í Mesópótamíu og…

Hljóðbækur eru í uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Undanfarnar vikur og mánuði hef ég verið að hlusta á bækur um sögu og stjórnmál. Ég er nýbúinn að hlusta á bækur um ævi Winstons Churchills, tilurð og sögu Magna Carta, menninguna í Mesópótamíu og Babýlon, Medici-ættina á Ítalíu og þær framfarir sem urðu á miðöldum í Evrópu. Nú er farið að skrifa bækur sérstaklega sem hljóðbækur eins og Ævintýri Freyju og Frikka sem maðurinn minn Felix skrifaði fyrir Storytel. Fyrir nokkrum dögum fékk ég að lesa handrit að nýrri ævintýrabók í þessari bókaröð eftir hann.

Ég var í miðjum klíðum að hlusta á bók um upphaf og sögu krossferðanna en varð að láta staðar numið þegar ég kom til Japans í vikunni. Á leiðinni hingað yfir nýtti ég tækifærið og kynnti mér Japan með því að lesa bók úr smiðju Lonely Planet eins og maður gerði hér áður fyrr þegar maður ferðaðist á ókunnar slóðir. Það tekur tíma að jafna sig hér á tímamismuninum en hann er níu tímar og Felix hefur gert sér leik að því að lesa upp úr nýrri bók, Tættir þættir eftir Þórarin Eldjárn, þegar við liggjum andvaka. Það er góð afþreying.

Um jól og áramót var lítill tími fyrir lestur og helst að maður gæfi sér tíma til að lesa fyrir afabörnin. Við gáfum þeim kverið Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Einnig las ég einstaka kafla úr Kardimommubænum fyrir þau en þá þarf maður reglulega að bresta í söng.

Ég las þó bókina Kelta eftir Þorvald Friðriksson en í henni kemur afar margt fróðlegt fram sem styður við þær munnmælasögur af Suðurlandi sem við leikum okkur að því að segja í leiðsöguferðum í hellunum á Ægissíðu, Hellunum við Hellu. Einnig las ég fróðlega bók um Landnám í Rangárþingi eftir Gunnar Guðmundsson og Þórð Tómasson. Þar er ég kominn á heimaslóðir.

Á náttborðinu heima bíður mín svo ný ljóðabók Ragnars H. Blöndals sem ber heitið Óskalög hommanna en ég er mjög hrifinn af því sem hann og Ari Blöndal Eggertsson hjá Hringaná bókaútgáfu hafa verið að gefa út.