Úr skrá um örnefni í landi Tinda í Geiradal. Eins og sést er ekki víst hvar Gníputóft hefur verið í raunheimum.
Úr skrá um örnefni í landi Tinda í Geiradal. Eins og sést er ekki víst hvar Gníputóft hefur verið í raunheimum. — Skjáskot af nafnið.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Undanfarnar vikur hefur Halldór Laxness lesið Í túninu heima í útvarpi allra landsmanna. Þar lýsir hann örnefnum á leiðinni „uppí Moskó“, yfir Hellisár (sem við þekkjum sem Elliðaár) og „litla heiði eða háls sem ég aldrei í minni…

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Undanfarnar vikur hefur Halldór Laxness lesið Í túninu heima í útvarpi allra landsmanna. Þar lýsir hann örnefnum á leiðinni „uppí Moskó“, yfir Hellisár (sem við þekkjum sem Elliðaár) og „litla heiði eða háls sem ég aldrei í minni bernsku heyrði nefnt öðru en því undursamlega nafni Kjalnolt. Núna er komin þarna vísindastöð. Og örnefni holtsins hefur verið breytt í Keldnaholt og sýnir hvað vísindastarfsemi er komin á hátt stig þarna uppfrá. Svona lagfæríngar á túngunni, sem stundum eru kallaðar ‘tilviks-íslenska’ og brúkaðar af mönnum sem halda að orðið tilfelli sé danska, þessi uppljómun var talin geisla frá Kennaraskólanum. Semínaristar breyttu líka bæarnafninu Bjámustöðum í Böðmóðsstaði.“

Þar sem ég sat heima hjá mér með súkkulaðibolla og kökudisk fannst mér eins og hér væri lagt orð í belg með vangaveltum úr jólaboðunum um keltneska merkingu torræðra örnefna – og ekki síður þær breytingar sem verða á örnefnum í merkingarsoginu sem Þórhallur Vilmundarson kallaði svo; þegar leitað er norrænnar merkingar að baki örnefnum án þess að reglur málfræðinga um málþróun komi við sögu.

Nokkru síðar rifjaði Halldór upp þegar bændur fóru „að trúa á gamla hesthúskofa í túnum sínum laungu eftir að þeir voru vallgrónir, og sýna þá útlendum vísindamönnum sem musteri úr heiðni eða að minstakosti bænhús úr kaþólsku“, las um ferð „vestur að Tindum í Geiradal um árið til að skoða Gníputótt“ og þuldi vísu sem höfð var eftir Andskotanum þegar hann „í mynd fátæks einyrkja var gintur til að slá [tóttina ...]: Grjót er nóg í Gníputótt, / glymur járn í steinum. / Þó túnið sé á Tindum mjótt / tefur það fyrir einum.“

Undir þessum lestri varð mér hugsað til vísu sem ég hafði ungur lært af föður mínum: „Nóg er grjót í Grýtutóft, / mikið býr í steini. / Jón með nefið langt og mjótt, / samt er Guðlaug verri.“ Ekki skal ég segja hvernig skyldleika þessara vísna er háttað, hvort önnur hvor sé eldri og upphaflegri, betrumbót seminarista eða útúrsnúningur húmorista.

Róttækar breytingar á örnefnum voru alsiða á síðustu öld. Í Víðidal er t.d. bærinn Laufás sem áður hét Tittlingsstaðir, í Núpsdal var gefið bæjarheitið Litli-Hvammur til að losna við Spena, og í Miðfirði voru Uppsalir látnir taka við af Rófu.

Líklegt er að ábúendum á þessum jörðum hafi þótt bæjarheitin lítt til virðingar fallin en ekki lögðu þeir þó í að gera nafnbreytinguna ógleymanlega með vísu á borð við þá sem Akureyringar tengja við Ólaf Thorarensen. Hann átti bæinn Hlíðarenda um skeið (áður Tylling/Tittling) eins og Örn Snorrason orti um: „Lögmannshlíðar vífum vænum / verður margt að bitlingi, / þegar ekur upp úr bænum / Ólafur á Hlíðarenda.“

Örnefnin og málið þróast og breytast oft með óvæntum hætti þótt ekki sé líklegt að Brjánslækur hafi áður heitið Bilbao – svo dæmi sé tekið af handahófi.