Svekktir Ýmir Örn Gíslason og Sigvaldi Björn Guðjónsson gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir tapið í gær.
Svekktir Ýmir Örn Gíslason og Sigvaldi Björn Guðjónsson gátu ekki leynt vonbrigðum sínum eftir tapið í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland á litla möguleika á að fara í átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir 30:35-tap fyrir Svíþjóð fyrir troðfullri Scandinavium-höll í Gautaborg í gær. Svíar voru einu marki yfir í hálfleik, 17:16, en stórleikur hjá Andreas…

Í Gautaborg

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Ísland á litla möguleika á að fara í átta liða úrslit heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir 30:35-tap fyrir Svíþjóð fyrir troðfullri Scandinavium-höll í Gautaborg í gær. Svíar voru einu marki yfir í hálfleik, 17:16, en stórleikur hjá Andreas Palicka í marki sænska liðsins varð íslenska liðinu að falli í seinni hálfleik.

Hvað eftir annað fékk íslenska liðið afar góð færi í seinni hálfleik, en tókst ekki að koma boltanum fram hjá markverðinum sænska. Breytti litlu hvort um var að ræða færi úr horni, línu eða skyttu.

Verða að nýta færin

Það var margt jákvætt hjá íslenska liðinu í gærkvöldi og sóknarleikurinn gekk vel. Íslenska liðið lét boltann ganga hratt og vel og bjó sér til fullt af færum. Það verður hins vegar að nýta færin til að eiga möguleika á að vinna Svíþjóð, sérstaklega á þeirra heimavelli.

Varnarleikurinn var ágætur á köflum og Viktor Gísli Hallgrímsson átti góða kafla í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Ísland náði þriggja marka forskoti í fyrri hálfleiknum, þegar Viktor fór að verja og færin voru betur nýtt. Ísland skapaði sér ekki betri færi á þeim kafla, heldur voru þau nýtt betur. Sænska liðið er hins vegar erfitt við að eiga og var það fljótt að jafna og komast yfir á ný.

Slökkti í Íslandi

Sænska liðið náði snemma fjögurra marka forskoti í seinni hálfleik. Ísland náði mest að minnka muninn í tvö mörk seinni hluta hálfleiksins, en þá hrökk Palicka í gang og slökkti í Íslandi.

Íslenska liðið þarf ekki að skammast sín fyrir tapið í gær, gegn liði sem er einfaldlega betra. Svíþjóð er með fleiri leikmenn í hæsta gæðaflokki og mun betri markvörslu. Það voru hins vegar sannlega tækifæri til að gera betur og það svíður að hafa ekki nýtt þau.

Þá reyndist það erfiður biti að kyngja fyrir Ísland að Aron Pálmarsson meiddist í hádeginu í gær og Ómar Ingi Magnússon gat aðeins leikið fyrri hlutann af fyrri hálfleik, áður en hann varð að fara af velli.

Það yrði erfitt fyrir hvaða lið sem er að missa fyrirliðann sinn og sinn allra besta leikmann gegn einu besta liði heims og á þeirra heimavelli.

Í þeirra fjarveru átti Bjarki Már Elísson enn og aftur góðan leik og Gísli Þorgeir Kristjánsson tók meiri ábyrgð. Þá lék Kristján Örn Kristjánsson mjög vel og skoraði fimm mörk, þrátt fyrir að hafa vermt varamannabekkinn stóran hluta leiks.

Kristján skoraði nokkur mörk á skömmum tíma, en einhverra hluta vegna kaus Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari að taka hann af velli, þegar hann var besti leikmaður Íslands um miðbik seinni hálfleiks. Kristján hefur nýtt þær mínútur sem hann hefur fengið með landsliðinu síðastliðið ár mjög vel, en það er ljóst að Guðmundur treystir honum ekki nægilega vel. Þess í stað spilaði Viggó Kristjánsson mun meira, þegar Ómar var ekki til taks, en Viggó hefur ekki átt sérlega gott mót.

Einnig hefur munað um minna að Sigvaldi Björn Guðjónsson hefur verið langt frá sínu besta og töluvert slakari en hann var á EM á síðasta ári. Óðinn Þór Ríkharðsson hefur leyst hann mjög vel af á mótinu til þessa, en leikurinn í gær virtist aðeins of stór fyrir Óðin, sem lét minna fyrir sér fara.

Þá hefur markvarsla Viktors Gísla og Björgvins Páls Gústavssonar einfaldlega ekki verið næg. Þeir hafa átt sína spretti og Viktor var flottur gegn Suður-Kóreu, en þeir hafa ekki náð sér á strik þegar það hefur mestu máli skipt. Palicka sýndi í gær hve mikilvægt það er að hafa markvörð í allra fremstu röð. Vonandi verður Viktor það einn daginn, en hann er langt frá þeim gæðaflokki sem Palicka er í.

Von Íslands um að fara áfram í átta liða úrslit er svo gott sem úr sögunni og landsliðsþjálfarinn Guðmundur fór ekki í felur með það er hann ræddi við Morgunblaðið eftir leik. Þvert á móti, þá hafði hann ekki nokkra trú á að önnur úrslit lokaumferð milliriðilsins á sunnudag yrðu Íslandi í hag.

Þurfa kraftaverk

Ísland þarf að treysta á að Ungverjaland vinni ekki Grænhöfðaeyjar og þá má Portúgal ekki vinna Svíþjóð. Svíþjóð er töluvert sigurstranglegri gegn Portúgal, þrátt fyrir að liðið muni eflaust gera breytingar á sínu liði, enda sætið í átta liða úrslitum tryggt. Svíar vilja samt sem áður vinna fyrir framan sína stuðningsmenn og eru líkurnar á að þeir geri það ansi miklar.

Það er hins vegar vægast sagt ólíklegt að Ungverjaland vinni ekki Grænhöfðaeyjar, þegar allt er undir. Ísland þurfti ekki að eiga sinn besta leik til að vinna Afríkuþjóðina með tíu marka mun.

Það er því nokkuð ljóst að leikurinn við Brasilíu á morgun verður síðasti leikur Íslands á mótinu og draumurinn er úti. Íslenska liðið getur fyrst og fremst kennt lokakaflanum gegn Ungverjalandi um þá stöðu. Íslenska liðið átti einfaldlega að vinna þann leik, því ungverska liðið er alls ekki betra en það íslenska og það er sárt að sjá Ungverja vera á leiðinni í útsláttarkeppnina á kostnað Íslendinga.

SVÍÞJÓÐ – ÍSLAND 35:30

Scandinavium, Gautaborg, HM 2023, föstudag 20. janúar.

Gangur leiksins: 3:0, 5:3, 8:5, 10:7, 11:13, 12:15, 16:15, 17:16, 20:16, 24:19, 25:23, 30:24, 32:26, 35:30.

Mörk Svíþjóðar: Lucas Pellas 9/2, Niclas Ekberg 6/3, Jim Gottfridsson 5, Albin Lagergren 4, Felix Claar 4, Eric Johansson 2, Oscar Bergendahl 2, Jonathan Carlsbogard 1, Max Darj 1, Lukas Sandell 1.
Varin skot: Andreas Palicka 13, Tobias Thulin 5.
Utan vallar: 10 mínútur.

Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 8/2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Kristján Örn Kristjánsson 5, Elliði Snær Viðarsson 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Janus Daði Smárason 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Ómar Ingi Magnússon 2/1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 12/1.
Utan vallar: 8 mínútur.

Dómarar: Gjorgji Nachevski og Slave Nikolov, Norður-Makedóníu.

Áhorfendur: 12.000.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson