Starfslok Unnur var ráðin yfirlögfræðingur FME árið 2010. Einu og hálfu ári síðar var hún orðin forstjóri.
Starfslok Unnur var ráðin yfirlögfræðingur FME árið 2010. Einu og hálfu ári síðar var hún orðin forstjóri. — Morgunblaðið/Eggert
Viðtal Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Eftir að hafa gegnt starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 2012 og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá ársbyrjun 2020, hefur Unnur Gunnarsdóttir nú beðist lausnar frá starfi. Hún mun láta af störfum í vor.

Viðtal

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Eftir að hafa gegnt starfi forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 2012 og stöðu varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá ársbyrjun 2020, hefur Unnur Gunnarsdóttir nú beðist lausnar frá starfi. Hún mun láta af störfum í vor.

Unnur tilkynnti starfsmönnum Seðlabankans þetta í gær og ræðir hér í samtali við Morgunblaðið um ákvörðun sína.

FME var sem kunnugt er sameinað Seðlabankanum í byrjun árs 2020. Aðspurð segist Unnur að vel hafi tekist til við sameininguna. Hún segir að stofnanirnar tvær hafi þurft að laga sig hvor að annarri, sem hafi vissulega falið í sér áskoranir, en það hafi gengið vel.

„Þetta er búið að vera mikið verkefni en við erum komin á góðan stað að mínu mati,“ segir Unnur.

„Þær breytingar sem komu til framkvæmda voru tímabærar fyrir þær einingar sem nú eru hluti af Seðlabankanum. Eftir skipulagsbreytingarnar ríkir meira jafnræði á milli sviða innan bankans. Þetta er einnig í samræmi við þá þróun sem hefur átt sér stað og kallar á að tekist sé á við mál á þverfaglegan hátt. Það eru miklar skyldur á herðum Seðlabankans miðað við það hlutverk sem honum er falið í dag.“

Nýtt skipurit Seðlabankans, sem tók gildi í síðustu viku, felur í sér breytingar, þar sem fagsviðum fjármálaeftirlits fækkar úr fjórum í tvö.

Miklar breytingar frá 2008

Unnur rifjar upp að mikil þáttaskil hafi orðið við fjármálakreppuna sem reið yfir heiminn haustið 2008.

„Í kjölfarið var mikið gefið í varðandi setningu samræmdra reglna innan EES-svæðisins, miklar breytingar gerðar á íslenskum lögum og meira aðhald á fjármálamörkuðum en áður,“ segir Unnur.

„Þetta er það sem gjarnan eru kallaðar varúðarkröfur og eru komnar til framkvæmda hér á landi. Nýjustu lagabálkarnir ná þvert yfir greinar innan fjármálakerfisins, svo sem um sjálfbærni, netöryggi og auknar kröfur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þá sjáum við breytingar í viðskiptamódelum fyrirtækja á fjármálamarkaði sem við þurfum að laga starfsemina að. Eftirlitið með starfseminni þarf að vera eftir því, til dæmis þar sem verið er að samþætta rekstur banka og tryggingarfélaga eins og við höfum séð hér á landi.“

Þá segir hún mikla þróun eiga sér stað í fjártækni þar sem mörg ný og minni fyrirtæki hafa komið inn á markaðinn og sótt um starfsleyfi.

- Þú nefnir hér þáttaskil sem urðu við fjármálakreppuna árið 2008. Markast fjármálaeftirlit enn af því?

„Ég myndi segja að þessar gífurlegu lagakröfur, sem við erum ekki farin að sjá fyrir endann á, sýni það klárlega. En þegar fram líða stundir munu einhverjir telja að þetta gríðarlega flókna regluverk hafi gengið heldur langt og að flækjustigið sé of hátt,“ segir hún.

- Geta það ekki verið réttmæt sjónarmið?

„Jú, kannski í einhverjum tilvikum en ekki öðrum.“

Sjálfvirkni muni aukast

- Ef við víkjum aftur að bankanum sjálfum. Seðlabankinn, og þá sérstaklega seðlabankastjóra. Hann er búinn að vera áberandi í þjóðfélagsumræðunni á liðnum árum, til dæmis í upphafi heimsfaraldursins og nú á tímum verðbólgu. Er það í samræmi við hlutverk bankans?

„Ég held að það sé tímanna tákn og ekki bundið við Ísland, enda sjáum við það sama í öðrum löndum. Krafa nútímans er að fólk fái upplýsingar um hvað bankinn er að gera og af hverju. Það er það sem við þurfum og höfum verið að leggja áherslu á, að ákvarðanir séu rökstuddar,“ segir Unnur.

„Þegar ákvarðanir Seðlabankans hafa áhrif á daglegt líf einstaklinga og fyrirtækja er mikilvægt að bankinn veiti upplýsingar og tali með þeim hætti að fólk skilji af hverju hann gerir það sem hann gerir. Þetta leiðir líka til aukins fjármálalæsis, sem er mikilvægt, enda hefur margt breyst. Ein mikilvæg breyting er að nú eru fleiri með óverðtryggð lán en áður, og finna því fyrir stýrivaxtabreytingum svo tekið sé dæmi.“

- Áfram um hlutverk bankans. Nú hafa margir innan fjármálakerfisins gagnrýnt umfangsmikið eftirlit sem meðal annars felur í sér mikla vinnu við skil á skýrslum og öðrum upplýsingum til Seðlabankans og áður FME. Munum við sjá einhverjar breytingar þar á?

„Þjónusta bankanna hefur breyst og að sumu leyti minnkað með því að hún er orðin sjálfvirkari. Ég tel að eftirlitið með bönkunum þróist með sama hætti,“ segir Unnur.

„Við höfum haft metnað til að auka sjálfvirknivæðingu þar sem við erum að taka við miklu af gögnum og efni í gegnum skýrsluskil, sem eru samræmd í Evrópu. Fjármálamarkaður á Íslandi er smár í sniðum og stóru bankarnir okkar eru litlir í alþjóðlegum samanburði, þannig að við höfum ekki haft krafta til að hagnýta gervigreind til að greina upplýsingar líkt og þekkist erlendis. Það kemur þó með tímanum.“

10-12 ár hæfilegur tími

Eins og fram kom hér í upphafi hefur Unnur óskað eftir lausn frá störfum og stefnir að því að hætta í vor þegar búið er að ráða í stöðuna. Hún hefur víðtæka reynslu af störfum við fjármálatengd verkefni, opinbera stjórnsýslu og í dómskerfinu. Hún starfaði meðal annars í sjö ár hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og í fimm ár sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA-skrifstofunni í Brussel. Þá var hún framkvæmdastjóri Fjölgreiðslumiðlunar í tvö ár. Innan opinberrar stjórnsýslu var Unnur skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu í sjö ár og settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur í eitt ár.

„Þetta er orðið ágætt,“ segir Unnur og hlær dátt þegar ferill hennar er rifjaður upp.

„Nú er góður tímapunktur til að láta þetta í hendurnar á öðrum. Ég kom inn í FME sem yfirlögfræðingur árið 2010 og einu og hálfu ári síðar var ég beðin um að taka tímabundið við starfi forstjóra – og var skipuð í starfið síðar. Ég tel að 10-12 ár séu hæfilegur tími í svona starfi og er nú búin að vera í þessu starfi í 11 ár.“

Hún bætir þó við á léttari nótum að margir úr hennar vinahópi séu ýmist farnir að draga úr vinnu eða jafnvel hættir að vinna. Fram undan hjá henni er meiri tími til að sinna áhugamálum og fjölskyldunni. Til dæmis verða barnabörnin bráðlega sex talsins.

„Ég vil sinna því hlutverki vel og skil sátt við minn starfsferil,“ segir hún að lokum.

Höf.: Gísli Freyr Valdórsson