Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands vill taka fast á ofbeldismálum enda mikilvægt að kirkjan sé örugg.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands vill taka fast á ofbeldismálum enda mikilvægt að kirkjan sé örugg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands hefur sent frá sér hirðisbréf til fólksins í kirkjunni og annarra fróðleiksfúsra, eins og löng hefð er fyrir. Yfirskrift ritsins er Í orði og verki og þar lítur Agnes yfir farinn veg, veltir fyrir sér stöðu kirkjunnar og kristninnar í landinu og horfir til framtíðar. Agnes hefur tilkynnt að hún láti af embætti sumarið 2024. Spurð hvað hún hyggist leggja mesta áherslu á þetta síðasta hálft annað ár nefnir hún einkum þrennt.

Orri Páll Ormarsson

orri@mbl.is

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands hefur sent frá sér hirðisbréf til fólksins í kirkjunni og annarra fróðleiksfúsra, eins og löng hefð er fyrir. Yfirskrift ritsins er Í orði og verki og þar lítur Agnes yfir farinn veg, veltir fyrir sér stöðu kirkjunnar og kristninnar í landinu og horfir til framtíðar. Agnes hefur tilkynnt að hún láti af embætti sumarið 2024. Spurð hvað hún hyggist leggja mesta áherslu á þetta síðasta hálft annað ár nefnir hún einkum þrennt.

Í fyrsta lagi ætlar hún að ljúka vísitasíum sínum, það er að vera búin að fara um allt land þegar hún lætur af embætti. Hún er að vísitera í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra þessa dagana og svo á hún Vestfirðina eftir. „Þá þekki ég auðvitað mjög vel og geri ekki ráð fyrir að villast á þeim vegum,“ segir biskup sem fæddist og ólst upp á Ísafirði og þjónaði síðan um árabil í Bolungarvík.

Í öðru lagi vill Agnes hraða vinnu við Handbók þjóðkirkjunnar sem síðast kom út fyrir rúmum fjörutíu árum, 1981. „Það er nefnd í málinu og mig langar að handbókin verði tilbúin áður en ég hætti. Til þess að það megi verða þurfum við að gefa svolítið í.“

Í þriðja lagi nefnir hún róttækar skipulagsbreytingar sem unnið er að innan kirkjunnar en er ekki lokið. „Það er verið að móta þessar breytingar og ég vil að komin verði betri mynd á það þegar ég hætti,“ segir biskup en í þessum breytingum felst meðal annars aukið vald til handa kirkjuþingi eftir að kirkjuráð var lagt niður. „Málið er unnið á vettvangi kirkjuþings en í samtali við biskupsembættið.“

Að ýmsu öðru er að hyggja. Agnes hefur til dæmis látið sig mannauðsmálin varða enda æskilegt að fólki líði sem best í sínu starfi. Liður í því er sameining prestakalla sem gerir prestum kleift að bera byrðarnar í auknum mæli saman en ekki hver fyrir sig. „Starf prestsins er viðkvæmt starf og álagið oft og tíðum mikið. Þess vegna er nauðsynlegt að fólk geti haft stuðning hvert af öðru. Það sem meðal annars á að vinnast með þessari sameiningu er að fleiri séu inni í öllum málum, þó þeir séu bara að leysa aðra af. Það verði með öðrum orðum meiri samfella og yfirsýn í starfinu, auk þess sem sérþekking og hæfileikar nýtast betur.“

Mikill mannauður

Hún segir mannauð þjóðkirkjunnar mikinn og vísar þar ekki bara til presta, djákna og annarra vígðra þjónenda, heldur líka sóknarnefnda, kirkjukóra, kantóra og tónlistarfólks yfirhöfuð, að ekki sé talað um allt fólkið sem sinnir hinum ýmsu störfum og þykir vænt um kirkjuna sína. „Þetta er fólkið sem heldur við menningarminjum þessarar þjóðar með því að halda við kirkjum landsins sem margar hverjar eru friðaðar. Ég efast um að nokkur félagsskapur í landinu búi yfir öðrum eins mannauði. Þjóðkirkjan veitir samfélaginu úti um allt land styrk og miðlar af því sem hún hefur upp á að bjóða. Það gleymist stundum í umræðunni.“

– Ríkir almenn samstaða um þessa sameiningu prestakalla?

„Já, það er almenn samstaða um þessa breytingu. Prestar hafa yfirleitt tekið þessu mjög vel og ég minnist þess ekki að komið hafi hávær hróp frá þeim enda er markmiðið að auka þjónustu en ekki draga úr henni. Málið var fyrst unnið heima í héraði áður en það fór til kirkjuþings. Auðvitað eru aldrei allir hundrað prósent sammála en ég legg áherslu á að með þessari aðgerð er ekki verið að sameina sóknir, heldur bara verið að fá prestana til að vinna nánar saman. Héraðsmódelið, eins og það er oft kallað. Við lögðum upp árið 2018 með að þjónum yrði ekki fækkað en margt hefur breyst í millitíðinni og kirkjuþing vill nú að við hagræðum.“

Sjálf er Agnes prestsdóttir og á prestsbörn, þannig að hún þekkir starfið frá fleiri hliðum. „Ég er sannfærð um að þessi breyting komi til með að búa til fleiri örugg frí fyrir presta og fjölskyldur þeirra, þar sem engin hætta er á ónæði á tjaldsvæðinu eða hvar sem fólk kann að dveljast.“

Fækkað hefur jafnt og þétt í þjóðkirkjunni á umliðnum áratugum og tíðindum sætti þegar hlutfall landsmanna innan vébanda hennar fór niður fyrir 60%. Agnes segir þessa þróun eiga við víðar og sífellt erfiðara verði að fá fólk til að taka þátt í félagsstarfi og að mæta á samkomur eða fundi. „Fækkað hefur í kirkjunni í Evrópu undanfarna áratugi og sögulega nær sú þróun gjarnan seinast til Íslands. Nú er hins vegar eins og að þessi þróun sé að snúast við; það sjáum við til dæmis í Svíþjóð. Fólk er að ganga aftur til liðs við kirkjuna og vill fá meira frá henni. Þetta gæti líka átt eftir að gerast hér á landi eftir tíu ár eða svo.“

– Hvað veldur þessum viðsnúningi?

„Heimurinn er að breytast. Kirkjan sem ég ólst upp í er ekki sú sama lengur; þjóðfélagið er ekki það sama lengur. Við búum við breyttar aðstæður eins og margoft kemur fram í fjölmiðlum og samfélaginu. Fólk hefur ekki haft eins mikla þörf fyrir trú á síðustu árum og áratugum og áður fyrr en eitthvað er að breytast. Kannski vegna þess að kirkjan hefur alltaf haldið sínu striki, aldrei gefist upp og ekki sofnað á verðinum. Og boðskapurinn er jafngóður og -skýr og alltaf – erindi fagnaðar en ekki harms. Fólk sem kynnist því lífsviðhorfi er alla jafna þakklátt og vill meira. Sjálf finn ég að fólk er upp til hópa andlega leitandi.“

– Hefur keyrt um þverbak í efnishyggjunni?

„Það má segja það, já. Auðvitað getur efnishyggjan upp að vissu marki gefið lífsfyllingu og ég skil vel að fólk hugsi um fjármál. Öll þurfum við að eiga til hnífs og skeiðar. En fleira þarf að komast að. Svo sjáum við líka hvað heimurinn er fallvaltur, þegar eitt ríki ræðst á annað. Það færir okkur heim sanninn um það að efnishyggjan sé ekki nógu örugg og farsæl. Þess utan eiga trú og vísindi nú aukna samleið.“

Hún nefnir loftslagsbreytingar í því sambandi. „Almenningur er orðinn meðvitaðri um þær breytingar og ekki sér fyrir endann á þeirri baráttu. Vísindamenn hafa sagt okkur allt um þau mál en eftir stendur hið siðferðislega spursmál. Þar hefur kirkjan lagt sitt af mörkum. Svo virðist sem við höfum misskilið setninguna um að gera jörðina okkur undirgefna en í fyrstu Mósebók kemur skýrt fram að við eigum að yrkja jörðina og viðhalda gæðum hennar. Umhverfismál hafa verið á dagskrá kirkjunnar í áratugi. Nægir þar að nefna Bartólómeus, erkibiskup og samkirkjulegan patríarka rétttrúnaðarkirkjunnar í Konstantinópel, en hann hefur verið kallaður „græni patríarkinn“ vegna áhuga hans á umhverfismálum.“

– Finnurðu fyrir því að stríðið í Úkraínu komi mikið við fólk á Íslandi?

„Já, ég geri það. Ég hitti fólk sem er þaðan og vinn með því. Það hefur áhrif á okkur öll að heyra þennan hrylling enda er fólk á Íslandi að mestu leyti alið upp á friðartímum. Mér finnst sjálfsagt að við hjálpumst að í þessum heimi, alveg eins og í fjölskyldum og vinahópum. Það er almennt stutt í hjálpsemina hjá okkur Íslendingum og ég hitti mann um daginn, sem ekki er alinn hér upp, og hann dáist að þessum eiginleika þjóðarinnar. Við stöndum alltaf saman þegar eitthvað kemur upp á.“

Kirkjan vill ganga á undan með góðu fordæmi þegar kemur að hjálpsemi og Agnes nefnir í því sambandi Skjólið, opið hús fyrir konur, sem rekið er af Hjálparstarfi kirkjunnar. Það var hennar hugmynd. „Það er mikil þörf fyrir Skjólið og með því að setja það á laggirnar vill kirkjan gefa til baka til samfélagsins.“

Leiðir en ekki reiðir

– Þjóðkirkjan hefur legið undir ámæli vegna afstöðu sinnar til hinsegin fólks. Hefur nóg verið gert til að koma til móts við þann hóp?

„Það var að langmestu leyti búið að klára það mál þegar ég tók við embætti. Ég minni til dæmis á að við vorum fyrsta kirkjan í heiminum til að viðurkenna hjónaband samkynhneigðra. Ég finn hins vegar að enn eru margir leiðir – en ekki reiðir – og við höfum lagt okkur fram um að hlusta á þeirra mál og viðurkenna þeirra sársauka. Ég er ánægð með verkefnið Ein saga, eitt skref í samvinnu við Samtökin ‘78. Þar segir hinsegin fólk sína sögu í samskiptum við þjóðkirkjuna og haldið var málþing í Skálholti í fyrra. Undanfarin ár hefur útvarpsmessan á sunnudeginum eftir Gleðigönguna verið helguð þessari baráttu og ég fer alltaf í Gleðigönguna þegar ég er í bænum.“

Þegar Agnes settist í stól biskups hafði hún engar sérstakar vonir eða væntingar til embættisins. „Mér var bara falið þetta verkefni og ég vildi sinna því eins og ég hef getu og vit til. Ég tel mig vera umbótabiskup. Ég hef til dæmis lagt áherslu á að taka á ofbeldismálum enda eru það mál sem við kærum okkur ekki um innan okkar kirkju. Það hefur ekki alltaf verið vinsælt enda gerir aldrei neinn hundrað prósent rétt í svona málum. Það eru margir sem koma við sögu, ekki bara þolandi og gerandi. En aðalatriðið er að taka fast á þessum málum; við viljum hafa kirkjuna okkar örugga.“

Agnes er fyrsta konan til að gegna embættinu og viðurkennir að hún hafi rekið sig á fleiri veggi fyrir þær sakir en hún hafði búist við. „Ekki er hægt að lýsa með orðum sumu því sem ég hef upplifað og ég hef oft hugsað hvort svona væri komið fram við mig væri ég karl.“

– Var það aðallega þannig í byrjun eða er þetta svona enn þá?

„Þetta hefur aukist ef eitthvað er. En kannski er það bara vegna þess að ég er betur meðvituð um þetta í dag og tek fyrir vikið betur eftir því.“

– Hvernig getum við lagað þetta?

„Með því að brotna ekki undan þessu sem konur. Kirkjan hefur gegnum aldirnar verið mikill karlaheimur og þegar ég kom í guðfræðideildina á sínum tíma fann ég fyrir undrun. „Ert þú að fara í guðfræði?“ Sjálf hafði ég ekkert velt þessu fyrir mér, langaði bara að feta í fótspor föður míns, sem var dásamlegur maður og birtingarmynd Guðs fyrir framan mig í æsku. En þarna var ég minnt á að ég væri ekki karl, heldur kona,“ svarar Agnes sem var þriðja konan til að vígjast til prests á Íslandi. Nú eru þær fjölmargar.

– Hvað tekur svo við hjá þér eftir hálft annað ár?

„Þá hef ég síðasta kaflann í mínu lífi. Ég kem ábyggilega til með að halda áfram að skutla og sækja barnabörnin mín, eins og aðrar ömmur, auk þess sem það gefst ábyggilega meiri tími til að prjóna á þau. Ég lærði á píanó þegar ég var ung og á flygilinn hérna á biskupssetrinu. Það gefst örugglega meiri tími til að spila á hann í framtíðinni. Hver veit nema að ég opni aftur bókina sem Ragnar H. Ragnar lét mig hafa heima á Ísafirði í gamla daga?“

Höf.: Orri Páll Ormarsson