Erla Sigurbjörnsdóttir fæddist 31. mars 1938. Hún lést 8. janúar 2023. Útför fór fram 20. janúar 2023.

Hún amma mín var engum lík, hún var svo góðhjörtuð, félagslynd og mannleg. Hún gaf öllum tíma og hafði svo mikinn áhuga á fólki. Hún hafði þann einstaka kost að samgleðjast yfir öllum afrekum og tilbúin að hlusta á og gefa góð ráð þegar hlutir fóru úrskeiðis. Það var alltaf hægt að ræða við hana ömmu.

Á yngri árum ólst ég upp í Hafnarfirði, amma og afi bjuggu alltaf nálægt. Ég og Kristján Orri gengum í sama skóla, jafnaldrar og frændur. Oftar en ekki fórum við til ömmu eftir skóla, þar nutum við þess að leika saman, hvort sem við vorum tveir eða allur bekkurinn okkar. Hjá ömmu og afa voru allir ávallt velkomnir.

Amma og afi lögðu alltaf mikið upp úr því að þeirra börn, barnabörn og barnabarnabörn upplifðu menningu og listir. Ég fór oft og mörgum sinnum með þeim í leikhús og á ýmsar listsýningar, ferðir sem ég hafði líklega mismikinn skilning á þá, en er mjög þakklátur fyrir í dag.

Síðasta ferðin með ömmu á Skagaheiði er mjög eftirminnileg, þar kenndi amma Þórunni minni að veiða, líkt og hún hafði kennt mér svo mörgum árum áður, hún hafði ekki gleymt neinu. Þarna sá ég hversu mikla þolinmæði hún hafði og hversu gaman hún hafði af því að hjálpa og kenna öðrum.

Að spila kana með ömmu og afa á Skagaheiði eru nokkrar notalegustu stundir sem ég hef átt. Algjör friður frá umheiminum, íslenskt sumar, sólin að setjast við sjóndeildarhringinn, fuglahljóð úti, hlátur inni og Rás 2 í batterísútvarpinu við rúmin. Náðug stund með fjölskyldunni að spjalla, spila kana og telja á höndum, ekki endilega í þeirri röð. Minning sem ég hugsa oft um, minning sem yljar um hjartarætur.

Elsku afi, samheldni ykkar ömmu var aðdáunarverð. Þið voruð lífsförunautar jafnt sem bestu vinir. Ég veit að þessa dagana er sorgin djúp, en við stórfjölskyldan stöndum öll saman með þér.

Hvíldu í friði elsku amma mín.

Arnar Freyr Kristjánsson.

Elsku amma mín. Síðustu dagar hafa verið þungir, hjartað brotið og söknuðurinn óbærilegur. Þrátt fyrir þennan mikla söknuð get ég ekki annað en fundið fyrir miklu þakklæti, fyrst og fremst þakklæti fyrir ömmu, þakklæti fyrir okkar dýrmæta vinskap og okkar sérstaka samband, þakklæti fyrir allar dýrmætu minningarnar.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá mikinn tíma með ömmu alla tíð. Ég var víst mjög neikvæð í upphafi áætlaðrar leikskólagöngu minnar og vildi alls ekki vera skilin eftir á leikskóla heilan dag. Þessi óánægja mín með að fara í leikskóla stóð ekki lengi, amma ákvað að í leikskóla færi ég ekki og mín „leikskólaganga“ hófst hjá ömmu. Amma lagði mikið upp úr því að ég myndi ekki mæta óundirbúin í 1. bekk, þess vegna var skipulag á hverjum degi, skrift, lestur, spil og já handavinna (við gáfumst fljótt upp á henni) en sú vinna hefur aldrei legið fyrir mér og amma sá það strax.

Í gegnum tíðina hefur amma verið minn helsti stuðningsmaður en hún sagði mér við hvert tækifæri hversu stolt hún væri af mér, hún var ekki „bara“ amma mín, hún var ein mín besta vinkona en við ömmu var hægt að ræða allt á milli himins og jarðar. Hún hafði einstakan hæfileika og kunni svo sannarlega að setja sig í spor annarra, lesa aðstæður og dæma aldrei neinn.

Þegar síminn hringdi: „Hver var þetta?“ – „Þetta var amma Erla, hún var að athuga hvernig hefði gengið.“

Amma var ekki bara minn helsti stuðningsmaður heldur barnanna minna líka. Hún mætti á öll þau hestamót sem hún hafði tök á til þess að fylgjast með strákunum, á leiksýningar, í piparkökukaffi á leikskólanum hjá Margréti og svona ég gæti haldið endalaust áfram.

Það er að þyngra en tárum taki að hugsa til næstu áfanga, hátíða, verkefna, ferðalaga án ömmu en amma var og verður alltaf svo stór partur af öllu í mínu lífi.

Augun mín og augun þín,

ó, þá fögru steina.

Mitt er þitt og þitt er mitt,

þú veist hvað ég meina.

(Vatnsenda-Rósa)

Elsku afi, ég veit og finn hversu mikill þinn missir er, í anda ömmu munum við halda fast utan um hvert annað í þessari miklu sorg.

Elsku amma, ég kveð þig nú, en bara í bili. Takk fyrir allt og takk fyrir að vera fyrirmyndin mín.

Þín

Erla „litla“ Brimdís.

Erla amma.

Þú komst inn í líf mitt þegar ég var þriggja ára og tókst mér opnum örmum. Ég minnist þín með hlýju og þakklæti.

Amma hafði þann eiginleika að láta viðmælanda sínum, sama á hvaða aldri hann var, líða eins og enginn annar skipti máli. Hún hlustaði af einlægum áhuga og athygli og spurði spurninga af áhuga. Hún var góður hlustandi, sem er ómetanlegur eiginleiki, og átti alltaf ráð handa þér ef þess þurfti – þú skiptir hana máli og það leyndi sér ekki. Hún stóð alltaf með þér í blíðu og stríðu – betri stuðningsmaður var vandfundinn.

Þú varst ein af uppáhaldsmanneskjunum mínum. Alltaf svo glæsileg, skemmtileg og hláturmild. Það var svo gaman og gott að spjalla við þig um allt milli himins og jarðar, þú sýndir mér og mínum einlægan áhuga og eftirfylgni. Það var alltaf hægt að treysta á þig og afa, elsku amma. Þú fylgdist vel með mér og mínum eins og þú gerðir við alla þína fjölskyldu sem þú varst svo náin.

Minningarnar eru margar en efst í hugann kemur bros þitt, hlátur og hlýja. Margs er að minnast frá Höfn í Hornafirði, Bergstaðastræti, Akraseli, Búlgaríu, Hringbraut, Hafnarfirði og svo nú síðast Portúgal. Við erum svo þakklát fyrir að hafa náð að fara með ykkur afa til Portúgal síðastliðið haust. Þar sköpuðum við dýrmætar minningar sem við munum hlýja okkur við um ókomna tíð. Morgunkaffið með elsku ömmu, afa og pabba þar sem málin voru rædd og skemmtilegar sögur sagðar og rifjaðar upp. Amma átt nóg af sögum enda búin að upplifa margt en það var einstaklega gaman að hlusta því hún var svo húmorísk og hafði svo gaman af lífinu og öllu sem því fylgir. Hún var einstaklega lífsglöð kona sem var svo gaman að vera í kringum. Ferðirnar í mollið eru ómetanlegar minningar í dag. Það var svo gaman að versla með ömmu enda mikil smekkkona á ferð sem kunni að meta fallega hluti enda var hún undantekningarlaust vel tilhöfð, smart og glæsileg sama hvert ferðinni var heitið. Yfirleitt er maður ekki mikið að velta fyrir sér hvað er komið hvaðan í fari manns en undanfarna mánuði hef ég betur gert mér grein fyrir hversu mikil áhrif amma hefur haft á mig og hversu mikið hún kenndi mér í raun og fyrir það verð ég alltaf þakklát.

Hún vissi að kveðjustundin var óumflýjanleg og viðurkenndi að hún væri ekki tilbúin en hún sagðist ætla að skila kveðju til tengdapabba og Möggu frænku sem henni þótti svo vænt um.

Stundum er sagt að englar birtist okkur í mannsmynd. Elsku amma, þú varst einn af mínum englum í mínu lífi.

Ég er þér og afa svo þakklát fyrir að hafa veitt mér þann heiður að kalla ykkur ömmu og afa og þið sýnduð mér aldrei annað en að ég væri ein af ykkur.

Takk fyrir að vera amma mín og langamma barnanna minna.

Hvíl í friði, elsku Erla amma, þín verður sárt saknað en minning þín lifir að eilífu í hjörtum okkar allra.

Guðrún (Gudda), Stefán (Stebbi) og synir.

Nú er hún elsku Erla amma okkar fallin frá og eftir situr tómarúm sem verður ekki fyllt. Þegar við sitjum hér og rifjum upp minningar um hana ömmu þá eru okkur efst í huga húmorinn, veislurnar og löngu faðmlögin. Hún var mikill listunnandi og naut þess að mála og skapa. Einnig var hún fær veiðimaður og eigum við góðar minningar um veiðiferðir í Affallið í Landeyjum þar sem hún og Eysteinn afi áttu bústað sem þau nefndu Grafarbakka. Hún var að upplagi mikil félagsvera og áhugasöm um málefni líðandi stundar en í kringum hana spruttu ávallt upp áhugaverðar og lifandi samræður. Hún var atvinnumaður í bridge og kenndi okkur mörg spil og kapla. Heimili þeirra afa hafa ávallt verið einstaklega hlýleg og notaleg, teppi og málverk á veggjum, listaverk og skrautmunir í hverju horni ásamt óteljandi myndum af öllum þeirra afkomendum. Amma var ávallt svo stolt af fjölskyldunni sinni. Hún og afi mættu í öll boð og á allar sýningar sem við systkinin héldum og voru virkir þátttakendur í lífi okkar.

Takk fyrir allt Erla amma, við höldum minningu þinni lifandi og listaverkin þín prýða heimili okkar. Við elskum þig.

Þín barnabörn,

Matthildur Soffía Jónsdóttir og Páll Heiðar Jónsson.

Frá því að ég man eftir mér hefur amma verið til staðar. Hún var ekki bara amma heldur traust vinkona. Hún var skemmtileg, hvetjandi, áreiðanleg og hjartahlý. Amma var einstök.

Eins sárt og það er að kveðja hana þá er ég þakklát fyrir allan tímann sem ég átti með henni. Allt sem hún kenndi mér og allar minningarnar sem ég á með henni.

Óteljandi ævintýri, leikhúsferðir og samverustundir. Þessar minningar eru ómetanlegar. Bara það að sitja með henni og spjalla um daginn og veginn var alltaf upplifun, jafnvel þótt við gerðum það nákvæmlega sama daginn áður.

Með ömmu var alltaf gaman og við hlógum mikið. Amma hafði líka húmor fyrir sjálfri sér. Hún átti það stundum til að missa út úr sér óborganlega hluti í fljótfærni en var oftast fyrst til þess að hlæja að því.

Það eru svo mörg gullkorn sem amma hefur átt sem eru oft rifjuð upp þegar fjölskyldan kemur saman og þau eru alltaf jafn fyndin.

Hún og afi tóku öllum sem til þeirra komu með opnum örmum. Jafnvel þó þau væru að hitta einhvern í fyrsta skiptið var alltaf eins og þau væru að taka á móti gömlum vin.

Amma hafði svo mikinn og einlægan áhuga á öllum, sérstaklega barna barnabörnunum sínum.

Hún vissi upp á hár hvaða áhugamál hvert og eitt þeirra hafði og spjallaði við þau um þeirra áhugamál eins og hún væri búin að stunda þau líka í mörg ár.

Vissi nöfnin á uppáhalds íþróttamönnum og ofurhetjum barnanna minna og hafði svo mikla þolinmæði til að ræða við þau um allt og ekkert. Mér þótti alltaf mjög vænt um þennan eiginleika.

Börnin mín áttu alltaf yndislegar stundir með langömmu sinni. Það þurfti ekki nema eitt bros til langömmu og á einu augabragði voru nýbakaðar pönnukökur á borðinu. Þegar amma lést skrifuðu þau bréf til hennar. Það sem þau tóku bæði fram sérstaklega í þeim var hvað það var gaman að vera með henni, leika við hana og hvað pönnukökurnar hennar voru góðar.

„Ég elska pönnukökurnar þínar svo mikið en ég elska þig samt miklu meira.“

Það er erfitt að koma því í orð hversu frábær kona hún amma var í einni minningargrein. Hún var allt það góða sem til er og meira en það.

Guð geymi þig elsku fallega góða amma og langamma, við elskum þig svo mikið og söknum þín.

Elsku afi, missir þinn er svo sár en vonandi getum við haldið áfram að skapa fallegar minningar og átt góðar stundir saman. Það væri í anda ömmu.

Melrós Dögg, Breki Maron og Apríl Birta.

Erla var amma mín. Ég leit alltaf meira á hana sem aðra móður. Fyrstu minningar mínar með henni er frá því að ég og mamma bjuggum hjá ömmu og afa. Amma kenndi mér svo margt sem ég hef með mér út í lífið. Hún sá alltaf það jákvæða í öllum aðstæðum. Hún amma mín var mikill spjallari og gleðigjafi, hafði hlýjustu nærveruna og allir sem hana þekktu nutu þess að vera nálægt henni. Fyrstu minningar mínar með ömmu eru morgnarnir sem við deildum saman. Amma mín sem vakti mig blíðlega, svo spjölluðum við saman áður en hún gaf mér morgunmatinn. Eftir skóla fór ég alltaf beint til ömmu og var þá spjallað, teflt, teiknað og lesið. Amma tók alltaf vel á móti öllum og eitt skiptið þegar ég var 6 ára gamall þá bauð ég öllum bekknum mínum til hennar í pönnukökur eftir skóla... án þess að láta hana vita. Þegar ég mætti með 20 6 ára krakka, gerði hún sér lítið fyrir og bakaði pönnukökur fyrir alla krakkana. Allir í bekknum mínum elskuðu hana ömmu enda var hún sú allra skemmtilegasta. Ég átti til að gleyma öllu sem ekki var fast við mig (töskum, húfum, vettlingum) en krakkarnir í bekknum komu oft í heimsókn til ömmu að skila dótinu mínu sem ég hafði gleymt hér og þar, jafnvel þegar ég var ekki á hjá henni voru allir velkomnir. Amma og afi ferðuðust mikið með mig og á ég ótal skemmtilegar minningar úr þessum ferðum okkar, bæði hérlendis og erlendis. Síðar þegar ég flutti til Hornafjarðar voru samskiptin alltaf jafn mikil. Í hvert skipti sem ég kom í bæinn, oftar en ekki með einn leynigest (besta vin minn) þá tók amma alltaf á móti honum eins og hann væri einn af fjölskyldunni. Amma hafði endalaust mikla ást að gefa. Þegar ég gekk í gegnum erfiðustu tíma lífs míns þá voru amma og afi alltaf til staðar fyrir mig og bjó ég hjá þeim um tíma eftir að ég var fullorðinn. Var stuðningur þeirra ómetanlegur og ekki veit ég hvar ég væri í dag án stuðnings þeirra, leiðbeiningar og allra þeirrar hlýju sem þau veittu mér. Amma bjó til mikla ást í þessu lífi og er sú ást eilíf. Það er ömmu og afa að þakka að fjölskyldan okkar er svona samheldin. Hún var límið sem hélt öllum saman og var það ekkert trélím heldur alvöru Tonnatak sem slitnar aldrei. Eftir andlát ömmu og þegar við vorum saman komin að kveðja hana fórum við saman með bænina sem amma kenndi okkur öllum. Þá spruttu fram þær minningar mínar af henni frá því ég var lítill drengur og einnig allar þær æðislegu stundir sem hún gaf mér. Amma var ein mesta gersemin í mínu lífi og get ég ekki þakkað henni nóg fyrir að vera fyrirmynd mín og ein ástríkasta kona sem ég hef kynnst. Voru það mikil forréttindi að fá að alast upp með hana ávallt mér við hlið. Hún mótaði mig og gerði að þeim manni sem ég er í dag og held ég áfram að reyna mitt besta til að dreifa ást og kærleika eins og henni einni var lagið. Ég elska þig og mun alltaf gera elsku besta amma mín. Við áttum æðislegar stundir saman á þessari jörð og veit ég að nú vakir þú yfir okkur öllum. Hvíl í friði elsku besta amma mín, þinn og ávallt þinn

Kristján Orri

Arnarsson.

Elsku Erlan okkar hefur nú lokið sinni jarðvist, elsku hjartahlýja amman, ská-amman og ská-langamman okkar. Vitað var að á fráhvarfi Erlu var von áður en við Korri rugluðum reytum okkar saman og litla fjölskyldan okkar græddi þetta dásamlega og stóra tengslanet sem honum fylgdi. Var Erla ættmóðirin og rót ættartrésins ásamt Eysteini, eiginmanni sínum.

Erla og Eysteinn voru mikið til staðar fyrir Korra og eru æskuminningar hans og líf fallega fléttað nærveru þeirra. Á hann margar kærar minningar sem ég læt honum eftir að deila, en skemmst er frá að segja að þau vísuðu gjarnan óvart hvort til annars sem „mamma“ og „pabbi“ í stað „ömmu“ og „afa“, svo mikið dvaldi hann á heimili þeirra í æsku.

Erla var félagslynd, hlý með afbrigðum og hafði góða nærveru. Hún kunni bæði list frásagnar og að veita rými áheyrnar. Erlu fannst skemmtilegast að hafa sem mest að gera og sem flesta að tala við. Erla spilaði bridds og kenndi mér, Korra og Melrós Dögg. Máttum við hafa okkur öll við til að halda í við hana, færnin og snöggi hugarreikningurinn hefði borið af á hvaða aldri sem er.

Erla og Eysteinn voru dugleg að bjóða heim og voru höfðingjar heim að sækja. Ef Erlu þótti heldur langt liðið frá síðustu heimsókn var hún ekki feimin að við að láta okkur heyra það og var okkur ljúft að bæta úr, hjá þeim var alltaf gott að vera.

Erla lét okkur alltaf finna að við værum velkomin viðbót í ættina, allt frá fyrstu kynnum þegar hún tók á móti okkur með brosi á vör og kvaddi með knúsi og hönd á bringu, til tákns um einlægnina sem einkenndi hana ávallt.

Þegar ég fótbrotnaði var Erla dugleg að heyra í mér til að bjóða fram aðstoð. Þau Eysteinn náðu í mig svo ég kæmist í heimsókn og létu mig finna að engu breytti um hvort Korri væri með í för eða ekki, ég var alltaf velkomin.

Síðastliðinn desember var Erla lögð inn á spítala og átti ekki afturkvæmt. Hún bað um að fá allar góðar fréttir af sínu fólki og setið var um tímann sem til ráðstöfunar var til að fá að dvelja henni við hlið. Þá var svo gott að fá að knúsast og finna til kærleikans. Í síðustu heimsókninni var lítið talað, en haldist í hendur og kossar gefnir. Ég vonaðist til að tími gæfist fyrir a.m.k. eina stund enn, en Erla kvaddi hratt, eftir að í ljós kom að kveðjustundin væri hafin. Erla var kærleiksafl í okkar lífi og sannarlega fyrirmynd í mínum augum.

Berglind

Rúnarsdóttir.

Elsku langa. Langamma okkar var einstök.

Langamma var mikill húmoristi, góð, hlý, réttsýn og mikill leiðtogi. Við systkinin munum halda fast í allar þær minningar sem við eigum um langömmu, ótal leikhúsferðir, ferðalög, spilakvöld og fleira. Langamma gerði bestu pönnukökurnar, kleinurnar, fiskibollurnar og steikti besta laufabrauðið. Langamma hafði alltaf mikinn áhuga á öllu því sem við vorum að bardúsa og fannst okkur alltaf svo gaman að tala við hana um allt milli himins og jarðar.

Langamma var einstök og söknum við hennar sárt.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson)

Þín langömmubörn,

Kristján Árni, Edda Ósk, Róbert Darri og Margrét Aþena.

Elsku Erla langamma, mikið hvað ég sakna þín og allir aðrir í fjölskyldunni.

Að tilheyra fjölskyldu og eiga góða vini er mikilvægt en ekki sjálfsagt að allir eigi.

Að gráta saman þegar sorgin ber að dyrum og hlæja og njóta lífsins saman á góðum stundum.

Að vera til staðar er á reynir og þiggja hjálpina þegar þörf er á.

Það er ríkidæmi.

(Hjartalag, Hulda Ólafsdóttir)

Takk fyrir allt og skemmtilegar stundir í Portúgal og takk fyrir að vera langamma mín. Elska þig alltaf. Minning þín lifir í hjarta mínu.

Jón Logi Stefánsson.

Elsku systir okkar hún Erla er búin að kveðja.

Með þessu ljóði minnumst við þín með hlýju í hjarta. Takk fyrir allt elsku hjartans Erla okkar. Hvíl í friði.

Athvarf hlýtt við áttum hjá þér,

ástrík skildir bros og tár.

Í sannleik björt, sem sólskinsdagur,

samfylgd þín um horfin ár.

Fyrir allt sem okkur varstu

ástarþakkir færum þér.

Gæði og tryggð er gafstu,

í verki góðri konu vitni ber.

Aðalsmerkið: elska og fórna

yfir þínum sporum skín.

Hlý og björt í hugum okkar,

hjartkær lifir minning þín.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku hjartans Eysteinn, við vottum þér og fjölskyldunni innilega samúð. Megi góður guð gefa ykkur styrk.

Þínar systur,

Guðfinna og Sigurbjörg.

Elsku Erla móðursystir mín er látin. Farin á vit nýrra ævintýra í Sumarlandinu.

Á meðan ég sit hér og skrifa þessi orð heyri ég hláturinn hennar.

Þú varst alltaf svo glöð og kát. Það var svo gaman að koma til ykkar Eysteins í kaffi og spjalla um allt milli himins og jarðar.

Ég man líka hvað það var mikið ævintýri að koma til ykkar þegar þið bjugguð á Höfn í Hornafirði, ég passaði svo nöfnu þína þegar þið bjugguð á Bergstaðastrætinu, og Akraselinu. Það var sko aldrei lognmolla í kringum þig elsku Erla mín, þú hafðir svo mikla útgeislun.

Takk fyrir allar stundirnar. Þú komst með mömmu í heimsókn til okkar þegar við bjuggum í Danmörku, það var yndislegur tími. Takk fyrir öll símtölin og allt spjallið, hvort sem það voru heimsmálin, fjölskyldumálin eða annað sem við ræddum, þá gat ég alltaf fengið góð ráð hjá þér, svo ekki sé minnst á allan hláturinn. Takk fyrir allt.

Ég kveð þig með sorg í hjarta, en veit að þér líður betur núna. Magga vinkona þín hefur örugglega tekið vel á móti þér, og ég er viss um að þið eruð að plana eitthvað skemmtilegt.

Elsku Eysteinn, Solla, Magga, Unnur, Solla, Melrós, Erla, Jón Heiðar og fjölskyldur, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar allra.

Þín frænka,

Sigríður (Sirrý).

Veturinn 1962-63 vorum við öll fjögur, systkinin frá Munkaþverá, í Reykjavík við nám og störf. Eysteinn, sem er yngstur, stundaði nám í Myndlista- og handíðaskólanum. Dag einn, seint í marsmánuði, kom frændi okkar Einar Júlíus frá Akureyri suður í heimsókn og dvaldist hjá okkur. Eitt kvöldið ákváðu hann og Eysteinn að fara út að skemmta sér og fóru á vinsælan skemmtistað í miðborginni. Þar hittu þeir frændur tvær ungar konur, vinkonurnar Erlu og Margréti sem báðar störfuðu á barnaheimilinu á Silungapolli. Ekki er að orðlengja það að daginn eftir voru þau trúlofuð: Erla og Eysteinn, Margrét og Einar Júlíus. Barst nú fréttin fljótt til fjölskyldna okkar og þóttu þetta stórtíðindi. Amma okkar systkinanna, Guðbjörg, skrifaði dóttur sinni, sem búsett var í Danmörku, fréttirnar. Hún lýsti öllu vel og endaði með setningunni: „Er það ekki skemmtilegt að þeir frændur skyldu veiða svona vel í Silungapolli?“ Og það var sannarlega rétt hjá henni. Mikið lán var að fá Erlu í fjölskylduna. Hún var hlýleg, glaðlynd og mannblendin. Hún var því fljót að kynnast okkur í fjölskyldu Eysteins og var einkar hugsunarsöm og góð við elsta fólkið, ömmu okkar, föðursystur og foreldra. Með henni kom inn í hjónabandið sonur hennar frá fyrra hjónabandi, Jón Heiðar, kátur og skemmtilegur drengur sem varð strax eitt af barnabörnunum í fjölskyldunni.

Erla hafði orðið fyrir þeirri sáru sorg á æskuárum sínum að missa föður sinn, Sigurbjörn, í flugslysi og hún saknaði hans allt sitt líf. En Erla var mjög kjarkmikil og dugleg kona. Um það leyti sem þau Eysteinn byrjuðu hjúskap var dýrt og erfitt að leigja húsnæði í Reykjavík. Börnin voru orðin fjögur þegar fjölskyldan fluttist fyrst til Flateyrar og síðar vestur í Hornbjargsvita þar sem Eysteini bauðst að leysa vitavörðinn af um tíma. Og þar, langt frá alfaraleið, dvöldu þau og sinntu gæslu og veðurathugunum í eitt ár. Margir dáðust að þeim fyrir kjarkinn að fara á svona afskekktan stað, en allt fór vel og elstu börnin eiga góðar minningar frá Hornbjargsvita. Eftir veruna þar bjuggu þau um tíma á Bíldudal og fluttust síðan austur á Höfn í Hornafirði. Þar bjuggu þau í mörg ár og tóku mikinn þátt í félagslífi. Erla, sem hafði meðfædda leikhæfileika, starfaði mikið með leikfélaginu. Hún var óborganleg í hlutverki gamallar konu í leikritinu „Skáld-Rósa“ eftir Birgi Sigurðsson, en svo skemmtilega vildi til að Rósa var formóðir Erlu. Yngsta dóttir Erlu, Melrós, lék líka í leikritinu.

Síðustu áratugina hafa Erla og Eysteinn búið í Hafnarfirði og unað sér þar vel. Gaman var að Erla gat látið þann draum sinn rætast að fara á myndlistarnámskeið. Þar málaði hún skemmtilegar myndir sem afkomendur hennar eiga eftir að njóta og geyma í minningu hennar. Við systkinin og fjölskyldur okkar kveðjum Erlu með miklum söknuði og þakklæti fyrir þá hlýju, rausnarskap og hjálpsemi sem hún ávallt sýndi okkur. Hún var mikill persónuleiki og umfram allt góð kona.

Kristín Jónsdóttir og Kristján Jónsson.

Það eru hnípnar saumaklúbbsvinkonur Erlu sem syrgja elsku vinkonu okkar. Með fáeinum orðum langar okkur að senda smá kveðjuorð með þakklæti fyrir dásamlega viðkynningu um leið og við vottum eiginmanni hennar Eysteini, börnum og afkomendum þeirra samúð okkar. Erla var einstök ættmóðir og harmur þeirra er mikill.

Þegar þau fluttu alfarin til Reykjavíkur leið ekki langur tími þar til hún var komin í saumaklúbbinn okkar. Fyrsta dag þorra ætluðum við saumaklúbburinn að blóta þorra, allt var tilbúið, þá tilkynntu ein hjónin afboðun sína, búið var að leggja á borð og allt skipulagt. Þá voru góð ráð dýr, hringt var í Erlu og Eystein og boðið að koma en skilyrðin voru að Eysteinn botnaði fyrripart og mæting í viðeigandi klæðnaði að gömlum sið. Auðvitað komu þau og sannarlega glæddu þau blótið með mikilli gleði og vinskap. Endaði kvöldið með því að Erlu var boðið í saumaklúbbinn okkar. Var það mikil gæfa fyrir okkur því að kynnast Erlu og vera með henni var svo mannbætandi. Hún var þannig að okkur öllum fannst við hafa þekkt hana alla ævi. Tryggð hennar við alla var slík. Við söknum hennar.

Hinsta kveðja.

F. h. saumaklúbbsins,

Heba Guðmundsdóttir.

Í dag minnumst við okkar kæru vinkonu Erlu Sigurbjörnsdóttur.

Við hittum Erlu og Eystein fyrst á Lútheskri hjónahelgi árið 1997 og mynduðum eftir það vinahóp sem hefur haldið saman síðan eða í 25 ár. Þetta var frá upphafi náinn og skemmtilegur hópur sem hefur verið okkur öllum mikils virði.

Við brölluðum margt saman og fórum oft í sumarbústaði og var þá mikið spjallað, spilað og hlegið. Við fórum líka saman í ógleymanlega ferð til Kúbu og stendur sú ferð upp úr.

Erla var alltaf hrókur alls fagnaðar, skemmtileg, hláturmild og vel upplýst. Hún hafði skoðanir á mörgu og var til í umræður um ólík málefni. Hún sýndi líka mikla samkennd þegar á móti blés og hafði einstaka nærveru.

Við vottum okkar góða vini Eysteini og fjölskyldunni allri okkar dýpstu samúð.

Erlu verður sárt saknað í vinahópnum.

Sigrún, Axel, Elsa, Ármann og Kristín.

Æskuvinkona mín, Erla Sigurbjörnsdóttir, er látin. Við kynntumst þegar við vorum átta ára en þá flutti fjölskylda hennar í sama hús og við bjuggum í við Laugaveginn. Einnig vorum við í sama bekk í Austurbæjarskólanum hjá Jóni Þórðarsyni, þeim frábæra kennara. Þetta var skemmtilegur bekkur sem hefur hist reglulega í gegnum tíðina.

Laugavegurinn var á þessum tíma aðalgatan í Reykjavík. Oft á kvöldin horfðum við á prúðbúið fólk á leið í bíó og voru karlmennirnir með hatta og kvenfólkið einnig með hatta og í háhæluðum skóm. Kvikmyndahúsin, Hafnarbíó, Stjörnubíó og Austurbæjarbíó, voru rétt hjá okkur. Þetta var á tímum eftirstríðsáranna og fylgdumst við spenntar með þegar drossíur komu og stönsuðu við húsið á móti. Borðaklæddir offíserar stigu út úr bílnum og tóku á móti glæsilegum konum í síðum kjólum og loðkápum. Okkur fannst þetta allt ævintýri líkast.

Við elskuðum líka öll prakkarastrik. Stundum á kvöldin hentum við pappírskúlum út um glugga á efstu hæðinni niður á stéttina og alltaf hljóp einhver á eftir kúlunni til þess að athuga hvað þetta væri. Eins bundum við súkkulaði við snærisspotta og létum hann liggja á stéttinni. Þá kom alltaf einhver og ætlaði sér að góma súkkulaðið en við vorum nú fljótar að toga í spottann og fela okkur. Einu sinni settum við Rabbi bróðir band í nokkrar nótur á píanóinu og létum þær spila lag. Ég hljóp niður til Erlu og bað hana í guðanna bænum að koma upp því píanóið spilaði bara sjálft. Hún kom upp og jesúsaði sig í bak og fyrir en við systkinin áttum mjög bágt með að hlæja ekki.

Flest kvöld vorum við krakkarnir í leikjum, t.d. fallinni spýtu, yfir, sto, kýlubolta, hafnabolta o.fl. Það var ekki auðvelt hjá mæðrunum að ná okkur inn á síðkvöldum. Nokkuð margir krakkar voru í leikjunum, því bara í okkar húsi voru þrettán börn. Stundum fengum við Erla að fara í bíó og voru dans- og söngvamyndir í miklu uppáhaldi. Þegar við komum heim settum við upp hatta og lékum atriði úr myndinni. Eflaust höfum við misskilið heilmargt, því engir textar voru á tjaldinu en við keyptum prógramm sem var með grófan söguþráð á íslensku.

Eftir fermingu skildi leiðir þar sem ég flutti og við fórum hvor í sinn skólann. Við hittumst síðar og vorum þá komnar með fjölskyldur. Þá tókum við aftur upp þráðinn og fórum að spila golf hjónin og líka bridge, en Erla spilaði bridge með bridgeklúbbnum okkar alveg fram að banalegu sinni.

Ég hef sjaldan þekkt jafn lifandi manneskju og Erlu en ekkert mannlegt virtist henni óviðkomandi. Það var sama hvort um var að ræða leikhús, tónleika, bíó, pólitík eða heimsmálin. Hún var inni í öllu, hafði skoðanir á öllu og það var alltaf gaman að rökræða við hana. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa eignast Erlu sem vinkonu en við töluðum saman nærri daglega. Hún var svo ótrúlega opin, víðsýn og fordómalaus, góð og alltaf skemmtileg. Við söknum hennar öll.

Kolbrún.

Það er komið kvöld í Goa á Indlandi. Síminn hringir – það er Eysteinn. Hann ber okkur þær óvæntu sorgarfréttir að hún Erla sín sé látin.

Við hittum Erlu þegar Afríkuballið var haldið í lok október. Við vissum að hún átti við veikindi að stríða en hún vildi samt fyrir alla muni koma, enda einn fastagestanna á þeim árlega viðburði. Iðulega mætti hún klædd glæsilegum kjólum og höfuðbúnaði frá Malaví sem hún hafði keypt þegar hún fór þangað endur fyrir löngu, til að hitta vinkonu sína Margréti, sem nú er látin. „Ef ekki á Afríkuballi, hvenær ætti ég þá að nota þessi fallegu föt“? spurði hún brosmild og hlæjandi á sinn sérstaka og einlæga hátt. Erla hafði nefnilega auga fyrir því fallega og kunni að skemmta sér og gleðja þá sem voru í samfylgd hennar.

Við kynntumst Erlu og Eysteini, eins og þau voru gjarnan kölluð, þegar Geir var læknakandídat að taka út héraðsskylduna á Höfn í Hornafirði 1980. Eysteinn starfaði þá á heilsugæslustöðinni og þeir fundu strax samhljóm í lífi og starfi. Á sama tíma starfaði Jónína sem kennari í Heppuskóla og vann þá með Skúla og Margréti sem voru góðir vinir Erlu og Eysteins. Magnaður mjöður samstarfs, vináttu og viðburða var bruggaður ásamt öðrum góðum félögum á Höfn og lagði grunn að vináttu allt fram á þennan dag.

Erla og Eysteinn voru samhent og umgengni við þau einkenndist af leiftrandi umræðum, og áhugaverðum – oft spaugilegum – sjónarhornum á lífið og tilveruna þegar málefni líðandi stundar voru krufin til mergjar. Erla var fasmikil og glæsileg kona með heillandi rödd og lét sér ekkert óviðkomandi. Alltaf til í að taka spinn á umræðuna og ófeimin við að segja skoðun sína og rökræða til þrautar.

Sitjum nú hugsandi hér í Goa og minningar hrannast upp. Glaðværð og endurómur smitandi hláturs Erlu berst hingað yfir lönd og haf. Þannig var Erla, með sitt glaðværa, stóra og víðsýna hjarta. Við vottum Eysteini, börnum þeirra og fjölskyldunni allri innilega samúð okkar.

Geir Gunnlaugsson og Jónína Einarsdóttir.

„Ertu þá farin, farin frá mér. Hvar ertu núna og hvert liggur þín leið?“

Þessa laglínu sungu þeir í Skítamóral, hér á árum áður, og þessi spurning kom fram í hugann, þegar ég frétti andlát minnar góðu vinkonu, Erlu Sigurbjörnsdóttur, sem kom allt of fljótt.

Ég var svo heppin fyrir 15 árum að kynnast Dóru og Kollu, góðum vinkonum Erlu, og stofna spilaklúbb, þar sem við hittumst reglulega á heimilum þeirra, spiluðum bridds, ræddum málefni líðandi stundar og nutum veisluborðs sem hver og ein reiddi fram af miklum myndarskap.

Samverustundirnar í spilaklúbbnum voru alltaf skemmtilegar, mikið hlegið og grínast. Erla var skemmtilegur félagi við spilaborðið, áræðin í sögnum og gladdist innilega þegar vel gekk. Hún var vinkona sem hægt var að ræða við um alls konar hluti, og hafði alltaf eitthvað gott til málanna að leggja, kunni að gleðjast og líka að sýna samkennd þegar þess þurfti.

Elsku skemmtilega og góða vinkona, ég á því miður ekki eftir að hlæja, gráta og gleðjast með þér oftar í þessu lífi, en síðast er við kvöddumst, ákváðum við að hittast aftur á næsta tilverustigi. Þangað til, takk fyrir allt.

Eysteinn minn! Missir ykkar er mikill. Ég sendi þér og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Esther

Jakobsdóttir.

Skemmtilegasta kona á Íslandi. Það eru orðin sem koma upp í hugann þegar ég rita þessa minningargrein um Erlu Sigurbjörnsdóttir. Hún hafði þann dýrmæta, en sjaldgæfa, eiginleika að geta alltaf náð athygli fólks og bæði gefið af sér og þegið í samskiptum.

Erla var skemmtileg í víðustu merkingu þess orðs og það var bæði gaman að heimsækja hana og fá hana í heimsókn. Matta amma mín og Magga móðursystur mínu héldu mikið upp á Erlu sem segir margt um mannkosti hennar.

Erla var mjúkraddaður og hláturmildur húmoristi sem elskaði að segja sögur og hlusta á fólk. Hún var alltaf til í samræður og kunni að kafa á dýptina. Einnig var hún listakona, gestrisinn matgæðingur og mikið fyrir menninguna.

Mín fyrstu kynni af Erlu voru sumarið 1979 þegar ég var átta ára og hún kom ásamt tengdadóttir sinni (Önnu Jónu móðursystur minni) í heimsókn út í Hjörsey ættaróðal fjölskyldu minnar. Ég man þetta svo vel því að hún, þessi örláti höfðingi, gaf mér myndasögublað (ég man ártalið á því) sem hún hafði keypt fyrir mig, af því að hún hafði heyrt að ég hefði gaman af slíku.

Mér er einnig minnistætt þegar ég, sem barn, heyrði hana í Hjörsey tala í gamansömum tón um Diddu systur sína hvurs gólf væru alltaf svo hrein að það mætti borða af þeim. Ekki vissi ég þá að um tuttugu árum síðar yrði Didda systir hennar tengdamóðir mín.

Ættmóðirin Erla Sigurbjörnsdóttir hefur kvatt okkur að sinni. Ef ég þekki hana rétt þá situr hún nú einhvers staður í sumarlandinu í hrókasamræðum og bíður eftir okkur hinum.

Ég þakka góðar samverustundir gegnum tíðina og votta Eysteini eiginmanni Erlu og stórfjölskyldu þeirra hjóna mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Veturliði.