Kristín S. Hjálmtýsdóttir
Kristín S. Hjálmtýsdóttir
Kristín S. Hjálmtýsdóttir: "Sameiginlegt spilakort gæti komið böndum á ólöglega erlenda spilastarfsemi og stuðlað að heilbrigðu spilaumhverfi með skaðaminnkun að leiðarljósi."

Í frétt Morgunblaðsins hinn 14. janúar sl. var vitnað í Sigurð Kára Kristjánsson, formann starfshóps sem skipaður var af þáverandi dómsmálaráðherra árið 2021 um happdrætti, með fyrirsögninni „Milljarðar í ólögleg fjárspil“. Í fréttinni er haft eftir Sigurði Kára að ekkert samkomulag hafi verið í starfshópnum og því hafi formaðurinn skilað skýrslu sem eingöngu hann og starfsmaður starfshópsins hafi undirritað.

Fyrir hönd eigenda Íslandsspila, Rauða krossins á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, viljum við koma því á framfæri að það er ekki rétt að ekkert samkomulag hafi verið í starfshópnum. Þvert á móti er mikil samstaða á meðal fyrirtækja á happdrættismarkaðnum, sem geta ekki fjármagnað sig með öðrum hætti, um að nauðsynlegt sé að fara í breytingar á lagaumhverfi happdrættismarkaðarins. Tilgangur breytinganna væri sá að ná utan um ólöglega spilun, þar á meðal á netinu, sem kostar milljarða á ári í tapaðar tekjur og skatta en einnig til þess að geta komið á heilbrigðara spilaumhverfi með skaðaminnkun að leiðarljósi fyrir þá sem glíma við spilavanda.

Innan starfshópsins var meðal annars rædd farsæl leið sem getur náð utan um verkefnið sem starfshópnum var falið að leysa. Það er leið sameiginlegs spilakorts en þannig má koma böndum á ólöglega erlenda spilastarfsemi á netinu, færa tekjurnar til félaga sem gera íslensku samfélagi gagn og á sama tíma koma á heilbrigðu spilaumhverfi þar sem skaðaminnkun er höfð að leiðarljósi með þeirri stjórn og inngripum sem spilakortið færir.

Til annarra Norðurlandaþjóða má sækja fyrirmynd að skynsamlegri lausn þessa málaflokks fjárspila. Hún felst í áðurnefndu spilakorti og einkaleyfi sem nær yfir öll fjárspil til handa samtökum sem stunda hjálpar-, íþrótta- og mannúðarstarfsemi og geta ekki fjármagnað starfsemi sína með öðrum hætti.

Höfundur er formaður stjórnar Íslandsspila. kristin@redcross.is

Höf.: Kristín S. Hjálmtýsdóttir