Sigurður Jóhann Hafberg fæddist á Flateyri 5. janúar 1959. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Ísafirði 11. janúar 2023 eftir stutta baráttu við krabbamein.

Foreldrar Sigurðar voru Einar Jens Hafberg, f. 8.8. 1919, d. 2.1. 1974, og Kristbjörg Hjartardóttir, f. 17.7. 1928, d. 30.1. 1979. Systkini Sigurðar eru: Friðrik E. Hafberg, f. 21.3. 1949, Ægir E. Hafberg, f. 24.1. 1951, Sesselja E. Hafberg, f. 25.12. 1952, Björn E. Hafberg, f. 4.7. 1956, d. 18.7. 2020, og Ágústa M. Hafberg, f. 13.7. 1967.

Eftirlifandi eiginkona Sigurðar er Þorbjörg Sigþórsdóttir, f. 5.2. 1959, móttökuritari á Sjúkrahúsinu á Ísafirði. Börn Sigurðar og Þorbjargar eru: 1) Íris Dröfn Hafberg, f. 8.1. 1980, grunnskólakennari á Akureyri. Maki hennar er Gísli Rúnar Gíslason rakari. Sonur Írisar er Róbert Máni Hafberg, f. 3.5. 2002, en saman eiga Íris og Gísli Emil Magna Hafberg Gíslason, f. 18.1. 2017. 2) Sævar Jens Hafberg, f. 29.7. 1982, skipstjóri. Börn Sævars eru Matthías Máni Hafberg, f. 28.3. 2008, og Hrafnhildur Kata Hafberg, f. 15.5. 2012. 3) Hannibal Hafberg, f. 8.4. 1991, sjávarútvegsfræðingur. Maki hans er Guðný Ósk Árdal Sveinbjörnsdóttir nemi.

Útför Sigurðar fer fram frá Flateyrarkirkju í dag, 21. janúar 2023, klukkan 14.

Elsku pabbi! Hann var svo ótalmargt í mínum huga. Hann var vinur, fyrirmynd, kennari, reddari, peppari, húmoristi og bara svo ótrúlega góður karl. Það skipti ekki máli hvað mig vantaði, hann var alltaf tilbúinn að hjálpa eða koma með ráð. Ef hann var ekki fær um það sjálfur þá reddaði hann hlutunum og lét þá gerast. Vissulega fannst mér hann stundum óþolandi gagnrýninn og jafnvel bara erfiður en það er jú hlutverk foreldra að kenna börnunum sínum að gleypa ekki hugsunarlaust við því sem veröldin hefur upp á að bjóða. Mér finnst ég stundum heyra pabba minn tala þegar ég ræði við mín börn og ætli það þýði ekki að ég hafi lært eitt og annað af honum.

Samband okkar pabba var nokkuð einstakt. Ég held að fáir hafi á unglingsaldri og fram yfir tvítugt varið eins miklum tíma með pabba sínum og ég. Við unnum saman í sundlauginni á Flateyri í nokkur ár, beittum saman, ég fór með honum í óteljandi kajakferðir auk endalausra verkefna sem sinna þurfti við blokkina. Ég læt mér ekki detta í hug að segja að alltaf hafi allt verið frábært á milli okkar en þetta var góður tími og ég myndi engu vilja breyta.

Þegar Róbert sonur minn fæddist eignaðist pabbi aðdáanda númer eitt og segja má að það hafi algerlega verið í hina áttina líka. Þeirra samband var ótrúlega fallegt alla tíð og ekki fá ævintýrin sem Róbert hefur fengið að upplifa vegna afa síns. Síðar bættist Emil Magni við í aðdáendahóp afa og var tilhlökkunin alltaf mikil að koma á Flateyri til afa og ömmu eða fá þau í heimsókn norður.

Sjórinn var uppáhaldsstaður pabba og hann vissi fátt betra en að skella sér út á sjó. Kajakarnir og í seinni tíð Einfari og Tvífari hafa verið endalaus uppspretta ævintýra og gleði. Bæði hjá okkur fjölskyldunni og öllum þeim sem voru svo heppnir að fá að kynnast pabba.

Pabbi var maður stórra hugmynda og auðvelt að fá hann á sitt band, hann var alltaf til. Hugsum bara um afleiðingarnar seinna var svolítið hans mottó. Fólk hreifst með honum og þess vegna átti hann orðið mjög stóran hóp vina og kunningja sem fengu að njóta þeirra forréttinda að ganga með honum nokkur skref á hans lífsins göngu. Við lestur minningarorða þeirra undanfarið er ljóst að ég verð ekki sú eina sem mun sakna hans því hann var eitthvað annað. Það er ekki sjálfgefið að líka vel við foreldra sína og finna í þeim vini. Mig langar að ljúka þessum skrifum með ljóði sem hann samdi eitt sinn til mín. Takk fyrir allt, elsku karl, sjáumst í næsta stríði.

Ár kemur að ári

og aldur breytist skjótt

ég undra mig oft á því

hví eldist þú svo fljótt.

Ég vildi þú værir alltaf

litla barnið mitt

en þannig er það ekki

og þitt líf það er þitt.

Vertu alltaf hughraust

og haltu þinni lund

með heiðarleika að vopni

þú heldur á hvern fund.

En þó það komi tímar

sem tárin falla á kinn

þá mundu alltaf vina

að þú átt pabba þinn.

Þú ert yndi allra

ekki nokkrum lík

þú ert sólargeislinn

sem lýsir hverri vík.

Og saman inn í framtíðina

við fögnum nýrri öld

gleðjumst yfir litlu

og gleðin tekur völd.

(Sigurður Hafberg)

Þín dóttir,

Íris.

Látinn er ástkær bróðir okkar, Sigurður Jóhann, langt um aldur fram eftir stutta en snarpa baráttu við krabbamein. Siggi Habb, eins og hann var ávallt nefndur, var næstyngstur okkar systkina Hafberg frá Flateyri, áður er látinn Björn bróðir okkar.

Siggi var uppátækjasamur og kraftmikill unglingur og naut þess að alast upp við gott atlæti og frelsið á Flateyri. Eftir almennt grunnnám og nám við Héraðsskólann á Núpi hófst fljótlega hin almenna þátttaka í daglega lífinu. Ungur fór Siggi á sjóinn og varð það hans aðalstarf lengi og undi hann sér þar vel. Hann var lengi á togaranum Gylli frá Flateyri og naut sín vel þar í hópi dugmikilla og skemmtilegra samferðamanna sem margir minnast Sigga sem öflugs og glaðsinna vinar. Siggi stofnaði og rak um tíma eigin útgerð frá Flateyri í samvinnu við félaga sína og gekk það vel.

Sjómennskan tekur á og ákvað Siggi eftir áratuga veru á sjónum að söðla um og vinna í landi nær fjölskyldu sinni. Fljótlega eftir að hann kom í land hóf hann nám í útgerðartækni og starfaði sem verkstjóri og framkvæmdastjóri hjá ýmsum fiskvinnslum á Vestfjörðum.

Enn leitaði hugurinn til annarra starfa og fór Siggi í nám og lauk fullgildu kennaraprófi. Síðustu fimm árin starfaði hann sem grunnskólakennari á Flateyri en ákvað á síðasta ári að snúa sér alfarið að sínu eigin fyrirtæki, Grænhöfða ehf., á sviði ferðaþjónustu og tengds rekstrar.

Siggi var í grunninn ævintýramaður og lét marga af sínum draumum rætast, t.d. keyptu þau hjón fyrir um 20 árum heila íbúðarblokk á Flateyri og töldu margir að nú væri „meistarinn“ farinn að ruglast. Þetta var fyrir uppsveifluna í ferðaþjónustu en umrætt húsnæði hefur síðustu árin verið hornsteinn rekstrar fyrirtækis hans og gengið vel. Siggi rak jafnframt kajakleigu og eins ráku þau hjón vinsælt kaffihús á Flateyri um skeið, það var því í mörgu að snúast.

Siggi hélt uppi merki okkar Hafbergssystkinanna frá Flateyri, sem öll erum flutt í burtu en sækjum mikið á heimaslóðir. Siggi laðaði að sér alla, bæði fullorðna og börn, barnabörn okkar systkina hafa mikið dálæti á Sigga, hann var alltaf tilbúinn í leik og grín, var duglegur að bjóða þeim að fara á sjóinn að veiða eða á kajak eða gera eitthvað skemmtilegt, öll elska þau Sigga.

Siggi og Þorbjörg/Tobba eiginkona hans voru einstök hjón og gott að sækja þau heim, þess nutum við systkinin í ferðum okkar heim til Flateyrar og margir aðrir vinir þeirra. Það sem einkenndi Sigurð bróður okkar var glaðværð hans, hjálpsemi og traust, hann var góður vinur. Það var mesta gæfa Sigurðar að hitta hana Tobbu sína og deila með henni lífshlaupi sínu. Tobba reyndist Sigurði afburða vel og eiga þau þrjú glæsileg börn sem öll tengdust pabba sínum sérstökum böndum og eins er um barnabörnin sem elskuðu afa sinn mjög.

Elsku Tobba og fjölskyldan öll, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra en minning um góðan dreng mun lifa. Guð blessi ykkur öll.

Systkinin Hafberg;

Friðrik, Ægir, Sesselja og Ágústa og fjölskyldur.

Í dag er lagður til hinstu hvílu ástkær föðurbróðir minn, Siggi Hafberg. Það er ómögulegt að lýsa með orðum hversu einstakur maður Siggi var, það vita allir sem hafa orðið á vegi hans, en ég er einstaklega lánsöm að hafa fengið að vera samferða honum hluta leiðarinnar.

Siggi var örlátur á tíma sinn og gaf mikið af sér. Hann hugsaði út fyrir boxið og nálgaðist okkur krakkana á jafningjagrundvelli og alltaf með talsverðu glensi. Hann hvatti mann til að stíga út fyrir þægindahringinn og gera nýja hluti og vera ekki hræddur heldur láta bara vaða. Í æsku minni var Siggi ólíkur öllum öðrum fullorðnum, ég man vel eftir jólamessunum í kirkjunni heima á Flateyri, þegar kirkjukórinn nálgaðist háu nóturnar. Þá litum við Siggi hvort á annað og flissuðum því við vissum að það myndu ekki allir ná þessum háa tóni og margir yrðu rangeygðir af því að reyna, það fannst okkur fyndið. Hann kunni margar vísur og var duglegur að kenna okkur krökkunum, þessar vísur voru stundum á gráu svæði og hinum fullorðnu þótti nóg um, en þetta var alltaf á góðum nótum og með þann tilgang að hafa gaman. Sigga fannst gaman að takast á við skoðanaglaða krakka, ég hafði sterkar skoðanir á stjórnmálum sem barn án þess að hafa mikið vit á þeim. Sigga fannst það sniðugt og skráði mig í áskrift að Þjóðviljanum, sem kom svo heim í mörg ár, ég er ekki viss um að ég hafi lesið blöðin mikið en pabbi naut góðs af.

Ég er þakklát fyrir að stelpurnar mínar hafi fengið að kynnast Sigga frænda og í gegnum hann fengið að upplifa töfrastaðinn Flateyri. Sjóferðir á Einfara, kajaksiglingar um Önundarfjörðinn og nýstárlegar veiðiaðferðir, eins og að nota lakkrís sem beitu, eru atriði sem búið er að rifja upp síðustu daga. Í þeirra huga var hann kóngurinn á Flateyri. Þeirri einstöku gestrisni og hlýju sem Siggi og hans elskulega Tobba hafa sýnt mér og mínum í gegnum árin mun ég aldrei gleyma.

Á kveðjustundu er hjartað fullt af dýrmætum minningum um mann sem átti engan sinn líka og auðgaði líf fólksins í kringum sig svo um munar. Hans verður sárt saknað.

Elsku Tobba og fjölskylda, megi hlýja og kærleikur umvefja ykkur í þessu stóra verkefni. Ég veit að þið haldið þétt utan um hvert annað og yljið ykkur við allar fallegu minningarnar um Sigga.

Lára Hafberg og fjölskylda.

Það er ekki oft sem maður eignast vini eftir að vera kominn á miðjan aldur. Það gerðist þegar við fjölskyldan eignuðumst fyrir tilviljun hús vestur á Flateyri. Þá tók á móti okkur elskulegur og kærleiksríkur maður með opinn faðm. Þetta var vinur okkar Sigurður Hafberg. Siggi var einstakur maður; ljúfur, kátur og skemmtilegur. Alltaf boðinn og búinn að hjálpa okkur og öðrum í öllum verkefnum. Hann var á sinn hógværa og glaðlynda hátt andlit þessa fagra og góða þorps. Hann var allt í senn frumkvöðull, máttarstólpi og sál þess. Hann skilur eftir sig stórt skarð. Það er tómlegt hjá okkur Flateyringum.

Við munum ekki oftar koma til hans í Skúrina eða hitta hann yfir glasi á Vagninum þar sem hann var alltaf reykjandi þótt hann væri nýhættur að reykja. Siggi mun ekki oftar sigla á tveggja manna kajak með Sigrúnu Erlu dóttur okkar um spegilsléttan Önundarfjörðinn. Við munum ekki oftar súpa úr hans glasi og syngja með honum Megas. Það er skarð fyrir skildi.

Við vottum aðstandendum hans okkar dýpstu samúð.

Blessuð sé minning Sigurðar Hafbergs.

Runólfur Ágústsson og Áslaug Guðrúnardóttir.

Það var haustið 2018 sem við kynntumst almennilega hve miklir snillingar þau Siggi og Tobba voru. Við fórum með þeim ásamt fleiri vinum í helgarferð til Grænlands og hittum þar fyrir Hannibal. Þar sáum við hve frábær og samheldin þessi fjölskylda var og þau breyttu því sem hefði verið góð ferð í hreint frábæra ferð. Þarna kynntumst við þeirri væntumþykju sem ríkti á milli þeirra og þess skemmtilega húmors sem var þeirra á milli. Einn daginn fórum við í dagssiglingu til Qaqortoq og svo Alliutsup Paa. Sérlega minnisstætt var hve ákveðinn Siggi var í að fara í náttúrulaugina í Uunartoq. Um leið og komið var í land lá við að hann hlypi upp að lauginni og skellti sér ofan í, meðan við hin hugsuðum, „æi við förum bara næst“ og rétt dýfðum tánum í vatnið. Siggi vissi sem var að það er ekki öruggt að það verði eitthvað næst.

Það er mikill missir að honum Sigga því hann var uppátækjasamur og alltaf til í að leggja því lið sem auðgað gat mannlíf í kringum hann. Hann var mikill áhugamaður um uppbyggingu á Flateyri og vildi allt gera til að efla atvinnu- og mannlíf á staðnum. Hann studdi stofnun Lýðskólans með ráðum og dáð og aðstoðaði á allan þann veg sem mögulegt var. Hann studdi líka stofnun Skúrinnar, samfélagsmiðstöðvar, heilum hug og hvatti mjög til þess sem til framfara var í samfélaginu.

Takk fyrir að kenna okkur á kajak kæri vinur og takk fyrir ófáar gæðastundir í skúrinni þinni. Þú skilur eftir stórt skarð í röðum okkar Flateyringa.

Við vottum Tobbu og börnum og barnabörnum þeirra Sigga okkar dýpstu samúð.

Hvíl í friði kæri vinur.

Óttar og Ingibjörg.

Ég man ekki nákvæmlega hvernig fyrstu kynni okkar Sigga voru, þegar við fjölskyldan byrjuðum að venja komur okkar á Flateyri fyrir rétt rúmum áratug. Ég sé það eiginlega þannig fyrir mér að við höfum sennilega bara rennt inn í þorpið og það fyrsta sem við sáum hafi verið ryðbrúnn jepplingur sem kom fyrir hornið – mögulega á tveimur hjólum – sem snarstoppaði þegar við mættumst; rúðan fór hratt niður og einhver krúttlegur kall bauð okkur bara strax hjartanlega velkomin. Með hvellri röddu og skelmisglotti á vör.

Þannig móment hafa að minnsta kosti verið óteljandi mörg, þar sem Siggi opnaði rúðuna og faðminn og lét manni finnast maður vera mjög velkominn á eyrina. Þó maður væri nýr. Og svo eru það öll hin mómentin sem komu með árunum, stórskemmtilegar samverustundir, hér og þar í þorpinu, og ekki sjaldan á helstu félags- og menningarmiðstöðvum Flateyrar, á Vagninum eða í skúrinni.

Sigga leiddist nefnilega ekki að kynnast nýju fólki, selskapsmaðurinn sem hann var. Hann var með opið hjarta, tók öllum vel og setti sig ekki á háan hest. Hann sótti í líf og fjör. Alltaf til í eitthvert brall, alltaf til í eitthvert vesen. Glaðsinna, já. Hvatvís, já. Alltaf búinn að hugsa allt til enda, nei.

En þannig gerast jú hlutirnir. Þannig stofnar maður til ferðaþjónustu í afskekktu þorpi. Þannig heldur maður úti kajakleigu og gistingu, þannig stofnar maður kaffihús í gamla sparisjóðnum við bryggjuna. Þannig fer maður út á sjó með kannski hálfbilaðan mótor. Þannig gerir maður skautasvell. Þannig ákveður maður að fjármagna plötuútgáfu fyrir eitthvert þriggja manna band sem datt inn á Vagninn fyrir 30 árum. Bein leið er leiðin, og þó leiðin sé ekki alltaf greið, gefst maður aldrei upp.

Og þessu opna hjarta fylgdi auðvitað greiðvikni og hjálpsemi. Siggi var alltaf reiðubúinn að hjálpa. Það gat snúist um að festa lyftara í snjókrapi upp við hesthús með píanó á gafflinum. Eða renna við í Bergshúsi, gauka dýrðarinnar harðfiski að þreyttu vinnufólki og blása þeim byr í brjóst: Helvíti er þetta að verða flott hjá ykkur. Fatta svo eftir hálftíma spjall að bíllinn er í gangi úti á miðju Hafnarstræti og kominn skafl í bílstjórasætið. Alltaf til í að grípa bjór þegar tækifæri gafst. Af hverju ekki að gefa upp fyrriparta og botna þá sjálfur á svipstundu? Taka Megas, skella úr góm, ekki málið. Ekki vandamálið að renna niðreftir og opna Bryggjukaffi svo menn geti séð leikinn. Er ekki bara best að þið hafið bara lykilinn – ég verð fyrir norðan næstu dagana. Viljiði ekki fá kajakana líka?

Magnað hvað einn maður getur verið heilt þorp. Og hvernig heilt þorp getur rúmast í einum manni. Elsku Siggi skilur eftir sig stórt skarð en við huggum okkur við minningar um svo eftirminnilegan og dásamlegan mann. Við Þórunn sendum Tobbu og fjölskyldu, og bara öllum þeim sem elskuðu Sigga, okkar dýpstu samúðarkveðjur.

Júlíus Þorfinnsson.

Elsku Siggi Habb. Okkur finnst leiðinlegt að þú sért farinn og við getum ekki heilsað þér aftur, sagt hæ og spjallað við þig. En allar góðu minningarnar um þig gleðja okkur.

Þú varst alltaf glaður og hafðir gaman af því að taka þátt í alls konar sprelli.

Þú varst mikill brandarakarl og einn af þínum eftirminnilegu hæfileikum var að þú gast ropað stafrófið.

Þú kenndir okkur m.a. stærðfræði en þér fannst það stundum erfitt því okkur fannst hún ekki alltaf eins skemmtileg og þér. Þú varst alltaf tilbúinn til að aðstoða okkur en á einhvern undarlegan hátt þá var blýanturinn horfinn þegar við ætluðum að halda áfram að reikna. Algjör blýantaþjófur.

Þú áttir mörg skemmtileg áhugamál sem þú deildir með okkur og smitaðir áhuganum til okkar. Þú fylgdist vel með öllum fréttum og deildir þeim með okkur og hvattir okkur til að fylgjast vel með umhverfi okkar. Þú varst mikill skákmaður og var það fastur liður á dagskránni að tefla og munum við halda því áfram. Ljóð voru þínar ær og kýr og barstu heilu ljóðasöfnin upp í skóla sem við lásum upp úr. Við fengum líka að kynnast sjónum vegna áhuga þíns, fórum að veiða á bryggjunni, fórum á Einfara með þér og fórum á kajak.

Við getum ekki minnst þín án þess að tala um skautaáhugann þinn. Það eru örugglega ekki margir skólar sem hafa skautasvell á skólalóðinni og eiga margfalt fleiri skautapör en nemendurnir eru enda fórst þú ekki svo í frí norður að þú kæmir ekki með nokkur skautapör til baka. Það kom þó fyrir að pörin voru ekki samstæð því þú varst stundum dálítið utan við þig. Við sjáum þig fyrir okkur standandi með slönguna að búa til svell svo við gætum notið þess að skauta.

Elsku Tobba, Íris, Sævar, Hannibal, tengdabörn og barnabörn, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þið voruð alltaf ofarlega í huga Sigga og sagði hann okkur stoltur af því sem þið voruð að fást við. Okkur fannst gaman að fá að koma og leika við barnabörn Sigga.

Samúðarkveðjur.

Fyrir hönd nemenda og starfsfólks Grunnskóla Önundarfjarðar,

Kristbjörg Sunna Reynisdóttir.

Það rennur allt til – eins og blek – á tárum vættri örk. Hvernig á að koma því til skila hvað hann var; athafnaskáldið og erki-Flateyringurinn Sigurður Hafberg? Einfaldast að halda því fram að hann hafi verið angi af náttúruafli, farvegur anda sem er bæði önfirzkur og flateyrzkur en í holdinu kjarnyrt táknmynd þolgæðis og tryggðar. Glottandi útgáfa af þolinmæðinni. Alltaf stakt blik af bjartsýni í augnkróknum; alltaf möguleiki.

Tilveran verður ekki söm undir því bláleita loki sem himinninn er hinum tignarlega firði. Fyrst eins og grein hafi verið sörguð af sagna-arfi þorpsins; seinna vitundin um að greinarnar eru þær rætur sem næra samvitundina. Það sem þrífst á „þessum stað“. Mörg erum við bundin „þessum stað“ böndum, en þau færri sem settu alltaf undir sig höfuðið og héldu á þegar syrti. Lögðu allt undir og héldu áfram. Í hina flateyrzku mynd af mannlífi við yzta haf er hoggið svo hriktir í stoðum; dragsúgur smýgur um Skúrina einsog ætli að ræna andrúmsloftinu: Skellur.

Það dregur fyrir sólu og yfir sumra spor, en ekki Sigga. Þau eru svo djúp að við þurfum ekki að örvænta. Þó hann virðist vanta um stund þá vorar og tárin verða að mildum saltkeim á vörunum.

Fyrir stafni liggur himinninn í fjarðarmynninu. Kallinn er lagður á en vitið til, þó hann sé úr sjónmáli – handan við Oddann um stund – þá sjáum við brátt leika, eins og flekk á bárunni, Tvífara gamla á leið út að Klofning að leggja net. Þá verður vor & fengur í vændum. Kajakinn, kennarinn, gleðigjafinn og skákarinn; hinn brosmildi höfðingi af Skúrinni rífur úr kistunni og roðflettir í sama handtaki; hvað sem þig vantar, bútung, ríkkling eða rauðmaga; stillans, skrúfu, skauta, eldvörpu eða sláttuvél. Æ! það er átakanlegt að telja það saman; hverju Siggi gæti alltaf reddað?

Sögn segir að þegar mikil sál skilji við hold sitt þá losni úr læðingi mikil orka og hún reyni að finna sér farveg um þau sem eftir standa. Svo það er bara eitt að gera. Opna faðminn & anda svo firðinum að sér eins og Siggi hefði gert. Hann stóð opinn fyrir þessum firði eins og fjörðurinn honum. Saman þolað margt. Elsku Tobba, maður verður mállaus um stund; það eru rifin upp gömul sár þegar svona er hoggið og helmingað. Það má ekki við missi fleiri frumbyggja úr veröld sem væri ekki það ævintýr sem hún er, nema vegna þess að þar nýtur fólks við sem gefur af sér og er mikið gefið. Æðrulaus og viljug til að vera farvegur þess góða; þess sem gæti heppnast! Ef fólk hjálpast bara að og lætur það gerast sem þarf að verða?

Siggi er skroppinn úr Skúrinni og skemmtir nú englum. Himinfögur hersing beið við brúnir Þorfinns þegar sól reis & hann bjó fley sitt. „Þið verðið að reyna þetta án mín“ gæti hann hafa sagt en við vitum samt að hann er með í anda. Og einhver saga, létta lundin, rétti naglinn og innilegur hláturinn; hann mun koma okkur í gegnum þetta eins & allt hitt; og trú á Guð.

Elsku Tobba og allt þitt fólk; verið viss um að við reynum að vera – eins og kallinn – til staðar, alltaf einhversstaðar, þegar á þarf að halda.

Arnaldur Máni.

Við norðanverðan Önundarfjörð er kauptúnið Flateyri á samnefndri eyri. Þarna hófst verslun 1792 og stýrði henni Daníel Steenback. Eftirmaður hans var Friðrik Svendsen, mikill athafnamaður. Eftir lát hans keypti Torfi Halldórsson eignir hans og hefur Torfi verið nefndur faðir Flateyrar. Dóttir hans var Guðrún, móðuramma þeirra mætu systkina Einars heitins Odds og Jóhönnu Kristjánsbarna.

Hinn 26. október 1995 var sá skelfilegi hörmungaratburður, að snjóflóð hljóp á plássið. 20 manns fórust, en 25 var bjargað.

Þegar í stað hófst feikimikil endurreisn hins blómlega byggðakjarna. Í því verki voru fremst meðal jafningja sæmdarhjónin Sigurður Hafberg og Þorbjörg Sigurþórsdóttir. Sigurður var lengi skipverji á togaranum Gylli Ís., sem gerður var út frá Flateyri. Síðar stofnaði hann myndarlega til viðtöku ferðafólks, bjó því náttból, rak gildaskála, lánaði róðrarbáta og sparaði hvorki, tíma, fé né fyrirhöfn til þess að gera gestum heimsókn til Flateyrar ánægjusamlega.

Sigurður var raunar einstakur maður. Vinátta hans var svo traust við þá, sem hann tók tryggð, að kalla mátti öruggan skjólvegg. Hann var aldrei bældur, heldur frjáls og óbundinn í framkomu og máli – og snöggur að taka við sér í ávarpi. Gæddur var hann ríkulegri spauggreind, ávallt glaðhittinn og flink hermikráka.

Þau hjónin, Sigurður og Þorbjörg, báru hlýjan hug til sóknarkirkjunnar, sem teiknuð var af Einari Erlendssyni, en dr. Jón Helgason biskup vígði hinn 26. júlí 1936. Þorbjörg sat í sóknarnefnd og var til mikilla þrifa þar. Fyrir forgöngu hins dugandi safnaðarformanns, Steinars Guðmundssonar, var afráðið að byggja við kirkjuna fatahengi og snyrtingu sitt hvorum megin við forkirkju, en skrifstofu, fundasal, snyrtingu og geymslu að kórbaki. Verktaki var heiðursmaðurinn Eiríkur Guðmundsson í Sporhamri h.f. á Flateyri.

Á næstliðinni öld þótti ýmsum sóknarprestar Önfirðinga heldur pokar. En þar í móti kom, að Flateyringar áttu því láni að fagna undir aldamótin, að héraðslæknirinn var nokkuð jafnvígur á lækniskúnstir sínar og guðsþjónustur í kirkjunni.

Flateyringar voru kirkjuræknir mjög. Breytti þá engu, hvort um var að ræða almenna guðsþjónustu eða barnasamkomu. Hreppsnefndarmenn og forkólfar í atvinnulífinu sóttu ekki síður barnamessur af kappi af því að þeir voru svo spenntir að fylgjast með framhaldssögunni. Eftirsóttasti starfi í barnaguðsþjónustunni var embætti brjóstsykursstjóra. Skyldi hver kirkjugestur fá einn mola að bæta sér í munni. Eftirminnilegur brjóstsykursstjóri er fallegur glókollur, sonur þeirra Sigurðar og Þorbjargar, sem nú er orðinn sjávarútvegsfræðingur. Honum kippti í kynið, því að undir hans stjórn fengu menn tvo mola áður héldu heim, glaðir í Guði sínum.

Við felum svo Guði á vald okkar kæra vin og bróður og biðjum honum blessunar þar sem nýr himinn og ný jörð leysa af hólmi hið forgengilega, af því að hið fyrra er farið – þar sem hvorki harmur né kvöl né vein er framar til. Megi okkur öllum hlotnast sú náð, sem fyrirheit Drottins boða okkur, að við fáum að sameinast á ný í dýrð og fögnuði upprisunnar fyrir heilaga trú. „Moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, en andinn fer til Guðs sem gaf hann.“ Guð blessi minningu Sigurðar Jóhanns Hafberg. Hann verndi og styrki ástvini hans alla. Í Jesú nafni.

Gunnar Björnsson,

pastor emeritus.