Magnús Ægir Magnússon.
Magnús Ægir Magnússon.
Magnús Magnússon: "Passað var vel upp á að hinir „mörgu“ beittu hina „fáu“ ekki ofríki."

Þessi orð flugu í gegnum hugann þegar ég las fréttir nú nýverið um að bæjarstjórn sveitarfélagsins Voga héldi Suðurnesjalínu 2 enn í gíslingu, hefði enn ekki afgreitt umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi fyrir línunni og hefði ekki í hyggju að flýta sér neitt sérstaklega hratt með afgreiðslu málsins. Í desember síðastliðnum var afgreiðslunni enn og aftur frestað og sagt að ætlunin væri að skoða það og ræða núna í janúar, skoða málið enn og aftur, ræða málið enn og aftur. Það er í reynd aumkunarvert að horfa upp á þessa endemis þvælu og þennan skrípaleik ár eftir ár.

Hin „vandaða“ stjórnsýsla

Stóru sveitarfélögin, Grindavík, Hafnarfjörður og Reykjanesbær, sem línan á að liggja um auk Voga, hafa afgreitt málið fyrir löngu. Fyrir mörgum árum. En ekki Vogar því þar er enn verið að skoða og spekúlera með þá arfavitlausu hugsun að leiðarljósi að „vönduð“ stjórnsýsla eigi að taka sem allra lengstan tíma, helst mjög mörg ár eða áratugi, til að hægt sé að segja að hún sé „vönduð“.

Greiðslurnar frá Landsneti

Ekki varð ég minna undrandi þegar ég las það að Vogamenn hefðu þegar samið við Landsnet um bætur vegna línunnar þar sem hún fer yfir land í eigu sveitarfélagsins og þegar tekið við greiðslu. Já þegar tekið við greiðslu eins og mikill meirihluti landeigenda á línuleiðinni hefur víst einnig gert. Ég hélt að Spaugstofan væri löngu hætt.

Raforkuöryggið

Allir vita að raforkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum er eins og tifandi tímasprengja sem sprungið getur hvenær sem er þannig að raforka fari af svæðinu. Allir vita og ekki um deilt að afhending raforku til Suðurnesja er í dag mjög óörugg og lítið þarf að koma upp á til að rafmagn fari af svæðinu. Allir ættu einnig að vita að Suðurnesjalínu 2 er ætlað að tryggja að Landsnet, sem óskaði eftir framkvæmdaleyfinu, geti komið raforku á sem öruggastan máta til byggðanna á Suðurnesjum. Fáir deila um það að brýna nauðsyn ber til að auka afhendingaröryggi og flutningsgetu á raforku til Suðurnesja, bæði til heimila og fyrirtækja á svæðinu og þar með Keflavíkurflugvallar sem meira en tvær milljónir ferðamanna fara nú um árlega. Til viðbótar óörygginu er nú svo komið að nýjum fyrirtækjum sem óskað hafa eftir raforku til að hefja starfsemi á svæðinu hefur verið synjað um raforku því aðgengi að henni er ekki fyrir hendi. Gæfulegt fyrir uppbyggingu á Suðurnesjum og alla þá sem þar búa, eða hvað?

Íbúatalan

Árið 2022 bjuggu um 29.000 manns á Suðurnesjum, í Grindavík, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Vogunum. Þar af bjuggu 1.300 manns í Vogum eða 4,5% af íbúafjölda svæðisins. Já 4,5% íbúa. Fyrir allmörgum árum bjó ég í Keflavík og var þá virkur þátttakandi í pólitísku starfi á Suðurnesjum. Á þeim tíma var þegjandi samkomulag meðal sveitarstjórnarmanna á þessu svæði um að passa upp á að Vogamenn, þótt þeir ættu ekkert tilkall til þess sökum smæðar, fengju alltaf fulltrúa til setu í sameiginlega reknum fyrirtækjum og stofnunum í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjunum svo sem Hitaveitu Suðurnesja. Vogarnir voru þá eins og nú lítið sveitarfélag. Passað var vel upp á að hinir „mörgu“ beittu hina „fáu“ ekki ofríki. Ég velti því fyrir mér hvort Vogamenn séu búnir að gleyma þessu í dag. Held reyndar að þeir séu löngu búnir að gleyma þessu, steingleyma.

Hið nýja laxeldi og rafmagnið

Að lokum. Nú les maður um það í blöðum að Vogamenn, í samvinnu við fyrirtækið GeoSalmo, ætli sér í mikla uppbyggingu á laxeldi í landi Voga sem yrði langstærsti vinnuveitandi í sveitarfélaginu ef af yrði. Ég vona svo sannarlega að þau áform gangi eftir, Vogamönnum til heilla, en spyr mig um leið hvort Vogamenn átti sig á því að það þarf rafmagn til að þessar fyrirætlanir gangi eftir, meðal annars línur á vegum Landsnets!

Grein þessi var skrifuð fyrir hinn örlagaríka mánudag, 16. janúar 2023, daginn sem rafmagnið fór af Suðurnesjum.

Höfundur er rekstrarhagfræðingur, fæddur og uppalinn í Keflavík.

Höf.: Magnús Magnússon