Valdís Árnadóttir fæddist 16. júní 1938. Hún lést 10. janúar 2023. Útför hennar fór fram 20. janúar 2023.

Valdís Árnadóttir hafði þægilega nærveru, var hófstillt í framgöngu, samviskusöm og vandvirk. Henni var annt um að snyrtilegt væri á skrifstofunni og þar vildi hún hafa blóm.

Við unnum heilmikið og náið saman á árunum 1988-1995. Ég þá kominn á ný að Háskóla Íslands að loknu framhaldsnámi og doktorsprófi í Svíþjóð. Hlutskipti mitt í fyrstu varð stundakennsla, en ekki síður ýmis störf tengd stjórnsýslu og ritstjórn. Valdís var fulltrúi og ritari við guðfræðideildina, og vann með mér á 3. hæð Aðalbyggingar Háskólans, bæði er ég varð skrifstofustjóri þar 1990 og ekki síður er ég tók að mér ritstjórn Ritraðar Guðfræðistofnunar og forstöðu í Guðfræðistofnun sama ár. Í öllum heftum Ritraðar Guðfræðistofnunar á árunum 1988-1994 er hún sögð ábyrg fyrir „tölvuskrift“ ritanna. Það átti við um afmælisrit Þóris Kr. Þórðarson (1994) og var það vel við hæfi því að hún hafði unnið mikið fyrir hann og liðsinnt, m.a. í þeim alvarlegu veikindum sem hrjáðu hann frá 1990 og drógu hann til dauða 1995. Ég veit að hann mat mikils hennar miklu hjálp og vinsemd. Það sama gilti um aðra kennara deildarinnar sem allir voru karlar á þeim árum.

Valdís kom með kvenlega og hlýlega vídd inn í þetta karlasamfélag og sjálfur man ég velvild hennar, stundum næstum eins og móðurlegrar umhyggju. Ég minnist Valdísar gestkomandi á heimili mínu úti á Seltjarnarnesi og sömuleiðis er minnisstætt er við þrír kennarar deildarinnar ásamt með Árna bróður hennar heimsóttum Valdísi og Guðmund mann hennar í bústað þeirra hjóna og gengum þar að glæsilegu kaffiborði. Ég minnist með þakklæti góðrar og trúrrar samverkakonu sem oftar en ekki var með ástúðleg hvatningarorð á vörum. Guð blessi minningu Valdísar Árnadóttur og styrki ástvini hennar í sorginni.

Gunnlaugur A. Jónsson.