Jón Sigurbergur Kortsson fæddist á Torfastöðum í Fljótshlíð 30. apríl 1939. Hann lést á Fossheimum á Selfossi 4. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Kort Eyvindsson, f. 1. desember 1901, d. 21. ágúst 1964, og Ingibjörg Jónsdóttir, f. 17. mars 1909, d. 23. janúar 2001. Systur Bergs eru Jóna Guðrún, f. 28. febrúar 1934, d. 11. nóvember 2021, og Eygló, f. 29. maí 1940. Fósturbróðir hans var Gunnar Ingi Birgisson, f. 30. september 1947, d. 14. júní 2021.

Maki Bergs var Guðleif Selma Egilsdóttir, f. 31. mars 1942, d. 3. júní 2020, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Eyvindur, f. 9. mars 1961 á Selfossi, dætur hans eru Stefanía Kristín og Katrín Þóra, barnabörn hans eru fimm. 2) Kristín Auður, f. 17. janúar 1962 á Selfossi, börn hennar eru Ólafur og Petrún. 3) Yngvi Karl, f. 9. janúar 1963 á Torfastöðum í Fljótshlíð. Börn hans eru Þóra Björg og Þórbergur Egill. 4) Lilja Sólrún, f. 25. febrúar 1964 á Selfossi. Dóttir hennar er Guðbjörg Esther. Barnabörn hennar eru fimm. 5) Ingibjörg Guðmunda, f. 26. september 1972 á Selfossi. Dætur hennar eru Selma Fönn og Elva Ísey. 6) Ólöf Guðrún, f. 6. maí 1976 í Reykjavík. Sonur hennar er Sigfús.

Bergur ólst upp á Torfastöðum í Fljótshlíð og þar gekk hann í grunnskóla en síðar fór hann í Iðnskólann á Selfossi þar sem hann nam bifvélavirkjun. Hann bjó á Torfastöðum til ársins 1973 og aðstoðaði aðra bændur með ýmis verkefni, meðal annars í heyskap og viðgerðir á tækjum og traktorum. Hann flutti á Hvolsvöll og síðar til Hveragerðis. Snemma byrjaði hann að vinna sem sjálfstæður bifvélavirki og var það lengst af hans aðalstarf. Einnig sinnti hann öðrum störfum, meðal annars sem vörubílstjóri og í nokkur ár rak hann bílaleigu og steypustöð. Bergur var einkar greiðvikinn, handlaginn og útsjónarsamur og fá verkefnin sem hann gat ekki leyst. Hann var mikill náttúruunnandi og áhugamaður um fugla.

Útförin fer fram á Breiðabólstað í dag, 21. janúar 2023, klukkan 14.

Elsku pabbi, það sem ég á eftir að sakna þín! Takk fyrir að vera til staðar fyrir mig þegar ég þurfti á því að halda. Takk fyrir að hlusta á blaðrið í mér í tíma og ótíma. Takk fyrir að vera pabbi minn og einn af mínum bestu vinum á sama tíma. Við höfum ansi oft setið og spjallað um heima og geima, með góðum þögnum á milli, sem urðu aldrei vandræðalegar. Það er í mínum huga merki um hversu gott við höfðum það saman.

Við höfum brallað ýmislegt saman, ferðast, farið á fótboltaleiki (sem var nú alls ekki þín hugmynd) og þú fórst líka á tónleika með kórnum mínum, þar sem við fluttum ný kórverk, frekar framúrstefnuleg og skrítin (sem var heldur ekki smekkur þinn), en þú lést þig hafa þetta allt með jafnaðargeði og jafnvel brosi á vör og alltaf varstu tilbúinn í ný ævintýri.

Lengi vel ætlaði Sigfús minn að verða bifvélavirki eins og afi því hann vildi vera jafn sterkur og afi og gera við hluti. Framtíðarplön hans hafa eitthvað breyst núna, en það er sama hvað gerist, ef eitthvað bilar hjá okkur, þá segir hann alltaf: ég er viss um að afi gæti gert við þetta. Sem er alveg rétt.

Nú ertu kominn aftur í sveitina, ég veit að það mun fara vel um þig.

Ástarkveðjur!

Þín yngsta stelpa,

Ólöf.