Júlíus Sólnes
Júlíus Sólnes
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Júlíus Sólnes: "Fótspor vindmyllugarða í náttúrunni er gríðarlegt og umhverfisáhrif þeirra mikil."

Nú ætla margir að verða ríkir á því að byggja stóra vindmyllugarða á Íslandi. Æsingurinn minnir einna helst á loðdýrarækt og fiskeldi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, sem átti þá að bjarga efnahag landsmanna. Menn muna hvernig það fór. En af hverju ekki vindmyllur? Skapa þær ekki græna, vistvæna orku? Um það má deila. Fótspor vindmyllugarða í náttúrunni er gríðarlegt og umhverfisáhrif þeirra mikil. Þá þarf að nýta sjaldgæf jarðefni og málma til smíði þeirra, sem verða ekki sótt nema með miklu umhverfisraski og flutningum. Einnig hefur verið talað um að förgun aflóga vindmyllu, einkum spaðanna, valdi miklum umhverfisspjöllum.

Russel Schussler er bandarískur rafmagnsverkfræðingur sem hefur starfað lengi við rafmagnsdreifingu í suðurríkjum Bandaríkjanna. Hann hefur skrifað mikið um vind- og sólarorku og bent á kosti og galla. Vind- og sólarorka getur verið góð viðbót við raforkukerfi þjóða fyrir hinn almenna markað. Vind- og sólarorka er, eðli sínu samkvæmt, stopul orka. Iðnvædd þjóðfélög þurfa hins vegar trausta og stöðuga grunnorku til að fullnægja þörfum iðnaðarframleiðslu sinnar. Hún fæst nú aðeins með a) vatnsaflsvirkjunum, b) orkuverum, sem brenna jarðefnaeldsneyti og c) kjarnorkuverum. Þá bendir Russel á að mjög flókið og erfitt geti verið að bæta vindmylluorku inn í fyrirliggjandi dreifikerfi raforku. Það geti kallað á mikla endurbyggingu þeirra. Að ætla að byggja verksmiðjur sem eiga eingöngu að fá orku frá nærliggjandi vindmyllum getur varla verið skynsamlegt.

Athugun á vindmyllum til orkuframleiðslu fóru fram á vegum Raunvísindastofnunar HÍ fyrir um 40 árum. Þá voru Danir að hefja framleiðslu á vindmyllum til orkuframleiðslu sem hafa reynst vel. Aðstæður voru mjög hagstæðar í Danmörku, mun betri en á Íslandi. Hér getur veður verið alltof vont, dögum saman, fyrir vindmyllurekstur, og stundum koma miklar vetrarstillur þar sem ekki hreyfir vind. Þótt risavindmyllur nútímans séu undratæki sem þola mikið er ekki víst að veðurskilyrði á Íslandi séu sérlega hagstæð fyrir vindmyllurekstur. Það er því rétt að fara sér hægt í þeim efnum, rétt eins og Landsvirkjun hefur gert.

Við Íslendingar ráðum yfir miklu vatnsafli (miðað við fólksfjölda) og ekki fæst betur séð en við gætum auðveldlega útvegað þær 2-3 teravattstundir sem þarf til þess að ljúka orkuskiptum á Íslandi með vatnsafli. Við þurfum því engar vindmyllur til þess. Jú, ég hef heyrt af miklum draumum um stórar verksmiðjur hér til framleiðslu á rafeldsneyti, og þá þurfi allt að 16-18 teravattstundir. Við ætlum kannski einnig að framleiða þotuhreyflana og skipsvélarnar sem eiga að ganga fyrir rafeldsneyti? Við erum svo klárir og stórhuga! Þegar allt kemur til alls þykir mér ólíklegt að það gerist.

Þegar stóru þjóðirnar verða tilbúnar til þess að skipta yfir í rafeldsneyti mun þurfa þvílíkt magn þess að ekki nema brotabrot af því gæti verið framleitt á Íslandi. Ætli risastór kjarnorkuver verði ekki byggð til þess, bæði í Evrópu og víðar. Við ráðum nefnilega ekki yfir svo miklu virkjanlegu vatnsafli á heimsmælikvarða. Sjö Evrópuþjóðir eiga meira óvirkjað vatnsafl en Íslendingar, Rússland (langmest), Noregur, Svíþjóð, Frakkland, Ítalía og Sviss (álíka mikið og Ísland). Þessar þjóðir hyggjast samt ekki bjarga heiminum með því að virkja vatnsföll sín fyrir mengandi stóriðju (nema ef til vill Rússland). Ísland er ekki í hópi þeirra 20 þjóða sem framleiða mest rafmagn með vatnsorku í heiminum. Bólivía er í 20. sæti með 120 teravattstundir framleiddar í vatnsaflsvirkjunum. Við framleiðum rétt um 20 teravattstundir.

Ef okkur vantar meira rafmagn má alveg hugsa sér að láta raforkuverðssamninginn hjá elsta álverinu renna út. Það er besti virkjunarkostur Íslands, sagði einn góður maður í ræðustól á Alþingi margt fyrir löngu.

Höfundur er fv. umhverfisráðherra.

Höf.: Júlíus Sólnes