Anton Sigurbjörnsson fæddist 14. desember 1933 á Nefstöðum í Fljótum. Hann andaðist á sjúkradeild HSN á Siglufirði 4. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Sigurbjörn Bogason, f. á Minni-Þverá í Fljótum 3. september 1906, d. á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 8. nóvember 1983, og Jóhanna Antonsdóttir, f. á Deplum í Fljótum 9. desember 1913, d. á sjúkrahúsinu á Siglufirði 1. nóvember 2004. Sigurbjörn og Jóhanna hófu búskap á Gili í Fljótum og bjuggu þar í eitt ár, frá 1935-1936, er þau fluttu að Nefstöðum og bjuggu þar í tvö ár, frá 1936-1938, í sambýli við bróður Jóhönnu, Guðmund. Árið 1938 fluttu þau að Skeiði í Fljótum. Þar sleit Anton barnsskónum.

Systkini Antons eru Bogi Guðbrandur, f. 1937, d. 9. desember 2013, Guðrún, f. 1942, Kristrún, f. 1947, d. 30. desember 2020, Stefanía, f. 1949, Jón, f. 1950, og Ásgrímur, f. 1956.

Eiginkona Antons var Pálína Frímannsdóttir, f. 10. janúar 1935, d. 16. júlí 2022. Þau gengu í hjónaband 31. desember 1962. Börn þeirra eru: 1) Karólína f. árið 1954, maki hennar er Jóhannes Arelakis, synir þeirra eru tveir og barnabörnin fimm. 2) Sigurbjörn Ragnar, f. 1958, maki hans er Sigurbjörg Gunnólfsdóttir, dætur þeirra eru tvær og barnabörn tvö. 3) Jósefína Viktoría, f. 1961, maki hennar er Halldór Svavarsson, börn þeirra eru fjögur og barnabörn þrjú. 4) Gestur Friðfinnur, f. 1963, maki hans er Steinunn Gunnarsdóttir og börn þeirra eru þrjú talsins og barnabörnin sjö. 5) Kristinn Bogi, f. árið 1970, maki hans er Guðrún Pálína og þau eiga fjögur börn og fjögur barnabörn. 6) Ásgrímur Finnur, f. 1977, maki hans er Jiraporn Antonsson og börn þeirra eru fjögur.

Anton gegndi ýmsum störfum um ævina, var m.a. á yngri árum á vertíðum í Vestmannaeyjum og hjá hernum á Keflavíkurflugvelli og þar af um tíma í Aðalvík á Hornströndum, nánar tiltekið á Straumnesfjalli. Einnig var hann í mörg ár í Sútarafélaginu á Siglufirði. Eftir það vann hann hjá Kaupfélagi Siglufjarðar, uns það leið undir lok, og í beinu framhaldi hjá Mjólkursamsölunni, sem varð svo að útibúi Kaupfélags Eyfirðinga. Við það var hann jafnan kenndur, eða Toni í Kaupfélaginu. Þar vann hann við útkeyrslu og fleiri störf lengi. Síðast starfaði hann svo hjá Versló á Siglufirði, við útkeyrslu og verslunarstörf.

Útför Antons verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag, 21. janúar 2023, kl. 11.

Þá er Toni bróðir kominn í sumarlandið og hittir þar konu sína sem hann hafði hugsað svo vel um í veikindum hennar síðustu árin svo eftir var tekið. Toni og Palla lifðu fyrir börnin sín og það gladdi þau mjög þegar þeim gekk vel og voru ávallt tilbúin að hjálpa til þegar þau gátu. Eftir að Palla dó hafði Toni orð á því að nú væri hann sáttur og tilbúinn að yfirgefa þennan heim eftir að hafa komið börnum sínum til fullorðinsára og getað hjálpað konu sinni í erfiðum veikindum.

Haustið 1959 flutti Skeiðsfjölskyldan úr Fljótum að Lindargötu 17 (Nefstöðum) á Siglufirði. Toni og Palla hófu búskap á neðstu hæðinni, við á miðhæðinni og Bogi og Helga á efstu hæðinni. Fljótlega hófu Toni og Palla að byggja sér einbýlishús á Laugarvegi 36 í Siglufirði og bjuggu þar allan sinn búskap þar til þau vistuðust á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði síðustu árin.

Fljótlega eftir flutning til Siglufjarðar komu Toni og pabbi sér upp fjárstofni sem var aðaláhugamál þeirra þar til pabbi dó árið 1983. Á hverju ári stjórnaði Toni fjárgöngum á Siglunesi og varð síðan réttarstjóri síðustu árin og ekki var deilt um hver væri stjórinn þegar um smalamennsku var að ræða.

Toni var mikill áhugamaður um bridge og vann til margra titla með bræðrasveitinni frá Siglufirði. Oft var kapp meira en fyrirhyggja og oft lentum við í erfiðleikum við að komast á mótsstað eða heim aftur vegna ófærðar en erfiðleikarnir gleymdust fljótt, sérstaklega ef vel gekk í spilunum. Ég læt fylgja spilastokk ef vera kynni að hann hitti Boga bróður, spilafélaga sinn.

Toni var verklaginn maður og þurfti sjaldan á aðstoð fagmanna að halda þar sem hann gerði sjálfur það sem gera þurfti á heimili hans. Hann var greiðvikinn og hjálpsamur sama hver átti í hlut. Hann var góður veiðimaður og kom oft með góðan afla úr Fljótaánni sem kom sér vel fyrir stóran krakkahóp á sumrin þegar við áttum heima á Skeiði. Hann var líka verndarinn minn þegar að mér var sótt í deilum milli okkar krakkanna og alltaf stóð hann með mér og kann ég honum bestu þakkir fyrir.

Fjölskyldu Tona votta ég mína dýpstu samúð en ég veit að þegar fram líða stundir mun minningin um góðan pabba, tengdapabba, afa og langafa lifa.

Hvíl þú í friði kæri bróðir.

Jón Sigurbjörnsson.

Á kveðjustund hvarflar hugurinn um farinn veg og þá rifjast upp hvað mikið ég hef lært af þér í gegnum tíðina. Allt frá unga aldri til síðustu ára, og hvað mikið ég hef notið þinnar leiðsagnar gegnum árin. Fyrsta og líklega stærsta heilræðið sem þú gafst mér, og hefur reynst mér vel, var eftir að við vorum í smalamennsku að eltast við kindur og ég kom of neðarlega að kindinni og missti hana upp í hlíðina. Þá sagðir þú að maður ætti að hugsa eins og andstæðingurinn og koma þannig í veg fyrir vandræði í framtíðinni. Þetta heilræði hefur virkað fyrir mig síðan, þó ekki bara á kindur heldur líka í brids og í lífinu.

Það er svo dýrmætt þegar maður hugsar til baka hvað við áttum margar stundir saman og hvað þú kenndir mér margt. Frá unga aldri dáðist ég að því hvað þú varst duglegur að tína ber og fannst þau alltaf, þó að ég stæði við hliðina á þér og sæi þau ekki. Eftir að ég fluttist til Sauðárkróks og fór sjálfur að fara í berjamó, þar sem ég naut ekki lengur berjanna sem þú færðir mömmu alltaf, þá skildi ég hvað það er gott að fara út í náttúruna. Þegar ég fór að kvarta um að ég fyndi ekki ber og búið væri að tína þau öll bentir þú mér á að gott væri að lyfta berjalynginu upp og virkaði það strax í fyrstu ferð á eftir.

Það er svo margt annað sem þú hefur kennt mér um ævina svo sem að mála og það litla sem ég veit um pípulagnir kenndir þú mér. Ekki er hægt að sleppa þeim ánægjustundum sem við áttum við spilamennsku þó svo að við tveir mynduðum ekki oft par, þá er einn minnisstæðasti leikur sem ég hef spilað við þig þar sem sveitin sem við vorum í sat yfir og vantaði tvo í aðra sveit. Bogi var búinn að lofa að þið spiluðuð í sveitinni, urðu andstæðingarnir ekki sáttir með það og varð að samkomulagi að við spiluðum saman og er það einn besti leikur sem ég hef spilað og vannst leikurinn hreint.

Um leið og ég þakka góðar stundir veit ég að vel verður tekið á móti þér í sumarlandinu og tekur Palla vel á móti þér eins og hún gerði öll þau ár sem þið voruð saman. Ég held að sú mynd sem ég er ánægðastur með að hafa tekið sé af ykkur Pöllu sofandi í svefnsófanum á aðfangadag rétt eftir hádegi og sælusvipurinn sem var á ykkur var engu líkur, sýndi bara þá hreinustu ást sem hægt er að sýna.

Að lokum sendi ég Línu, Ragga, Jobbu, Gesti, Kristni Boga, Ása og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ásgrímur (Ási).