Friðrik Arthúr Guðmundsson fæddist á Hólmavík 6. desember 1933. Hann lést á Heilbrigðistofnun Vesturlands á Hólmavík 10. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson verslunarmaður, f. 17. apríl 1897, d. 28. október 1975, og Sigríður Sigurðardóttir klæðskeri, f. 17. júlí 1896, d. 13. janúar 1971. Systkini Friðriks Arthúrs voru Fjóla, f. 1. september 1925, d. 12. júní 2017, Þórarinn, f. 25. apríl 1927, d. 6. júlí 2006, Laufey, f. 4. desember 1928, d. 21. júlí 1987, og Einar Leó, f. 4. desember 1928, d. 26. janúar 1989.

Eiginkona Friðriks Arthúrs var Bjarnveig Jóhannsdóttir, f. 18. febrúar 1942, d. 17. nóvember 1982. Friðrik Arthúr og Bjarnveig eignuðust sjö börn. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur, f. 26. nóvember 1960, maki Helga Sigvaldadóttir. Börn: Alexandra Björk, Friðrik Arthúr og Sigvaldi Ágúst; 2) Ólafur Jóhannes, f. 2. apríl 1962, d. 25. apríl 2016, maki Lára Jónsdóttir. Börn: Örvar, Unnur Eva, Bjarnveig, Jón Arnar og Arna Margrét. Barnabörn þeirra eru fimm; 3) Sigurður Kristinn, f. 13. júlí 1964. Barn hans er Arnór Friðrik; 4) Röfn, f. 2. desember 1965, maki Magnús Gústafsson. Börn: Veigar Arthúr, Atli Arnars, Júlíus Brynjar, Gústaf Hrannar, Guðmundur Ari og Róbert Fannar. Barnabörn þeirra eru sjö; 5) Fjóla Stefanía, f. 20. febrúar 1968. Börn: Sara Ösp og Lárus Orri. Barnabörn Fjólu eru tvö; 6) Vala, f. 4. apríl 1969, maki Kristján Hólm Tryggvason. Barn: Hilmar Tryggvi; 7) Rut, f. 11. október 1978, maki Árni Brynjólfsson. Börn: Gunnhildur Bjarnveig og Kristófer Jónas.

Friðrik Arthúr starfaði lengst af við sjálfstæðan rekstur vörubifreiða ásamt útgerð með sonum sínum.

Útför Friðriks Arthúrs fer fram frá Hólmavíkurkirkju í dag, 21. janúar 2023, og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku besti pabbi okkar.

Með sorg í hjarta kveðjum við þig, elsku pabbi. Við eru svo þakklátar að hafa fengið að njóta þeirra forréttinda að eiga þig að í lífi okkar. Takk fyrir allt, elsku pabbi, fyrir kímnina, gleðina og samverustundirnar. Þú varst kletturinn okkar, alltaf svo umhyggjusamur, hlýr og sterkur, okkar stoð og stytta. Þú varst alltaf svo hjálpsamur og veittir okkur styrk og stuðning þegar við þurftum hann. Þú hafðir alltaf svo góða nærveru, elsku pabbi, varst dásamlegur faðir, afi, tengdafaðir, vinur og náinn fjölskyldum okkar. Við verðum þér ávallt þakklátar fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Takk fyrir allar dásamlegu stundirnar sem við áttum með þér. Við vorum svo heppnar að eiga með þér yndislegar stundir í kringum áramótin og þær gefa okkur mikið í sorginni. Það er svo skrýtið að hafa þig ekki lengur hjá okkur, geta ekki heyrt röddina þína og hlustað á allar skemmtilegu sögurnar þínar. Við elskum þig og söknum þín óendanlega mikið, elsku pabbi.

Þínar dætur,

Rut og Vala.

Nú kveð ég þig, elsku afi minn, með sorg og söknuð í hjarta. Ég mun ávallt minnast þín sem besta afa í heimi. Þú hafðir alltaf svo mikinn áhuga á íþróttum og fylgdist alltaf vel með mér á keppnisferðum. Ég minnist þess alltaf þegar ég byrjaði minn gönguskíðaferil á lánsskíðum og skóm að þá fannst þér það ekki ganga upp. Þú gafst mér mín fyrstu gönguskíði, sem mér fannst ótrúlega flott og þú hafðir alveg skilning á því að þau gæti ég ekki notað nema að fá nýja gönguskíðaskó sem „lúkkuðu“ við nýju skíðin. Auðvitað var því reddað á núll einni. Þú fylgdist alltaf svo vel með því sem ég var að gera. Þú hafðir mikla trú á mér og hvattir mig áfram. Takk fyrir allt, elsku besti yndislegi afi.

Þinn

Hilmar Tryggvi.

Elsku afi.

Í dag kveðjum við þig með sorg og söknuð í hjarta.

Við eigum svo margar góðar minningar um þig sem við yljum okkur við. Þú varst alltaf svo áhugasamur um allt sem við vorum að gera og hvattir okkur alltaf áfram. Við erum þakklát fyrir hve mikið þú varst hjá okkur í bænum, þá gerðum við ýmislegt saman eins og að fara út að borða. Þá vildir þú oft fá sushi, kalt laxa-nigiri sem var í uppáhaldi.

Okkur fannst við eiga besta afa í heimi sem alltaf var til staðar fyrir okkur.

Takk fyrir allt, elsku besti afi okkar. Þín

Gunnhildur og Kristófer.

Látinn er vinur minn og félagi til margra ára Friðrik Arthúr Guðmundsson, hann lést á Heilsugæslunni á Hólmavík hinn 10. janúar sl. Ég hef alltaf sagt að hann væri lífgjafi minn.

Þannig var að ég var að sulla eitthvað í sjónum í norðurfjörunni á Hólmavík, þá fjögurra ára, nánar tiltekið árið 1941. Arthúr, eins og hann var alltaf kallaður, var þarna ásamt fleirum, og hann sá að eitthvað þyrfti að gera til að ná í mig. Hann sagði mér að hann hefði hlaupið ýmist heim til sín eða heim til mín og sagt að Kalli hefði dottið í sjóinn. Þetta hefði tekið alltof langan tíma vegna þess að hann stamaði svo mikið að fólkið skildi hann ekki. Hann sagðist hafa þurft að hlaupa niður í fjöru líka til að gá að mér. Loksins skildi Gróa systir mín, þá sextán ára gömul, hvað um var að vera, hún sótti mig þar sem ég flaut á sjónum og þurfti að vaða upp undir hendur því mig hafði rekið svo langt frá landi. Faðir minn tók svo við mér og hljóp með mig til læknisins, nafna míns Karls Georgs Magnússonar, sem gat komið mér til ráðs og rænu.

Þetta atvik varð fyrir áttatíu og einu ári, ég fjögurra ára og Arthúr átta ára. Þá var eftir að greiða björgunarlaunin, móðir mín fór til Arthúrs og fékk honum tvær krónur, hann sagði mér að hann hefði farið strax niður í kaupfélag og keypt sér sælgæti. Nokkrum áratugum seinna kom hann til mín og sagðist ekki hefðu átt að kaupa fyrir björgunarlaunin heldur eiga þau til minningar um björgunina, hann vildi fá að eiga svona pening, sem ég lét hann hafa; tvær krónur með ártalinu 1940.

Við vorum mikið saman þegar við vorum ungir enda stutt á milli heimila okkar. Svo urðum við stórir og fórum að vera hásetar á stóru bátunum, vorum aðallega að beita í landi, vorum saman á vertíð á Akranesi tvær vertíðir. Ég verð að geta þess hvað Arthúr var vandvirkur við beitningu; þegar hann var búinn að klára bjóðið var fallegt að sjá hvað vel var vandað til verksins.

Arthúr og mágur hans Stefán Jónsson létu smíða fyrir sig fallega sex tonna trillu á Akranesi og gerðu hana út í nokkur ár. Við vinirnir vorum ekki alltaf sammála í pólitíkinni, ég vissi ekki hvað hann kaus mig oft í hreppsnefnd, en það var einhverju sinni sem við ræddum málin og það fór vel á með okkur.

Þegar Arthúr hætti til sjós keypti hann sér vörubíl og vann í vegagerð og öllu öðru sem til féll.

Arthúr upplifði sorg tvisvar sinnum; þegar hann missti konu sína unga frá sjö börnum og son sinn Ólaf sem fórst á netaveiðum á sjó.

Við Valdís mín viljum votta öllum afkomendum Friðriks Arthúrs Guðmundssonar samúð og ég þakka fyrir lífgjöfina elsku vinur, og Guð verði hjá þér.

Karl Elinías Loftsson.