Ofbeldi Um 4 prósent landsmanna verða árlega fyrir heimilisofbeldi.
Ofbeldi Um 4 prósent landsmanna verða árlega fyrir heimilisofbeldi. — Morgunblaðið/Ásdís
Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining fjölgaði um tólf prósent á síðasta ári miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Hefur fjöldi tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri

Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining fjölgaði um tólf prósent á síðasta ári miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Hefur fjöldi tilkynninga til lögreglunnar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila aldrei verið meiri. Nær 70 prósent heimilisofbeldismála snúa að maka eða fyrrverandi maka. Talið er að um 4 prósent landsmanna verði árlega fyrir heimilisofbeldi og þar af tilkynni um fimmtungur þeirra tilvikin til lögreglunnar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir árið 2022.

Fram kemur að lögreglan á landsvísu hafi fengið 2.374 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila árið 2022. Jafngildir það að meðaltali tæplega sjö slíkum tilkynningum á dag eða 198 tilkynningum á mánuði.

Í skýrslunni segir að beiðnir um nálgunarbann í fyrra hafi verið 118 og því svipaðar að fjölda og síðastliðin þrjú ár á undan. Alvarlegustu heimilisofbeldismálin, þar sem lífi og heilsu árásarþola var ógnað endurtekið eða á alvarlegan hátt, voru 102 talsins árið 2022 sem er svipaður fjöldi og síðustu ár. Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl.