[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikael Egill Ellertsson landsliðsmaður í knattspyrnu var í gær seldur á milli félaga á Ítalíu en Venezia keypti hann af Spezia og hefur samið við hann til sumarsins 2027. Mikael er tvítugur framherji og hefur verið í fjögur ár á Ítalíu en hann fór…

Mikael Egill Ellertsson landsliðsmaður í knattspyrnu var í gær seldur á milli félaga á Ítalíu en Venezia keypti hann af Spezia og hefur samið við hann til sumarsins 2027. Mikael er tvítugur framherji og hefur verið í fjögur ár á Ítalíu en hann fór frá Fram til SPAL og þaðan til Spezia þar sem hann hefur leikið 11 leiki í A-deildinni í vetur. Venezia féll úr A-deildinni síðasta vor og er í fallbaráttu í B-deildinni.

Handknattleikssamband Íslands fær stærstan hluta af úthlutun ársins 2023 úr Afrekssjóði ÍSÍ, 82,6 milljónir króna, en framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands skýrði í gær frá árlegri úthlutun úr sjóðnum og að tillögur stjórnar afrekssjóðsins hefðu verið samþykktar. Styrkveitingar ÍSÍ til sambandsaðila nema alls rúmlega 535 milljónum króna en þar af var 205 milljónum úthlutað á fundi framkvæmdastjórnarinnar í desember og rúmlega 330 milljónum á fundi hennar í janúar.

Litháíski handboltamarkvörðurinn Vilius Rasimas verður áfram í röðum Selfoss en hann hefur gert nýjan tveggja ára samning við félagið. Rasimas hefur frá komu sinni verið lykilmaður í liði Selfyssinga og var meðal annars valinn besti leikmaður félagsins tímabilið 2021 ásamt því að vera valinn besti markvörður úrvalsdeildarinnar það tímabil.

Orri Sigurjónsson knattspyrnumaður frá Akureyri er kominn til liðs við Fram en hann hefur leikið allan sinn feril með Þór. Orri er 28 ára varnarmaður eða varnartengiliður og hefur leikið 138 deildaleiki með Þór, 17 þeirra í efstu deild árin 2013 og 2014.

Árni Snær Ólafsson knattspyrnumarkvörður frá Akranesi gekk í gær til liðs við Stjörnuna. Árni er 31 árs og hefur leikið allan sinn feril með ÍA og verið fyrirliði liðsins á seinni árum. Hann á að baki 179 leiki með liðinu í tveimur efstu deildunum. Árni mun berjast við Harald Björnsson um markvarðarstöðuna hjá Stjörnunni.