Kjaradeilur Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á blaðamannafundinum þar sem hann kynnti tillöguna.
Kjaradeilur Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari á blaðamannafundinum þar sem hann kynnti tillöguna. — Morgunblaðið/Eggert
Hátt í 21 þúsund félagsmönnum í Eflingu gefst kostur á því á greiða atkvæði með eða á móti miðlunartillögunni sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kynnti í gær. Atkvæðagreiðslan verður rafræn, hefst á hádegi á laugardag og stendur til kl

Agla María Albertsdóttir

Jón Pétur Jónsson

Ómar Friðriksson

Urður Egilsdóttir

Hátt í 21 þúsund félagsmönnum í Eflingu gefst kostur á því á greiða atkvæði með eða á móti miðlunartillögunni sem Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari kynnti í gær. Atkvæðagreiðslan verður rafræn, hefst á hádegi á laugardag og stendur til kl. 17 á þriðjudaginn.

Aðalsteinn sagði á blaðamannafundi í gær að viðræður Eflingar og SA væru í hörðum hnút og gætu farið enn dýpra ofan í skotgrafirnar á næstunni. Þá yrði afturvirkni samninganna í „stórkostlegri hættu“. Eina verkfærið sem hann ætti eftir í verkfærakistu ríkissáttasemjara væri að leggja fram miðlunartillögu. „Mér finnst ekki eftir neinu að bíða í þeim kringumstæðum þar sem ég hef sannfæringu fyrir því að við náum ekki að þoka málinu áfram með samtali. Þá finnst mér að það sé beinlínis skylda mín að stíga inn og reyna að nýta þetta síðasta verkfæri sem ég hef í mínu verkfæraboxi vegna þess að ef ég geri það ekki, þá met ég að það hafi veruleg og neikvæð áhrif á þá sem starfa á þessum kjarasamningi, á þau fyrirtæki sem fólkið starfar hjá og á samfélagið allt, á fólkið sem verður fyrir miklum áhrifum af átökum á vinnumarkaði en situr aldrei í þessu herbergi,“ sagði Aðalsteinn.

Tillagan kveður á um að félagsmenn Eflingar á almenna vinnumarkaðnum fái sömu launahækkanir og samið var um í desember við 18 félög í Starfsgreinasambandinu. Í öðru lagi fái allir afturvirkar hækkanir frá 1. nóvember og í þriðja lagi verði tillagan lögð í atkvæðagreiðslu allra félagsmanna Eflingar sem starfa eftir kjarasamningnum.

Aðalsteinn kvaðst hafa kynnt fyrir aðilum í gærmorgun hvenær atkvæðagreiðslan færi fram.

Lögð fram með óeðlilegum flýti

Forysta Eflingar brást hart við ákvörðun sáttasemjara í gær og hafnaði lögmæti tillögunnar og fordæmdi vinnubrögð hans í tilkynningu. Hún hefði verið lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu sem bæri að gera áður en hún yrði lögð fram skv. ákvæði í vinnulöggjöfinni. „Auk þess gengur miðlunartillaga ríkissáttasemjara gegn öllum venjum í samskiptum aðila vinnumarkaðarins, þar sem tíðkast hefur að miðlunartillögur fari bil beggja. Hin svokallaða miðlunartillaga felur í sér að afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn. Tillagan er algjörlega samhljóða síðasta tilboði Samtaka atvinnulífsins,“ segir í yfirlýsingu Eflingar. Stjórn félagsins kom saman eftir hádegi og kvaðst Sólveig Anna Jónsdóttir formaður félagsins einnig ætla að ráðfæra sig við lögmann um næstu viðbrögð. Hún sagðist í samtali við mbl.is hafa frétt af miðlunartillögunni frá þriðja aðila og ríkissáttasemjari hefði hótað henni aðgerðum ef hún mætti ekki til fundar.

Aðalsteinn sagðist í samtali við mbl.is í gær ekki þurfa samþykki beggja deiluaðila til að leggja fram miðlunartillögu í kjaradeilu Eflingar og SA. „Ég hef skýra lagalega heimild til að leggja fram mína miðlunartillögu,“ sagði hann. Hann kvaðst hafa kallað deiluaðila til fundar í gær og ráðgast við þau.

Skipbrot viðræðna

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA sagði að miðlunartillagan ylli vonbrigðum. Hún sýndi að báðum aðilum hefði mistekist í samningaviðræðunum og að viðræðurnar hefðu beðið skipbrot. „Það hefur verið afstaða Samtaka atvinnulífsins í áratugi að kalla ekki eftir inngripum ríkisvaldsins í kjaradeilur. Og það á líka við í þessari deilu okkar við Eflingu,“ sagði Halldór og bætti við að ríkissáttasemjari væri með þessu að ganga á rétt beggja samningsaðila til að ná kjarasamningi. „Við höfum talað alveg skýrt um það að verkalýðsfélög sem boða verkföll og framkvæma verkföll á umbjóðendur Samtaka atvinnulífsins fyrirgeri sér afturvirkni kjarasamninga. En núna er ríkissáttasemjari að bjóða þessa sömu afturvirkni sem er miður og ég er ósáttur við,“ sagði Halldór.

Í 27. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur segir að ef samningaumleitanir sáttasemjara beri ekki árangur sé honum heimilt að leggja fram miðlunartillögu til lausnar vinnudeilu. Þá eru nokkur skilyrði sem sáttasemjari þarf að uppfylla, m.a. að sáttasemjari hafi leitað sátta milli allra samningsaðila sem eiga í hlut og telji ekki horfur á samkomulagi þeirra í milli. Einnig er sett það skilyrði „að aðilum vinnudeilu hafi gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum við hugmyndir sáttasemjara sem þeim hafa verið kynntar beint eða opinberlega um að leggja fram sameiginlega miðlunartillögu“.

Miðlunartillaga telst felld í atkvæðagreiðslu ef meira en helmingur greiddra atkvæða er á móti henni og ef mótatkvæði eru fleiri en fjórðungur atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá. Ekki hefur komið til þess undanfarin ár að fjórðungur félagsmanna taki þátt í atkvæðagreiðslu innan Eflingar. Erfitt mun því reynast að fella tillöguna.

Nokkur dæmi um miðlunartillögur

Víðtækir samningar með tillögu

Ýmis dæmi eru um að ríkissáttassemjari hafi lagt fram miðlunartillögu í kjaradeilum á umliðnum árum og áratugum þar sem sáttaumleitanir hafa ekki borið árangur.

Vorið 1992 náðust heildarkjarasamningar aðila vinnumarkaðarins með tilstilli miðlunartillögu, og var það í fyrsta skipti sem miðlunartillöguformið var notað við svo víðtæka kjarasamninga. Hafði þá náðst samkomulag milli aðila um alla þætti kjarasamnings aðra en launalið og samningstíma. 2018 samþykktu ljósmæður miðlunartillögu með um 95% atkvæða og verkfalli var aflýst en gerðardómi var falið að kveða upp úr um launasetningu stéttarinnar. Sumarið 2020 samþykktu hjúkrunarfræðingar miðlunartillögu með 64% atkvæða eftir að langvinnar deilur höfðu staðið og var launalið vísað til gerðardóms. Í nokkrum tilvikum hefur miðlunartillaga verið felld. Í nóvember árið 2004 kolfelldu grunnskólakennarar miðlunartillögu sem lögð var fram í deilu þeirra við sveitarfélögin með 93% atkvæða. Árið 1995 felldu sjómenn miðlunartillögu sem sáttasemjari lagði fram í kjaradeilu þeirra við útvegsmenn en þá var verkfall hafið á fiskiskipum.